04.03.1976
Efri deild: 71. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2364 í B-deild Alþingistíðinda. (1964)

155. mál, fullorðinsfræðsla

Flm. (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Síðasti ræðumaður, hv. þm. Steingrímur Hermannsson, mælti að vísu það sem mér og okkur flm. þessa frv. er einnig skapi næst, eins og segir í grg. með frv., en þar segir: „Hefði raunar verið sæmst að dómi flm. að leggja algjört bann við verslunarviðskiptum við Stóra-Bretland, ef ekki hefði leitt af slíkri ráðstöfun vandræði fyrir ýmsa sem lítið hafa til slíks unnið, og þá fyrst og fremst í sambandi við kaup á varahlutum í ýmsar vélar.“ Undir þetta viðhorf hv. þm. Steingríms Hermannssonar get ég fyllilega tekið. Mér er kunnugt um að þetta, að loka gjörsamlega fyrir innflutning frá Bretlandi, hefur komið til umr„ gerði það í tíð vinstri stjórnarinnar a.m.k., en menn komust að þeirri niðurstöðu að það væri búið að flytja inn svo margar Massey Ferguson vélar og við værum með svo margs konar vélbúnað í fiskiskipunum okkar, að við mundum þurfa að fara krókaleiðir til þess að ná varahlutum í þessar vélar erlendis frá. Af þeim sökum voru talin tormerki á að fara þessa leið.

25% skatturinn á allan innflutning frá Bretlandi mundi að sjálfsögðu leiða til þess að viðskipti okkar mundu beinast að ákaflega miklu leyti annað. Hv. þm. Albert Guðmundsson sagði það alveg dagsatt. Ég sá það þegar hann kom hingað inn í þessa d. að hann hafði ekki tíma til að lesa grg. með frv. og ekki frv. sjálft til hlítar og það ber að virða honum til vorkunnar. Aftur á móti staðhæfi ég það, að hann hefði átt að lesa grg. á enda áður en hann hélt ræðu sína. Þá hefði hann hlíft mér við nauðsyn þess að leiðrétta hann í einu grundvallaratriði. Ég ætla að lesa fyrir hann niðurlag grg. aftur:

„Ef miðað er við innflutning okkar frá Bretlandi í fyrra mundi gjald það, sem ráðgert er í frv. þessu, nema hvorki meira né minna en 2 milljörðum kr.“ Svo heldur áfram í grg. og segir: „Hins vegar er ljóst að tollur af þessu tagi mundi beina viðskiptum okkar inn á aðra markaði að verulegu leyti, en slíkt hlýtur að teljast æskilegt, eins og nú er að okkur búið af hálfu breta. Hefði raunar að dómi flm. verið sæmst að leggja algert bann við verslunarviðskiptum við Stóra-Bretland“ o.s.frv.

Þarna kemur þetta fram. Ég fer alls ekki dult með þá skoðun mína, — raunar gerði ég grein fyrir henni í framsöguræðu áðan, — að það sé siðlaust athæfi hjá okkur eins og á stendur að versla við breta upp á þau kjör sem við höfum sætt af þeirra hálfu hin síðari árin og það er ekki aðeins nú síðasta ár. Við höfum verið undir fallöxi þeirra allar götur síðan 1948. Það hefði heldur borið vott um pólitískan þroska og sæmilega reisn af hálfu íslendinga að beina ekki svo mjög verslunarviðskiptum sínum til Bretlands eins og við höfum gert á þessum árum þrátt fyrir hugsanlegan hagnað af slíkri verslun.

Ég hef áður sagt frá því hversu tiltölulega lágar upphæðir það eru sem fara til kaupa á varahlutum í framleiðsluvélar okkar frá Stóra-Bretlandi skv. upplýsingum Hagstofunnar um þessi verslunarviðskipti í fyrra, að kaup á varahlutum í hreyfla í dráttarvélum, fiskibátum og bílum námu ekki nema 66 millj. kr. Og ef við ætlum nú að taka sérstakt tillit til vesalings fólksins sem á breskar bifreiðar og hlífa því, en láta það þó minnast þess með framlagi í Landhelgissjóð, við hvaða land þessir aðilar versla, þá nemur sú upphæð, sem við keyptum aðra varahluti í bifreiðar fyrir frá Stóra-Bretlandi, ekki nema 103 millj. Þetta er samtals ákaflega lítill hluti af heildarinnkaupum okkar frá Bretlandi sem voru, eins og fyrr segir, 8 milljarðar.

Ég andmæli því að við flm. þessa frv. flytjum það af heift út í breta. Persónulega vil ég lýsa yfir því úr þessum ræðustól að ég hata ekki breta. Ég geri mjög ljósan greinarmun á bretum — bresku þjóðinni — annars vegar og útgerðarauðvaldinu On the Humberside sem hefur fengið bresku stjórnina til þess að gera út herskip á miðin okkar fram að þessu, — mjög stóran mun á þessum tveimur aðilum. Og guði sé lof, liggur mér nær að segja, þá er það ekki aðeins á Íslandi sem er talsverður munur á þjóð og ríkisstj. Hann er mjög mikill í Bretlandi, í þessu máli ekki síður en ýmsum öðrum.

Ég andmæli því að þetta frv. sé flutt af heift í garð breta. Aftur á móti er þetta frv. flutt til þess að undirstrika þá nauðsyn að fólkið í þessu landi taki af fullkominni alvöru þátt í vörn hinnar nýju fiskveiðilögsögu okkar og geri sér grein fyrir því, að það verður nokkuð á sig að leggja til þess að okkur megi takast að sigra í þeim átökum sem við eigum í núna. Og ég ítreka niðurlagsorðin í grg., að ég tel að það fólk, þeir íslendingar sem vilja þrátt fyrir allt halda áfram að kaupa breskan varning, það eigi að gefa því mjög gott tækifæri til þess að minnast landhelgisgæslunnar sérstaklega með sérstöku framlagi í sjóð hennar.