08.03.1976
Efri deild: 72. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2405 í B-deild Alþingistíðinda. (2002)

183. mál, fjölbrautaskólar

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Við þm. Alþb. í þessari hv. d. höfum leyft okkur að flytja frv. til l. um breyt. á heimildarlögum um fjölbrautaskóla.

Fyrri breytingin er í raun árétting ein, þ.e. að „að iðngreinum meðtöldum“ er bætt aftan við 1. gr. laganna. Þetta er gert til þess að herða á því og leggja aukna áherslu á það að í fjölbrautaskólunum, sem vonandi verða það framtíðarskólaform sem mest verður á byggt á næstunni, verði iðngreinar einmitt í hávegum hafðar ásamt greinum beint tengdum öðrum höfuðatvinnuvegum okkar. Þetta innskot eða viðbót er um leið nokkur aðvörun gegn því að þessir skólar beinist um of að áður hefðbundnum undirbúningi undir langskólanám, bóknám.

Aðalbreytingin kemur hins vegar fram í 2. gr. frv. þar sem fjallað er um kostnaðarskiptinguna, en í heimildarlögunum frá 1973 var ákveðið að ríkið skyldi greiða 60% og viðkomandi sveitarfélag 40%, í því tilfelli Reykjavík. Hér var í raun ekki um óeðlilega skiptingu að ræða miðað við það hvernig það mál var til komið, ósk um skóla, sem næst tilraun um nýtt form sem eitt sveitarfélag stóð að, þó að nú þegar séu fleiri að njóta góðs af þessu nýja og um margt bætta skólaformi, enda nú uppi mikil hreyfing í þá átt. Ég bendi aðeins á Flensborgarskóla í Hafnarfirði, minni á nýlega samþykkt þeirra á Suðurnesjum og að ég hygg ákvörðun um stofnun slíks skóla í Keflavík. Menntaskólinn fyrirhugaði á Austurlandi er alfarið hugsaður á beinni fjölbrautalínu, einmitt með sérstakri áherslu á tengingu við iðngreinarnar. Og á fleira mætti benda. Hins vegar er það rétt, að þetta skiptir litlu máli varðandi þann skóla, menntaskólann á Austurlandi, því að hann félli bara nafnsins eins vegna undir hina hefðbundnu kostnaðarskiptingu fyrir menntaskólana. Okkur flm. þykir tvímælalaust rétt að breyta þessum nú föstu hlutföllum, 60% annars vegar og 40% hins vegar, sem allar nýjar heimildir eru samkv. lögunum bundnar við. Ekki síst sýnist okkur þetta einsætt ef þetta form verður tekið upp í ríkum mæli, svo sem allar horfur eru á. Hlutur heimaaðilans er allt of hár samkv. lögunum og óviðráðanlegur í raun og ekki í neinu samræmi við aðra sambærilega skóla, nema þá iðnskólana, en þar eru hlutföllín enn lakari, enda höfum við flm. jafnhliða þessu frv. talið fulla ástæðu til að gera þar á róttæka breytingu sem vikið var að í framsögu fyrir því frv.

Nú er hér fyrir þessari d. frv. um fullorðinsfræðslu, sem gerir ráð fyrir mjög afgerandi þátttöku ríkissjóðs eða 75% af öllum kostnaði. Frv. liggur fyrir Nd. um stóraukna þátttöku ríkissjóðs í einkaskólum í viðskiptamenntun á framhaldsstigi. Hvort tveggja eru skýr dæmi um að enn frekar er hér breytinga þörf.

Við flm. leggjum til að kostnaðarhlutföllin verða ekki bundin, heldur verði þau samningsbundin hverju sinni, en fari eftir meðaltali samkv. gildandi lögum um kostnaðarhlutföll í þeim námsbrautum sem við fjölbrautaskólann eru ráðgerðar. Hér getur verið um ýmsar námsbrautir að ræða. Ég nefni aðeins sem dæmi fiskvinnslubraut, tæknibraut, búfræðibraut, viðskiptabraut, hjúkrunarbraut, almenna iðnnámsbraut og svo almenna menntabraut vitanlega til þess að sýna að hér getur verið nauðsyn að hafa á vissan sveigjanleika hverju sinni eftir því hvaða brautir á að starfrækja við viðkomandi skóla. Þróunin kann hins vegar að verða sú að allt framhaldsnám verði hér á sama báti, kostnaðarhlutföll alls staðar þau hin sömu, og þá fellur fjölbrautaformið að sjálfsögðu þar inn í sjálfkrafa.

Upphafleg lög um fjölbrautaskóla, þ.e. þau sem gilda í dag, voru til komin vegna þegar gerðs samkomulags milli ríkis og eins sveitarfélags. Það hlýtur að teljast brýnt að breyta þeim lögum og gera þau almenn og færa þau í átt til annarra gildandi laga um framhaldsskóla. Við flm. teljum að það svigrúm, sem gefið er í 2. gr., sé fullnægjandi og frjálslegt í meira lagi fyrir báða aðila og því viðunandi sem bráðabirgðalausn þar til allsherjarlög um skólaskipan á þessum stigum yrðu selt, sem vonandi verður sem fyrst. Um aðrar leiðir erum við að sjálfsögðu reiðubúnir að ræða. Hér er nokkur vandi á höndum um algilda lausn. Enn er þetta skólaform í algerri frummótun, en reynslan þó slík, að hún bendir í átt til þess að þetta kerfi verði fyrr en varir mestu ráðandi í okkar skólalöggjöf, enda til stórbóta. En núgildandi kostnaðarskipting ein til viðmiðunar er óviðunandi með öllu og því er í raun frv. þetta flutt.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til að að lokinni þessari umr. verði þessu máli vísað til hv. menntmn.