03.03.1976
Efri deild: 70. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2349 í B-deild Alþingistíðinda. (1941)

182. mál, saltverksmiðja á Reykjanesi

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. iðnrh, fyrir þær upplýsingar að í rn. hans sé unnið að því hvernig fara megi um hitaréttindin. Mér finnst liggja á bak við þessi orð að einhver eigi þarna allangt niður, þótt ekki séu nefndar neinar tölur, þó varla norður og niður fyrir Húsavíkur-Jón, því að það vita flestir hvar hann er dysjaður. En hér skiptir miklu máli hvernig til tekst. Ég vil að það komi skýrt fram, a.m.k. sem mín skoðun og minna flokksmanna. Það skiptir sköpum bæði um þetta mál og margt fleira, því að það er grundvallaratriði.

Hv. 12. þm. Reykv., Albert Guðmundsson, sagði: Ríkið á að ljúka við allt fyrst, svo eiga þeir að fá það, sem eiga kapítalið, og græða. (AG: Sagði ég þetta virkilega?) Það á að selja það, sagði hann, til þeirra. Ég skrifaði það orðrétt. Það á að selja það. Ríkið lýkur við allt fyrst og síðan á að framselja. Það má sem sagt fá úr ríkissjóði ótalin hundruð millj. til orkurannsókna og beislunar orku, sækja hana 1, 2 og jafnvel 3 km niður og borga einstaklingum fyrir það, og síðan eiga vissir einstaklingar að fá að hagnýta það. Ég vil að ríkið ráði hér mestu um og yfirgnæfandi mestu og styð tal 5. þm. Norðurl. e. auðvitað í því efni þegar um slíkar aðstæður er að ræða.

Við erum þó allir sammála um að þetta verði þjóðþrifafyrirtæki þegar það kemst á fót og mali bæði salt og malt dag og nótt fyrir þjóðarbúið og efli byggð bæði á Suðurnesjum og annars staðar. En það skiptir meginmáli frá mínu sjónarmiði hvernig farið verður með eignarrétt að þeirri orku, sem þarna finnst, og eignaraðild og stjórnun á þessu fyrirtæki, því að það er ekki á færi nokkurs annars en ríkisins og ríkisvaldsins að útvega það fjármagn og vera í ábyrgð fyrir því, og þá á ríkið að eiga yfirgnæfandi meiri hl. og raunar allt að mínu mati. Annars væri þarna auðnin eins og verið hefur um 1100 ár í okkar sögu, ef ríkið kæmi ekki til. Þetta er grundvallarágreiningur í okkar lífsskoðun. Ég undirstrika mína eins og hann undirstrikaði sína og mun fylgjast með hvernig þessu vindur fram.

Ég vil leggja á það áherslu, og það var aðaltilgangur minn með að standa upp, að þeirri athugun, sem ráðh. sagði frá að væri í gangi, lyki sem fyrst svo að það lægi fyrir, áður en frv. kemur úr n., hvernig fer um hitaréttindi á Suðurnesjum varðandi fyrirhugaða aðalverksmiðju sem þetta frv. er undanfari að.