08.03.1976
Efri deild: 72. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2413 í B-deild Alþingistíðinda. (2012)

190. mál, vinnsla mjólkur í verkföllum

Flm. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir undirtektir undir þetta frv. Þó að síðasti ræðumaður hafi eðlilega fundið ýmislegt að þessu frv. og jafnvel þeirri hugsun sem lægi á bak við, þá viðurkenndi hann þó kjarna málsins. Þess vegna er þetta frv. til orðið, að það er vandamál og það mjög viðkvæmt vandamál að hella niður mjólk. Og hann fann það á sér, það heyrði maður á honum, að það er óverjandi. Mjólkin verður til, hvað sem hver segir og hvernig sem við stöndum að þessu, og þá er að finna lausn á því að samkomulag sé fyrir hendi milli deiluaðila. Bændur eru reyndar ekki deiluaðilar, eins og kom skýrt fram áðan hjá 6. þm. Suðurl. og hæstv. ráðh., en hins vegar starfsfólkið sem vinnur í mjólkurbúunum. Það á í vinnudeilum við atvinnuveitendur. (Gripið fram í.) Jú, samtök bænda eru aðilar. (Gripið fram í.) Ég vil minna hv. 5. þm. Norðurl. e. á að hann á kost á að tala hér á eftir og rifja þá upp sinar ferðir í kosningabaráttunni í fjós bænda og hvernig hann talaði við þá á sínum tíma. Til þess mun honum gefast nóg tækifæri svo að hann þarf ekki að grípa fram í fyrir mér.

Það, sem vakir fyrir mér, er að finna lausn á þessu máli. Ég mun ekki halda því fram að þetta sé eina patentlausnin sem til greina komi. Ef önnur lausn er betri eða samkomulag fyrir hendi, þá verður þetta frv. auðvitað dregið til baka.

Ég skammast mín ekkert fyrir að berjast fyrir því að mjólk verði ekki hellt niður á Íslandi. Ég tel að menn eigi að hafa þá sannfæringu, hver og einn fyrir sig, að tryggja það með einum eða öðrum hætti. Það er langsótt skýring og fellur sem hreint vindhögg að hugsa sér að samlíkja því að hluthafar í Eimskip geti siglt skipum eða það megi bjarga mjólk í gegnum vinnslu, eins og tæknin er orðin í dag. Þetta er slík vélvæðing að það er næstum því sjálfkrafa sem mjólkin fer í tank frá tanki og í gegnum vinnslustigið, og þarf ekki gífurlega mikla þjálfun til, enda eru mjólkurfræðingar, að mér skilst 30–40 manns, ég verð þá leiðréttur ef þeir eru miklu stærri stétt. Það þarf þá eilítið verkafólk í viðbót. Ef það fæst ekki sýnist ekki úr vegi að bændur, sem kunna yfirleitt vel til verka á ýmsum sviðum, fengju að bjarga vörunni frá því að fara í súginn, öllum til leiðinda, hverjum einasta manni og ekki síst verkafólki.

Ég held að það sé ekki saknæmt að skýra frá því að mjög margir menn — það er talið í tugum — hafa haft samband við mig, og það eru tölur sem þessir ágætu menn, sem mundu helst vilja gagnrýna þetta frv., þekkja frá öðrum vettvangi, — ég get sagt að 99.9% segja já við efni þessa frv. En þar sem slíkar tölur koma upp í kosningum, þar er ekki um það að ræða að hafa neitt verkfall. Út í þessa sálma ætla ég nú ekki að fara.

Ég tók það fram og við viðurkennum allir að málið er viðkvæmt og raunar erfitt líka. Menn finna það þó á sér að það er ekki réttmætt og eðlilegt að mjólk sé hellt niður. Hvort sem er um mikil verðmæti eða lítil verðmæti að ræða, þá er það ekki réttmætt. Við íslendingar höfum talið það stolt okkar að vera matvælaframleiðsluþjóð. Ég hef sjálfur staðið í verkfallsbaráttu fyrir að fá betri kjör og einnig sem atvinnurekandi, og ég lit á það allt öðrum augum þó að fiskur syndi fram hjá í bili eða tún sé ekki slegið í bili vegna þess að bensín sé ekki afgr. á einhverjar vélar.

Ég sætti mig ekki við að búa við það samkomulag, ef menn vilja orða það svo, eða þá löggjöf, sem kveður svo að mjólk skuli hellt niður að óþörfum. Ég undirstrika að hér er gefið ákveðið svigrúm. Endurskoðun á vinnulöggjöfinni er allt annað mál og miklu stærra mál og mikið deiluatriði hvernig það á að gerast og með hvaða hætti á að breyta henni. Það er ekki til umr, hér, finnst mér, í þessu sambandi. Það má vel vera að það sé mögulegt að hártoga eitthvað í þessu máli og fara langt út fyrir efni þessa frv. til að reyna að halda fram að ég sé að opna hér dyr fyrir einhverju og einhverju sem verði launþegum til mikils ama og tjóns í framtíðinni í baráttu fyrir sínum réttmæta og helga rétti sem síðasti ræðumaður drap eðlilega á og ég er honum sammála um. En það vakir ekki fyrir mér í þessu frv. og ég mun aldrei verða orsök til þess á nokkurn hátt. Spurningin er um að bjarga mjólk frá því að eyðileggjast hjá þeim aðilum sem hafa ekki tök á því að hafa áhrif á gang mála í kjarabaráttu. Það er gefið þarna ákveðið svigrúm. Þarna er veitt ákveðin heimild. Vilja menn standa að því eða standa ekki? Menn fara í þessu efni eftir sannfæringu sinni. Ég skammast mín ekkert fyrir að telja þetta rétt og er enn ákveðnari en þegar ég var fyrst að hugsa um þessi mál, miðað við þann fjölda manna sem ég hef heyrt í eftir að frv. kom fram.