04.03.1976
Efri deild: 71. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2368 í B-deild Alþingistíðinda. (1968)

155. mál, fullorðinsfræðsla

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég vit aðeins leiðrétta það hjá hv. 12. þm. Reykv. að ég hafi gert kaup á skýli á Reykjavíkurflugvelli að umræðuefni hér. Það gerði ég að sjálfsögðu ekki. Það er annað mál. Ég nefndi aðeins eitt atriði við þau kaup, það eina atriði að þar var — og ég fagna því mjög — samþ. till. frá mér að hafna tilboðinu frá Bretlandi, sem þó var lægst, vegna þessa ástands sem nú ríkir við breta. Tilboðin voru fleiri en tvö. Það voru nokkur tilboð önnur sem voru stórum hærri, en það voru tvö sem komu til álita. Ég ætla ekki að ræða það frekar. Þessu var hafnað vegna þessa ástands sem núna ríkir, og ég held að það sama eigi að gilda um annan innflutning frá Bretlandi nú.

Rétt er að e.t.v. er erfitt að loka fyrir allan innflutning. Þó er það staðreynd að við þurfum að þola ýmis óþægindi af þessari deilu, og ég held að við eigum bara að bera þau, satt að segja. Ég lít svo á málið. Ef við ætlum að hafa engin óþægindi af deilunni, aðeins útiloka það sem er óþægindalaust, þá er ekki mikil alvara í þessu máli hjá okkur. Ef það er alvara í þessari deilu, þá hljótum við að taka á okkur ýmis óþægindi, kannske mikil óþægindi. Því er ég enn helst á þeirri skoðun að rétt sé að stöðva innflutning. E.t.v. mætti fara þá millileið að setja þann innflutning undir leyfi og meta hverju sinni. þó að það sé mér ekki að skapi, satt að segja. Það mætti kannske hugsa þá leið. En ég er sem sagt alveg samþykkur því meginsjónarmiði að það beri að skerða sem allra mest viðskipti okkar við breta á meðan svo stendur sem nú er.