03.03.1976
Efri deild: 70. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2348 í B-deild Alþingistíðinda. (1939)

182. mál, saltverksmiðja á Reykjanesi

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Vegna ummæla hv. þm. Alberts Guðmundssonar um eignarhald á þeirri verksmiðju sem hér er um að ræða vil ég náttúrlega fyrst og fremst undirstrika þetta atriði, að það, sem fyrir mér vakir, er að ef í ljós kemur, sem ég vænti, að rekstur fyrirhugaðrar sjóefnaverksmiðju reynist arðbær þannig að í það verði ráðist að koma henni upp, þá verði það sem allra, allra flestir íslenskir einstaklingar sem eigi jafnan hlut í því arðbæra fyrirtæki. nánar tiltekið 218 þús. eins og talan stendur í dag, en ekki verði við það miðað að sérréttindamenn, sem einhverra hluta vegna hafa vald á kapítali, fái að kaupa þennan rétt af öðrum með því að gerast stærri eignaraðilar að verksmiðjunni en gengur og gerist. Sem sagt, ég legg áherslu á þetta atriði, að reynist svo sem við vonum, að þarna geti orðið um mjög arðbært fyrirtæki að ræða, þá verði það þjóðareign.

Ég hef ekkert að athuga við hið fyrirhugaða fyrirkomulag, að hlutafélagsform verði á þessu bráðabirgðafélagi sem stofnað verði til þess að fullkomna þessar athuganir. Mér hefði þótt eðlilegt að það hefði verið ríkið sem héldi þessum tilraunum áfram, eins og hv. þm. Albert Guðmundsson rannar taldi líka, að ríkið sjálft fullkomnaði þessar tilraunir. Hitt finnst mér aftur á móti ekki eðlilegt, ef í ljós kemur að verksmiðja sú, sem reist verður á grundvelli þessara tilrauna, muni reynast arðbær, þá verði farið að setja niðurstöðurnar, selja réttinn til þess að reisa þarna verksmiðju einhverjum einstaklingum sem útiloka þá almenna eða sem allra almennasta aðild að verksmiðjunni. Ég tel að ef niðurstaðan verður sú að þarna megi reisa verulega arðbæra verksmiðju, þá sé eðlilegt að eignaraðilinn verði íslenska ríkið, sem sagt almenningur. En fyrst aðstandendur frv., hæstv. iðnrh. og ráðunautar hans, telja það umfangsminnst og eðlilegt að það verði hlutafélag sem ljúki þessum rannsóknum finnst mér það augljóst mál að langstærsti hluthafinn og sennilegast raunar sá aðilinn, sem eigi alla hlutina, verði ríkið. En ég tel ekkert athugavert við það þó að þetta form verði á eignaraðild eða framkvæmdaaðild á lokastigi rannsóknanna.