03.03.1976
Efri deild: 70. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2351 í B-deild Alþingistíðinda. (1948)

184. mál, iðnfræðsla

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Þetta frv., sem er flutt samkvæmt beinni beiðni frá vissum aðilum sem starfa að iðnfræðslumálum, alveg sér í lagi á Austurlandi, þarfnast út af fyrir sig ekki langrar framsögu umfram það, sem í grg. segir.

Ég hef nýlega rætt hér nokkuð almennt um stöðu verkmenntunar okkar, hversu veik og ófullnægjandi hún er. Hæstv. menntmrh. hefur hér nýlega einnig gert ítarlega grein fyrir þeim breytingum sem á hafa þó orðið, þeim áföngum sem t.d. hafa fengist fram í tengslum við framhaldsstigið almennt, þar sem fyrsti hluti iðnmenntunar hefur verið felldur inn í hið venjulega nám, einnig með verknámsskólunum sem a.m.k. geta með leyfi ráðh. skilað sveinum fullmenntuðum frá sér bæði á bóklegu og verklegu sviði, þó að þar hafi ekki langt verið gengið, að því er ég best veit. Að lokum hefur verið á það minnt að í fjölbrautaskólunum opnaðist leið en þar á eftir að finna hinum verklega þætti eðlilegan farveg til lokanáms.

Þessar umr. urðu vegna frv. um fullorðinsfræðslu sem hér liggur nú fyrir og þá boðaði ég frv.-flutning af þessu tagi, sem fæli í sér þær breytingar til bóta sem nauðsynlegastar kynnu að teljast. Þar skiptir efni 2. gr. frv. vitanlega höfuðmáli, en skoðun okkar flm. er sú að hvað sem líður þessum breytingum sem við erum hér með og hljóta að teljast brýnar, þá verði hér til að koma algjör uppstokkun þessa kerfis í heild og þá vitanlega í tengslum við heildarlöggjöf um framhaldsmenntun að grunnskólanámi loknu.

Ég vil leyfa mér að vitna hér orðrétt til grg. okkar flm., en hún hljóðar svo:

„Frv. þetta felur í sér þá grundvallarbreytingu á kostnaðarákvæðum gildandi laga um iðnfræðslu að ríkissjóður greiði að fullu stofnkostnað iðnfræðsluskóla hliðstætt því sem lög um menntaskóla — og raunar fleiri skóla á framhaldsstigi –kveða á um. Það er skoðun flm. að það ákvæði gildandi laga, að sveitarfélögin beri helming af stofnkostnaði við iðnfræðsluskóla, hafi um langt skeið verið stærsta hindrunin í vegi eðlilegrar þróunar verknámsskóla í landinu.

Að því er varðar rekstrarkostnað við iðnfræðsluskóla er í frv. gert ráð fyrir þeirri breytingu að einvörðungu það sveitarfélag, sem jafnframt er aðsetur skóla, beri nokkra fjárhagslega ábyrgð á rekstri skólans, þó aðeins að því marki að ekki verði fjötur á eðlilegu skólastarfi. Hér er því aðeins gert ráð fyrir að sveitarfélagið kosti húsvörslu, ræstingu og lýsingu svo og hitun að vissu marki. Flm. telja að hið sama eigi að gilda um alla skóla á framhaldsskólastigi, einnig menntaskóla.

Þá er með frv. lagt til að gerðar verði til einföldunar nokkrar breytingar á kjöri skólanefnda, en reglur þar að lútandi hafa verið nokkuð á reiki. Áfram er þó gert ráð fyrir að heimamenn tilnefni meiri hl. fulltrúa í skólanefnd.

Á síðasta þingi gerði menntmrh. grein fyrir störfum iðnfræðslunefnda sem rn. skipaði hinn 15. febr. 1973 til að endurskoða iðnfræðslulögin, en n. var jafnframt falið að skila frv. til nýrra iðnfræðslulaga. Þar kom fram að nefndarstörfin hefðu dregist á langinn, en vonir stæðu þó til að unnt yrði að leggja nýtt frv. um þetta efni fyrir Alþ. það sem nú situr.

N. skilaði áliti 19. des. s.l., en náði ekki samstöðu um tillögugerð eða frv. að nýjum iðnfræðslulögum. Ástæða er því til að ætla að umrætt frv. verði ekki lagt fyrir þetta þing.

Þar sem svo illa hefur til tekist um undirbúning þessa þýðingarmikla máls, telja flm.menntmrn. verði að hafa forgöngu um endurskoðun iðnfræðslulaganna. Í þeim efnum er eðlilegt að höfð verði hliðsjón af þeim hugmyndum og ábendingum, sem fram komu í álitsgerð meiri og minni hl. iðnfræðslulaganefndar og telja má að samrýmist þeirri grundvallarstefnu að starfsemi allra skóla og námsbrauta á framhaldsskólastigi verði samræmd undir einni yfirstjórn.

Sú heildarendurskoðun iðnfræðslulaganna, sem hér um ræðir, þarf ekki að áliti flm. að hindra að strax verði á grundvelli framangreindrar stefnumörkunar gerðar ýmsar breytingar á lögunum. Þar virðist brýnast að taka til endurskoðunar þau kostnaðarákvæði sem eru meginefni þessa frv.“

Varðandi einstakar gr. skal tekið fram að megintilgangur 1. gr. er að koma á fastari skipan en verið hefur um tilnefningu fulltrúa í skólanefndir. Víða hefur hér orðið um nokkurt vandamál að ræða sem jafnvel hefur staðið eðlilegu starfi fyrir þrifum. Lagt er til í 1. gr. að tveir fulltrúar í 5 manna skólanefnd skuli tilnefndir af sveitarstjórn þess sveitarfélags sem skólinn starfar í, einn af fræðsluráði viðkomandi fræðsluumdæmis og nemendur kjósi svo einn fulltrúa í skólanefnd samkv. reglugerð sem ráðh. setur. Einnig er skilyrði um það áfram að fulltrúar þeir, sem sveitarstjórn kýs í skólanefnd, skuli vera iðnlærðir eða með viðtækari verk- eða tæknimenntun.

2. gr. er, eins og ég áður hef sagt, veigamest, þ.e. að sama gildi um stofnkostnað iðnskóla og menntaskóla. Þetta er ekki eingöngu fjárhagsleg spurning, heldur fyrst og fremst um mat á menntun, viðurkenning á því að iðnmenntunin sé í engu síðri hinni sem eftir bóknámi einu fer og endar á stúdentsprófi. Ég held að við eigum hér að hafa jafnaðarmerki á milli og hefja þannig verkmenntunina til aukins vegs. Ekki kemur okkur flm. til hugar að þessi breyting verði einhlít. Auðvitað þarf fleira til að koma: aðbúnaður, menntunarkröfur og síðast en ekki síst gjörbreyting á verklegum þáttum menntunarinnar þar sem horfið væri sem mest frá hinu um flest úrelta meistarakerfi og verklega námið fellt inn í skólastarfið sjálft sem allra mest, sömuleiðis með því að skipa verkmenntabrautinni jafnhliða öðrum í fjölbrautaskólunum. Allt kallar þetta á heildarendurskoðun og meiri og minni umbyltingu ríkjandi kerfis. En hér teljum við þó óumdeilanlegt að gera eigi breytingu strax. Heimaaðilar, sem nú eiga að sjá um 50% stofnkostnaðar, eru mjög misáhugasamir. Samstarf þeirra getur oft verið afleitt og kemur hinn leiði hrepparígur þar oft við sögu. En aðalatriðið er þó að flestum er þetta ofviða eða mjög erfitt og þá hefur það oftar en hitt orðið dapurleg staðreynd að þessu verkefni hefur verið ýtt til hliðar eða það þokast þangað sjálfkrafa. Um 3. gr. segir svo í athugasemdum:

„Hér er lagt til að horfið verði frá þeirri tilhögun að deila þeim rekstrarkostnaði, sem ríkissjóður ekki greiðir, á mörg sveitarfélög. Hins vegar er talið eðlilegt að leggja nokkra fjárhagslega ábyrgð á það sveitarfélag sem aðsetur skóla tilheyrir og binda hlut sveitarfélagsins við afmarkaða rekstrarþætti: húsvörslu, ræstingu, lýsingu og hitun. Um hitun er þó lagt til að gildi sú regla að hlutur sveitarfélagsins verði aldrei hærri en sem svarar meðalkostnaði við hitun skólahúsnæðis á hitaveitusvæði, en ríkið taki á sig þann kostnað sem umfram kann að vera. Um þetta atriði verði settar sérstakar reglur.“

Varðandi þessa breytingu kunna að verða deildar meiningar. En þó fer það ekki á milli mála að það er ekki lítið atriði fyrir eitt sveitarfélag að hafa skólastofnun sem slíka með tilheyrandi starfsliði, einkum eftir að iðnskóli eða verkmenntaskóli yrði mikilvæg stofnun og mikilsvirt um leið, svo sem við hljótum að stefna að. Á móti beinum og óbeinum tekjum og hlunnindum sveitarfélagsins af stofnuninni telst sanngjarnt og eðlilegt að það komi hér á móti varðandi þá rekstrarliði sem um er rætt, svipað og gildir um grunnskóla. Hið sama álitum við að gildi um menntaskólana. Hver slík stofnun er sveitarfélagi, einkum úti á landsbyggðinni, afar mikilvæg lyftistöng, og um leið og stofnkostnaði er hér að fullu aflétt þykir okkur þessi skipan eðlileg fyrir víðkomandi sveitarfélag.

Varðandi hitunina er beint vísað til frv. sem hér var flutt í haust öðru sinni um jöfnun hitakostnaðar sem ríkið stæði nokkurn straum af á köldu svæðunum okkar svokölluðu. Þetta frv. var í fyrra flutt af Sigurði Blöndal og hlaut í upphafi öflugan stuðning sveitarfélaga, ekki aðeins þeirra sem góðs kynnu að njóta af, heldur og heildarsamtaka þeirra. Okkur þykir því rétt að gera ráð fyrir þessari breytingu hér einnig því að einhver lausn er hér nauðsynleg fyrir þá aðila sem þyngstar byrðar bera.

Þetta frv. skýrir sig að öðru leyti sjálft og er fram sett í þeim tilgangi að koma hreyfingu á málið og reyna, ef unnt væri, að knýja fram allra nauðsynlegustu lagfæringar á iðnfræðslulögunum. Um þetta höfðum við flm. haft náið samráð við aðila sem þekkja gerst til hvar skóinn kreppir og hafa að vísu uppi hugmyndir um aðra heildarlausn í samræmi við nýtt skipulag framhaldsnámsins alls, en telja þó að hér megi lagfæra mestu annmarkana við núverandi aðstæður einmitt á þann veg sem hér er lagt til.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til að að lokinni þessari umr. verði þessu máli vísað til hv. menntmn.