04.03.1976
Efri deild: 71. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2363 í B-deild Alþingistíðinda. (1963)

155. mál, fullorðinsfræðsla

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég skal vera mjög stuttorður. Ég styð raunar það markmið, sem mér finnst felast í þessari till., að öllu leyti nema einu. Ég álít að við eigum að stöðva innflutning frá Bretlandi á meðan við stöndum í þeim deilum, sem við erum nú í, og mér er enginn akkur að því að gera innflutning frá Bretlandi að féþúfu fyrir okkar landhelgisgæslu. Ég vildi heldur spara-þann gjaldeyri sem þangað fer. Ég nefnilega lít þessa landhelgisdeilu ákaflega alvarlegum augum, ef ég má nota það svo, meira að segja svo alvarlegum, að ég vil á sem flestum sviðum rifta sambandi okkar við breta.

Ég get skýrt frá því hér að ég hef í flugráði beitt mér fyrir því að ekki yrðu keypt flugskýli frá Bretlandi. Þeir voru lægstbjóðendur. Þetta var samþ. og ég hygg að það verði ekki gert. Ég álít þetta eðlilegt á meðan svo stendur á sem nú er og bretar hafa þá framkomu á miðunum og gagnvart sjálfum hornsteini okkar efnahagslífs. Ég held við verðum sem sagt að taka þetta mjög föstum tökum. Ég vil ljúka þessum orðum með því sem ég sagði í upphafi, að ég fylgi þessari meginstefnu, en ég er efins um, að við eigum að gera þennan innflutning að féþúfu, heldur loka alveg fyrir hann sem stendur.