04.03.1976
Neðri deild: 73. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2373 í B-deild Alþingistíðinda. (1977)

158. mál, vátryggingariðgjöld fiskiskipa

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Með þessu frv. er lagt til að viðskiptabankar skuli innheimta sérstakt gjald af brúttósöluverðmæti afla, sem landað er hér innanlands og erlendis af íslenskum fiskiskipum í því skyni að þetta gjald renni síðar til greiðslu á vátryggingariðgjöldum skipanna.

Ég vil lýsa því strax yfir við 1. umr. að ég er sammála þeirri meginstefnu sem felst í þessu frv. Ég tel að eftir atvikum sé varla hægt að komast hjá því að gera sérstakar ráðstafanir til þess að tryggja það að eigendur fiskiskipa standi sómasamlega í skilum með iðgjaldagreiðslur vegna vátryggingar á skipunum. Með þeirri breytingu að Tryggingasjóður fiskiskipa er minnkaður eins og þegar hafa verið gerðar ráðstafanir til, minnkaður um u.þ.b. helming, þá er sýnilegt að hér verður um það háar fjárhæðir að ræða, sem útvegsmenn eiga að greiða í vátryggingaviðgjöld af skipum sínum, sem þeim er ætlað að greiða beint, fyrir utan það sem Tryggingasjóðurinn heldur áfram að greiða, að það er ekki óeðlilegt að gerðar séu ráðstafanir til þess að fá fram meiri tryggingu á því að staðið sé í skilum með þessi vátryggingariðgjöld.

Sem sagt, ég er samþykkur meginatriði frv. En ég hef ekki áttað mig til hlítar á ýmsum ákvæðum í frv. um fyrirkomulag það, sem ætlað er að taka upp, og sýnist við fyrstu athugun að það geli orkað mjög tvímælis að hafa þennan hátt á. Í fyrsta lagi er það, að hér er gert ráð fyrir að innheimta 5% af andvirði alls þess afla, sem landað er innanlands, og 4% af brúttósöluverði aflans, sem landað er erlendis, þetta skuli tekið af öllum fiskiskipum jafnt og síðan ráðstafað á sérstakan reikning á vegum Landssambands ísl. útvegsmanna sem síðan á að sjá um að koma þessu gjaldi til skila inn á reikning hvers og eins útgerðaraðila til greiðslu á vátryggingariðgjöldum hans. Þarna kemur það fyrst upp, að nú er vitað að ýmsir aðilar fást við útgerð og leggja inn afla, nokkurn afla jafnvel, þó að fiskibátar þeirra séu ekki vátryggðir. Dæmi eru um það. Í öðru lagi er það og sérstaklega á það við smábáta, að tryggingar þeirra eru það litlar og þannig að það sýnist ekki vera þörf á því að taka af þeim 5% af öllu aflaverðmæti þeirra og binda það á þennan hátt. Þá er einnig þess að gæta, að talsverður hluti útgerðarinnar í landinu, og það á einkum við smábátana, er ekki í Landssambandi ísl. útvegsmanna. Ég sé því ekki bein rök fyrir því að vera að taka þetta gjald af þeim og vísa því inn á sérstakan reikning hjá Landssambandi ísl. útvegsmanna. Mér finnst að það hefði í rauninni verið nærtækast að bankarnir, sem ætlað er að innheimi.a þetta gjald, hefðu skilað því til Tryggingasjóðs fiskiskipa sem á að starfa eins og hann hefur starfað að undanförnu þó að hann hafi minni fjárráð, — á að starfa áfram og hafa með greiðslu að gera á ákveðnum hluta vátryggingargjaldanna. Ég held að það hefði verið miklu vafningaminna að þetta fé hefði runnið beint til þessa aðila sem hefði að sjálfsögðu orðið að halda sérgreindum reikningum hvers og eins aðila. Þannig hefðu þau iðgjöld, sem raunverulega koma frá útgerðaraðilum ýmist í gegnum útflutningsgjöldin, sem nú renna áfram til Tryggingasjóðs, eða þá samkv. þeirri gjaldtöku sem þetta frv. gerir ráð fyrir, þetta hefði allt verið á einum og sama stað og þá hefði verið auðveldara að sjá hvort viðkomandi aðili var búinn að greiða allt sem honum bar að greiða og átti þá orðið rétt á endurgreiðslu þess sem umfram var, heldur en að knýja hann til þess að ganga á milli margra aðila sem vísa hver frá sér. Mér sýnist við fyrstu athugun að þetta fyrirkomulag orki mjög tvímælis, og ég sé ekki neina þörf á því að vera að blanda Landssambandi ísl. útvegsmanna inn í þetta mál. þar sem það liggur fyrir, eins og ég hef nefnt, að allmargir útgerðaraðilar í landinu stórir og smáir og þó fyrst og fremst þeir smáu, standa fyrir utan þau samtök og eðli þeirra samtaka er allt annað en að fást við greiðslur af þessu tagi. En þetta kemur að sjálfsögðu allt til athugunar í þeirri n. sem fær málið til athugunar.