04.03.1976
Neðri deild: 73. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2399 í B-deild Alþingistíðinda. (1993)

172. mál, rannsóknarlögregla ríkisins

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég held að það sé ekki rétt hjá hæstv. dómsmrh. að þessi fundur hafi sýnt einhvern sérstakan áhuga Alþ. á því máli sem hér er til umr. Að vísu hafa æðimargir menn tekið til máls. (Dómsmrh.: Viðstaddir.) Já, áhugi viðstaddra hefur að vísu komið fram í því, en hinir viðstöddu hafa verið næsta fáir. Mér telst til að lengst af á þessum fundi hafi verið eins og fjórðungur þeirra sem eiga sæti í þessari hv. d. En þetta er að sjálfsögðu eftir öðru. Mál af þessu tagi virðast ekki njóta af hálfu Alþ. þess áhuga sem vert væri, því miður.

Það væri að sjálfsögðu hægt að flytja langt mál um það frv., sem hér liggur fyrir, en ég er ekki undir það búinn. Mér virtist hins vegar óviðkunnanlegt að það kæmi ekki a.m.k. einn maður úr mínum flokki hér upp í stólinn til þess að hæstv. dómsmrh. fyndi þó að það væri nokkur áhugi líka í þeim flokki fyrir málinu.

Ég vil víkja aðeins að fáum atriðum sem rædd hafa verið. Það er t.d. þetta með fangelsismál. Menn eru að tala um að það þurfi að auka rýmið í fangelsunum og það eigi að leysa svo og svo mikinn vanda. Ég hygg að fyrir hæstv. dómsmrh. vaki hið sama í þessum málum eins og okkur ýmsum sem höfum sýnt þeim áhuga. Það, sem fyrir okkur vakir, er ekki endilega að meira pláss verði í fangelsum, að aukið verði plássið til þess að svipta menn frelsi, heldur að slíkar stofnanir verði menningarlegri og manneskjulegri heldur en þær hafa verið hér á landi og líklegri til þess að bæta menn, en ekki spilla þeim, eins og mér sýnist að hafi verið, því miður, lengstum. Stendur ekki á mér að játa það að í tíð hæstv. núv. dómsmrh. hefur þessu þokað nokkuð svo í rétta átt.

Annað vildi ég drepa á. Það hefur verið talað hér um skilorðsbundna dóma. Afbrotamönnum er oft sleppt skilorðsbundið, og ef þeir brjóta svo aftur af sér, þá verða þeir að taka út þá refsingu sem þeir áttu óafplánaða. Ég tel mig vita dæmi þess að óafplánaðir dómar hafi valdið því að viðkomandi maður komst aldrei á rétta braut, en hefði hins vegar komist það ef öllu hefði verið af honum létt. Stundum hefur mér virst að þetta hafi valdið vissri truflun í sálarlífinu. Þessir menn komast aldrei í sátt við samfélagið vegna þess að á þeim hvílir þetta stöðuga farg.

Eitt sinn í sumar hringdi til mín ágætur vinur minn, sem ég kynntist þegar ég fór að skoða þessi fangelsismál, — maður sem ég tel að hafi notið mikils skilnings af hálfu þeirra yfirvalda sem um þessi mál fjalla. Hann hafði náð sér vel á strik, eins og sagt er á vondu máli, og var orðinn hinn hamingjusamasti maður, heimilisfaðir með ágætum o.s.frv. En svo vill svo til að hann fær sér aðeins í staupinu. Ég hef það fyrir satt að það hafi verið ósköp lítið. En svo er hann — hann hafði ráðið sig á bát - svo er hann allt í einu kallaður í róður og bregður sér í bíl til næstu verstöðvar. Og þá er hann tekinn fyrir ölvun við akstur. Eins og ég segi, hef ég það fyrir satt að það hafi ekki verið um raunverulega ölvun að ræða. En hann hafði neytt áfengis. Því næst gerist það að maðurinn er drifinn hér upp á Skólavörustíg. Þaðan hringdi hann svo til mín í dauðans ofboði. Það eru góðir menn og skilningsríkir sem þar ráða húsum. Hann fær að fara í símann. Og hann hringir til mín í dauðans ofboði og segir mér að sá aðili, sem fjallar um óafplánaða dóma, hafi tilkynnt honum að nú sé hann hér kominn inn til þess að taka út óafplánaðan dóm upp á nokkuð á annað ár. Honum er sem sé svipt allt í einu út úr því góða lífi, sem hann hefur lifað undanfarið, inn í tukthús, og þetta eru kveðjurnar sem hann fær. Ég vil taka það fram að dómsmrh. bar enga sök á þessu né heldur hans ráðuneytisstjóri, Þvert á móti. Ráðuneytisstjórinn kippti þessu strax í lag og manninum var sleppt. En ég hygg að við getum öll farið nærri um það þvílíkt áfall þetta er fyrir menn, að það dynur allt í einu yfir þá að þeir eigi að sitja í fangelsi í eitt eða kannske tvö ár, — menn eins og þennan sem eru að ná sér á strik í lífinu eru á góðri leið með að verða hinir nýtustu þjóðfélagsþegnar.

Rætt hefur verið um misréttið í refsimálum. Við skulum ekki gerast þeir hræsnarar að neita því, að eins og allt er í pottinn búið í réttarkerfi okkar, þá fara litlu afbrotamennirnir miklu verr út úr því heldur en hinir stóru. Þetta er ekki bara almannarómur. Þetta er staðreynd. Og upp á þetta horfa hinir minni afbrotamenn, að þeir, sem hafa gerst sekir um mjög alvarleg afbrot, ekki brotist inn til þess að tæma einn peningakassa eða stela nokkrum karamellum úr hillu í búð, heldur gerst sekir um þess háttar brot að það er sambærilegt við margra, margra tuga milljóna þjófnað, — slíkir menn eru næsta fáséðir gestir á Litla-Hrauni. Og eftir þessu taka hinir minni afbrotamenn. Og þetta gæti verið ein skýringin á því sem hefur verið nefnt síafbrotahneigð eða eitthvað slíkt. Það kann að vera ein skýring á því að þessir hinir minni afbrotamenn, innbrotsþjófar og aðrir slíkir, komast ekki á réttan kjöl Til þess liggja eflaust ýmsar sálrænar orsakir og m.a. kannske þessi, að þeir telja sig rangindum beitta af hálfu samfélagsins.

Ég ítreka það sem ég sagði, að það er að mínum dómi hræsni að játa þetta ekki. Ég vil bæta því við að ég trúi hæstv. dómsmrh. vel til þess að laga þetta, færa það til þess horfs að hinir stóru afbrotamenn fái að kenna á réttlætinu í þessu þjóðfélagi ekki síður en hinir minni.

Það hefur verið talað hér um afbrotahrinu og samtök manna um hvers konar lögbrot. Stundum hefur verið talað um mafíur hér úr þessum stól. Það er gott og blessað, ekki veitir nú af. Ekki veitir af að ræða þau mál og láta þjóðin skilja. hvað hér er á ferðinni. En ég undrast það að þeir menn, sem vandlætast út af slíku, skuli ekki nefna ein slík samtök, eina mafíuna sem hefur komið mest við sögu víða um heim, og það er bandaríska leyniþjónustan, CIA.

Ég geri mér ljóst að það kunni að vera erfitt að kanna þau mál. En eftir því sem ég les í blöðum og ekki hvað síst í blaði hæstv. dómsmrh., þá er þessi leyniþjónusta orðin æði-umsvifamikil hér á landi. A.m.k. þrisvar hafa birst greinar í blaði hæstv. dómsmrh. þess efnis að bandaríska leyniþjónustan hafi staðið á bak við þær ásakanir eða þá hríð sem nýlega hefur verið gerð að dómsmrh. í sambandi við tiltekin afbrotamál, í sambandi við slælegan rekstur hans rn. varðandi rannsókn þeirra mála. Þarna hafi hann algerlega verið hafður fyrir rangri sök. Um það skal ég ekkert segja. Náttúrlega verður það að rannsakast eins og annað. Og dómsmrh. er, eins og aðrir þegnar þessa þjóðfélags, saklaus þangað til það sannast að hann sé sekur. En ég tel að hér sé um svo stórar fullyrðingar að ræða að það sé sjálfsagt að minnst sé á þær þegar verið er að ræða þessi mál almennt.

Ég fyrir mitt leyti tek alveg undir það sem skrifað hefur verið í Tímann um leyniþjónustuna bandarísku og nauðsyn þess að starfsemi hennar sé könnuð. Ég er ekki í neinum vafa um að hím hefur látið mikið til sín taka hér á Íslandi eins og í öðrum löndum. Það er fylgst hér með mönnum bæði eftir löglegum og ólöglegum leiðum. Og ég segi það sama og ég sagði hér einu sinni í vetur, að þetta gildir eflaust um leyniþjónustu fleiri stórvelda. En við erum hér að ræða um skrif í tilteknu blaði um eina tiltekna leyniþjónustu og það er sú bandaríska. Í morgun birtist enn ein greinin um þetta. Greinarhöfundur skrifar undir dulnefninu Svarthöfði. Það er sama dulnefnið og dálkahöfundur Tímans notaði meðan Indriði G. Þorsteinsson, starfaði við Tímann. Hann notaði þetta dulnefni, Svarthöfði. En Svarthöfði kemst svo að orði: „Það er till. mín að skipuð verði á Alþ. opinber rannsóknarnefnd er kanni aðdraganda og upphaf þessa máls,“ það er það mál, sem ég nefndi áðan, atlöguna að hæstv. dómsmrh. nú ekki alls fyrir löngu, — „og þá sérstaklega verið rannsakað hvort leyniþjónusta Bandaríkjanna hafi átt einhvern þátt í að koma rógsherferðinni af stað eða haft önnur afskipt af íslenskum málum á seinni árum.“

Ég nota þetta tækifæri, sem hér gefst, til þess að lýsa yfir eindregnum stuðningi mínum við þessa till.