04.03.1976
Neðri deild: 73. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2395 í B-deild Alþingistíðinda. (1992)

172. mál, rannsóknarlögregla ríkisins

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég vil sérstaklega þakka hv. þm. fyrir j,ákvæðar undirtektir og ég vil enn fremur þakka þeim fyrir þær umr. sem hér hafa farið fram um þetta efni. Það er ekkert aðalatriði að menn séu endilega alveg á sama máli í þessum efnum, og það er ekkert óeðlilegt þó að fram komi aths. sem horfa eitthvað í aðra átt en er í frv. Það versta, sem getur mætt frv. eins og þessu og öðrum slíkum, er tómlætið. En einmitt það, að umr. hafa þannig farið fram, sýnir að menn eru vakandi í þessum efnum, og það gleður mig að þeir hafa áhuga á þessum málum, og það er ánægjulegt, því þessi mál má vitaskuld ekki fremur en svo mörg önnur þjóðfélagsmál vanrækja. En sjálfsagt er það rétt að þau hafa stundum viljað falla í skuggann, eins og hv. 2. landsk. þm. vék að. Ég skil það afskaplega vel að hv. alþm. vilji leggja meiri áherslu á byggingu sjúkrahúsa og skóla heldur en fangelsa. En það er nú samt sem áður svo, að fangelsi þurfa að vera til, og á meðan við þurfum að hafa fangelsi og það er trúlegt að það verði um sinn, þá þurfa þær stofnanir að vera þannig úr garði gerðar að þær séu mannsæmandi, að þær séu ekki þannig úr garði gerðar að þær séu líklegri til að spilla þeim, sem þar eru settir inn, heldur en bæta. Og þá þarf að verja til þeirra einhverjum fjármunum. En það hefur gengið heldur treglega að fá fram umbætur í fangelsismálum. Þó hafa verið gerðar þar á talsverðar umbætur sem má vel nefna. Það var gerð talsverð viðbygging við Litla-Hraun og þar er aðbúnaður allur annar en var áður í þeim þröngu húsakynnum sem þar voru. En samt sem áður er það auðvitað út af fyrir sig allsendis ófullnægjandi. Það þarf að byggja fangelsi. Og ég vil leyfa mér að minna á að ég fékk einmitt á sínum tíma samþykkt hér lög um fangelsi. Þá var það ákvæði í þeim, sem kannske skiptir ekki minnstu máli, það var lögboðið að varið skyldi 15 millj. á ári til þess arna, þannig að fjárveitingavaldið hefur hér ekki frjálsar hendur lengur. Það á að leggja til hliðar 15 millj. í þessu skyni. En auðvitað getur löggjafinn ekki bundið hendur sjálfs sín og hann getur komið og tekið eitthvað af þessu aftur og skorið eitthvað af fjárveitingu hvers árs. En þarna er þó fyrir hendi vísir og það er unnið að því að hanna fangelsi í grennd við Reykjavík og vænti ég að það geti komist upp áður en langir tímar líða.

Það er sagt og kvartað yfir því og hefur löngum verið kvartað yfir því að hér væri seinagangur í dómsmálum. Ég held að þar hætti mönnum líka til að blanda saman - og mér fannst ekki laust við það hjá hv. 2. landsk. þm. — einkamálum og opinberum málum. Þegar um opinber mál er að tefla, þá er það rannsóknin sem dregst og stendur lengi yfir. Þegar rannsókninni er lokið, þá held ég að undir venjulegum kringumstæðum þurfi dómsmeðferðin sjálf ekki að taka langan tíma. Hitt er allt annað mál, þegar um einkamál er að tefla, þá eru þau dregin, ég vil segja óskiljanlega árum saman. En ég held að það sé ekki aðeins við dómstólana að sakast, heldur held ég að aðilar sjálfir og lögmennirnir eigi þar nokkurn þátt í með því að taka fresti. Það hefur e.t.v. verið of mikil linkind í því að líta svo á að aðilar ættu að hafa algert forræði í einkamálum og mættu því ráða hversu langan tíma þau tækju. En það er einmitt að því er varðar opinberu málin sem þessu frv. er ætlað úr að bæta, að hraða rannsókn, og það er það sem stendur á þar.

Það má vel vera að almannarómur segi að þeim stóru sé hlíft, en þeim litlu refsað. Þetta hefur e.t.v. lengi viljað við brenna. Ég held nú að því er varðar unga menn sem lenda á glapstigum, þá sé ekki í fyrsta skipti farið að þeim með mikilli hörku. Ég ætla, að það heyri til undantekninga að þeir séu settir strax í fangelsi. Það verður þá að vera mjög alvarlegt brot sem þar er um að tefla. Við höfum heimild til skilorðsbundinna dómum og hún er notuð einmitt þegar um slík brot er að tefla. Með þeim skilorðsbundnu dómum var stigið mjög stórt skref í rétta átt, vegna þess að ég er sannfærður um að það er líklegra til þess að bæta hlutaðeigrandi mann að fá þannig skilorðsbundinn dóm og mega þó eftir sem áður ganga frjáls, þó að hann sé undir eftirliti, heldur en vera settur í fangelsi.

Það hafa líka verið gerðar nokkrar umbætur á seinustu árum sem hafa miðað að því almennt að hraða dómsmálum og meðferð þeirra. Ég vil þannig nefna að það hefur verið fjölgað mjög dómurum með lögum, stofnuð sérstök héraðsdómaraembætti, fjölgað dómaraembættunum hér í Reykjavík, og við tiltekin embætti utan Reykjavíkur, þar -sem er mikið þéttbýli, eru settir sérstakir héraðsdómarar. Þannig hefur bæði borgaradómurum hér verið fjölgað mikið, sakadómurum líka og borgarfógetum. Utan Reykjavíkur hefur verið bætt við héraðsdómara í Kópavogi, tveimur í Hafnarfirði, einum í Keflavík, einum á Akureyri Allt þetta miðar auðvitað að því að málin þurfi ekki að tefjast hjá dómstólunum, þeir geti afgreitt þau hraðar en áður. Til þess voru a.m.k. þessi spor stigin. Á Hæstarétti hefur líka, verið gerð sú endurbót að þar hefur verið bætt við einum dómara, þannig að þeir eru 6, og jafnframt verið gerð sú breyting að í minni háttar málum megi þrír aðeins dæma. Þetta ætti að geta greitt fyrir því að mál gengju þar tiltiltölulega fljótt, en ég hygg að yfirleitt hafi ekki staðið á afgreiðslu mála í Hæstarétti.

Stundum vilja menn kannske setja of mikið undir dómstólana og eigna þeim það sem ekki heyrir undir þá. Þannig er það með skattamálin t.d., að það er yfirleitt annar aðill, sem þar kemur til, heldur en dómstólar, þó að svo geti farið u,ð skattamál endi hjá dómstólum.

Það er fjarri mér að ég vilji bendla nokkra ríkisstj. sérstaklega við það hvort afbrot eru fleiri eða færri. Ég held að það standi ekki í stambandi neitt við það hver ríkisstj. er. Að sjálfsögðu hefur ástandið í þjóðfélaginu á hverjum tíma sín áhrif í því efni, en ég hef ekki trú á því að það sé bundið sérstaklega við hvaða menn eru í stjórn eða hvaða stjórn situr, hvort afbrotahneigð almennt er meiri eða minni eða hvort fleiri eða færri afbrot eru framin. Og þó að þetta sé staðreynd, sem ég held að sé rétt, að afbrotum hafi farið fjölgandi á seinustu árum og það sé a.m.k. örugglega vist að það eru aðrar tegundir afbrota, sem nú eru framdar, heldur en áður átti sér stað, þá held ég að það væri fróðlegt og til gamans að fletta hæstaréttardómum og t.d. dómum landsyfirréttarins og bera þá saman. Ég er ósköp hræddur um að flestir landsyfirréttardómarnir fjalli um sakamál og hlutfallið sé orðið heldur annað núna hjá hæstarétti. Það munu nú vera fleiri einkamálin, sem þar eru dæmd, heldur en sakamál. Þannig að þetta skiptist á með ýmsum hætti. En siðaskoðunin breytist, lögin fylgja á eftir. Það fer lítið fyrir í dag sumum þeim afbrotum sem fylla dómsmálabækur landsyfirréttarins, en þeir þekktu þá ekki heldur mörg þeirra afbrota sem nú eru hættulegust og alvarlegust. En jafnvel á fyrri tíð þekktust svo sem brot sem lítin voru alvarlegum augum þá, já, jafnvel glæpahringir og glæpafélög, bæði á Suður- og Norðurlandi. Það þarf ekki annað en fara til aldarinnar sem leið, þannig að það er ekki allt til hins verra endilega. Þetta breytist og kemst í annað horf. En kannske er mannskepnan innst inni alltaf talsvert sjálfri sér lík þrátt fyrir breytt umhverfi. Vissulega eru núna tímar fjársvikamála, má segja. Það eru alvarleg mál. Í mínum augum eru þó hin málin miklu alvarlegri ofbeldismálin, hryðjuverkamálin. Þau eru stórum alvarlegri og hættulegri að mínu mati, og þau fara því miður vaxandi. Þar getur margt komið til greina. Oft er um ofnautn áfengis að tefla. Svo getur sjálfsagt ávana- og fíknilyf komið þar við sögu líka. Það eru þessi mál sem þarf að hafa miklar gætur á.

Auðvitað er ekkert við það að athuga að menn velti ýmsum leiðum fyrir sér í sambandi við þetta mál og skoði það frá mörgum hliðum og fái að sjálfsögðu um það umsagnir ýmissa aðila. En ég vil þó segja út af því sem hv. 11. þm. Reykv. sagði, þar sem hann var að tala um að e.t.v. mætti setja þetta undir lögreglustjórann í Reykjavík, að það held ég sé vafasamt, þó að það megi skoða. Ég held að sú lögregla, sem hér er um að ræða, og það embætti, sem hér er um að tefla, verði að vera óháð umdæmum. Ég held að það gæti aldrei blessast að lögreglustjórinn í Reykjavík færi að hafa á hendi stjórn rannsóknarlögreglu sem ætti að taka til landsins alls. Ég held, tað lögreglustjórinn í Reykjavík hafi ærið verk að vinna við önnur þau verkefni sem honum eru falin, og efast um að nokkrum manni verði greiði gerður með því að tvinna það saman. En hitt er líka að mínum dómi jafnrétt, að skilja rannsóknarlögregluna, eins og hér er gert ráð fyrir, frá sakadómaraembættinu í Reykjavík. Það er heppilegt að skilja þarna á milli.

Ég skal ekki að öðru leyti tefja tímann með því að ræða um þau atriði sem fram komu hjá hv. 71. þm. Reykv. t.d. og tvímælis geta orkað. Ég vil þó segja það, að ég teldi til bóta ef lögfest yrði frv. um upplýsingaskyldu, þó að því væri breytt frá því sem það var lagt hér fram og ég lagði tvisvar fram. Það fékk ekki náð fyrir augum hv. Alþ., án þess þó að Alþ. sæi sér fært að gera. á því þær breytingar sem það taldi rétt vera. Sama er að segja um umboðsmann Alþingis. Ég lét á sínum tíma semja frv. um það efni og ég man ekki betur en ég legði það hér fram. Síðan hefur það ekki séð dagsins ljós. (Gripið fram í.) Nei, nei. Ég læt þessa aðeins getið.

Ég sé ekki beint ástæðu til að fara að ræða það efni, sem hann vék að, spillingu í embættismannakerfinu og hjá stjórnmálamönnum. Ég held að það sé gert of mikið úr því að það sé spilling hjá embættismannakerfinu. Hins vegar verða stjórnmálamenn auðvitað að þola það að þeim sé sitthvað fundið til foráttu og ættu ekki að bogna í baki af þeim sökum. En stjórnmálamenn vinna störf sín yfirleitt fyrir opnum tjöldum og verða að svara til saka hér á Alþ., og það má gagnrýna þá fyrir hvað eina og lýsa á þá vantrausti. Ég efast um að hægt sé að segja að á þá skorti smásjá. Þeir vinna yfirleitt störf sín undir smásjá og verða að þola það og sæta því ef þeir á annað borð gefa sig í að sinna þessum störfum. En sjálfsagt mætti hugleiða það að taka upp rannsóknarnefndir hér í stærri stíl en gert hefur verið. Þær hafa ekki verið mikið notaðar hér. en eru notaðar sums staðar annars staðar. t.d. í Bandaríkjunum. Ég er ekki sannfærður um að það væri til bóta hér hjá okkur að taka upp svipaðar aðferðir. Ég held að Alþ. með sínum fsp., með sínum þál. og með því að þm. hafa yfirleitt frjálsan og ríflegan rétt til þess að tala hér utan dagskrár um hvert það málefni, sem þeir vilja um tala sé tryggt sæmilegt aðhald að stjórnmálamönnum þeim sem á Alþ. sitja. En síst skal ég hafa á móti því að það sé reynt að betrumbæta það allt saman.

Ég vil að lokum þakka hv. þm., sem hér hafa talað, fyrir góðar undirtektir við þetta mál og vona, að það nái fram að ganga fyrr en seinna.