03.03.1976
Efri deild: 70. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2344 í B-deild Alþingistíðinda. (1935)

182. mál, saltverksmiðja á Reykjanesi

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég sé eins og hv. síðasti ræðumaður ástæðu til þess að þakka hæstv. ráðh. fyrir frv. það sem hér er lagt fram. Að dómi okkar alþb: manna er mjög mikið í húfi að við kostum kapps um að nýta orkulindir landsins og hráefni þess og vinnuafl til þess að auka hagsæld landsmanna, slíkt sé höfuðmarkmið. Ég fæ ekki betur séð en tilraunir þær, sem gerðar hafa verið með sjóefnavinnsluna á Suðurnesjum, séu til alls þess arna fallnar, en eins og liggur í augum uppi mjög mikið í húfi að afraksturinn bæði af þessum tilraunum, sem kostaðar hafa verið af opinberu fé, og eins af þeim fyrirtækjum og þeirri framleiðslu, sem hér er miðað að, komi landsfólkinu öllu til góða, verði ekki til þess að auðvelda einstökum aðilum auðssöfnun, og enn þá siður að afraksturinn af þessum tilraunum og síðan sú framleiðsla, sem á þeim byggist, falli á einhvern hátt útlendum peningamönnum í skaut.

Ég ítreka það að ég er þakklátur fyrir frv., sem hér hefur verið lagt fram, og treysti því, að þannig verði að unnið að sú framleiðsla, sem þarna mun hefjast, verði þjóðinni allri til blessunar.