04.03.1976
Efri deild: 71. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2371 í B-deild Alþingistíðinda. (1972)

155. mál, fullorðinsfræðsla

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu alveg laukrétt ábending hjá hæstv. utanrrh. að samningurinn við Efnahagsbandalagið var gerður í tíð fyrri ríkisstj. og þar áttu ráðh. Alþb. hlut að eins og aðrir ráðh. sem lutu samþykktum þáv. stjórnarflokka. Hitt er allt annað mál, og ég efast ekki um að hæstv. utanrrh. minnist þess, að á sínum tíma var mönnum ekki fyllilega ljóst hvort Efnahagsbandalagið mundi gera alvöru úr því að beita fyrir sig svokallaðri bókun 6 og láta ekki samningana koma til framkvæmda af sinni hálfu. Það var, minnist ég, töluvert umdeilt atriði hvort til þess kæmi. En síðan hefur reynslan sýnt að Efnahagsbandalagið skirrist ekki við að beita þessari bókun og það ekki aðeins í nokkrar vikur eða mánuði, eins og kannske einhverjir höfðu ímyndað sér að raunin yrði í mesta lagi, heldur í mjög langan tíma, fyrst tæp tvö ár vegna deilu íslendinga við vestur-þjóðverja og síðan nú í framhaldi af því vegna deilu okkar við breta. Ég held því að það sé jafnljóst og verða má, hvort heldur er frá lögfræðilegu sjónarmiði eða bara frá sjónarmiði almennrar heilbrigðrar skynsemi, að það þurfti og það þarf ekki neina uppsögn þessara samninga, það þarf ekki að rifta þessum samningum með formlegum hætti af hálfu Alþ. eða ríkisstj. til þess að komast hjá því að lækka tolla af vörum frá þessum löndum. Hér er einfeldlega um að ræða brostnar forsendur, breyttar aðstæður frá því sem var þegar samningurinn var gerður. Ég er sannfærður um að ekki mundi nokkur erlendur aðili telja íslendingum það til hnjóðs þó að þeir frestuðu því að lækka enn frekar tolla á vörum frá löndum efnahagsbandalagsríkjanna, úr því að reyndin hefur orðið sú að þau lækkuðu alls ekki tolla á vörum frá okkur. Ég held sem sagt að ríkisstj. hefði ekki þurft að styðja sig við neina formlega breytingu á samningum til þess að taka þá sjálfsögðu ákvörðun að fresta þessari tollalækkun, heldur hefði þar einfaldlega verið um að ræða brostnar forsendur.

Ég ætla svo ekki að orðlengju um þetta atriði. Það er kannske rétt að minna á það hér, að Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendasamband Íslands, báðir þessir aðilar, gerðu kröfu til þess á hendur ríkisstj. að þessari tollalækkun yrði frestað, en hún ákvað samt að láta hana koma til framkvæmda, og þetta tel ég persónulega hneyksli, ég er ekkert að skafa utan af því.

Það gleður mig einnig að enda þótt hv. þm.

Albert Guðmundsson væri nú heldur mjúkmálli. þegar hann ræddi um gerðir ríkisstj., heldur en þegar hann svo aftur ræddi um tillöguflutning okkar stjórnarandstæðinga, þá virðist hann samt ekki sjá sér annað fært en að fallast á það sjónarmið mitt að þessi tollalækkun um s.l. áramót hefði ekki átt rétt á sér. Ég held að allir hljóti að hafa skilið orð hans á þennan veg. Og úr því að hann er okkur sammála um að tollalækkunin um s.l. áramót átti ekki rétt á sér, þá held ég að hann hljóti við nánari umhugsun, —- því að nú liggur það fyrir í málinu að hann hefur alls ekki hugsað málið og kom hér upp áður en hann hafði almennilega kynnt sér málið, — ég held sem sagt að það hljóti að koma í ljós eftir að hann hefur kynnt sér málið og eftir að hann er nú búinn að fallast á að tollalækkunin um áramótin hafi verið mistök, að það sé rétt að fallast á þessa till. um að hækka þessa tolla aftur.