08.03.1976
Efri deild: 72. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2406 í B-deild Alþingistíðinda. (2003)

183. mál, fjölbrautaskólar

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins fagna framkomu þessa frv. Mér er kunnugt um það að í mínum heimabæ eru vangaveltur um að efna til skiptingar á skóla á menntaskólastig og fjölbrautastig, en einmitt það ákvæði, sem um er fjallað í 2. gr., stendur nokkuð í veginum fyrir því að taka ákvörðun um það mál, en það er þáttur kostnaðarskiptingar á milli ríkis og bæja. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að það liggi á hreinu að um þessi efni, kostnað við stofnun fjölbrautaskóla, komi sömu reglur og á öðru fræðslustigi. Það má teljast sanngjarnt og eðlilegt og því er þetta frv. áreiðanlega nauðsynlegt. Ég vænti þess að það fái jákvæða afgreiðslu hér í hv. deild og Alþingi.