04.11.1975
Sameinað þing: 11. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í B-deild Alþingistíðinda. (201)

14. mál, raforkumál á Snæfellsnesi

Fyrirspyrjandi (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Til skamms tíma var Snæfellsnes sjálfstæð og einangruð eining í orkukerfi landsmanna og hafði raforku frá lítilli vatnsaflsstöð og nokkrum olíukyntum stöðvum. Þjónusta á þessu sviði var mjög stopul og léleg og var því von að íbúar á Snæfellsnesi gerðu sér góðar vonir um það þegar fram komu hugmyndir um að tengja nesið við rafmagnskerfi Suðvesturlands. Virtist þetta vera í alla staði mjög skynsamleg og arðvænleg framkvæmd, ekki síst af því að línan mundi liggja um allvíðáttumiklar sveitir um mitt Vesturland, sérstaklega á Mýrum, þar sem rafmagn var ekki fyrir hendi.

Nú fór svo að það dróst nokkuð að koma þessari framkvæmd á, þó að góður vilji væri alls staðar fyrir hendi, en hins vegar hefur það tekist og er nú þegar fengin dálítil reynsla af hinu nýja kerfi. En svo hefur brugðið við að eftir samtenginguna telja rafmagnsnotendur, sérstaklega í þorpunum á norðanverðu Snæfellsnesi, að raforka sé þar ótryggari, spennufall algengara og tjón af því á ýmiss konar tækjum meira en áður var á nesinu. Hefur þetta komið mönnum mjög á óvart því að búist var við að allt yrði þetta öruggara og tryggara eftir að tengsl fengjust við hið góða raforkukerfi á Suðvesturlandi. Ég hef því talið ástæðu til þess að leggja þá fsp. fyrir hæstv. raforkumrh. hvað geti valdið því að ástandið hafi á þennan hátt versnað, því að ég tel nauðsynlegt að rafmagnsnotendur á Snæfellsnesi fái á því skýringu opinberlega. Enn fremur hef ég leyft mér að leggja þá fsp. fyrir hæstv. ráðh. hvort hægt sé að bæta úr þessu fljótlega og forðast vandræði á komandi vetri. Tel ég það sérstaklega mikilvægt af því að ég veit að það ástand, sem verið hefur, veldur því að rafmagnsnotendur á Snæfellsnesi hafa nokkrar áhyggjur af því hvernig ástandið verður á komandi vetri.