08.03.1976
Efri deild: 72. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2415 í B-deild Alþingistíðinda. (2013)

190. mál, vinnsla mjólkur í verkföllum

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. 1. landsk. þm. fyrir flutning þessa frv. Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að vissulega er það viðkvæmt mál sem hér er hreyft. Það er viðkvæmt mörgum, bæði bændum, sem hafa orðið að hella niður verðmætum og verið varnarlausir gagnvart þeirri atburðarás sem til þess leiddi, og ég skil vel að þetta er líka viðkvæmt mál gagnvart þeim sem finnst vera gengið á sinn rétt til vinnustöðvunar. En við megum ekki hér á þessum stað leiða hjá okkur öll mál sem eru viðkvæm og vandasöm, og ég held að það sé mjög nauðsynlegt einmitt að Alþ. fjalli þannig um þetta mál og e.t.v. raunar um fleiri atriði vinnulöggjafar að Alþ. sé sómi að og allir þeir, sem hlut eiga að máli, geti fellt sig við lausnirnar.

Það kom fram áðan að bændur væru aðilar að rekstri vinnslustöðvanna og vissulega er það rétt. Hins vegar finnst mér oft gleymast hvernig þessi starfsemi er raunverulega byggð upp, einmitt sú starfsemi, að taka við mjólk og vinna hana og dreifa henni til neytenda. Samkv. framleiðsluráðslögunum, sem kveða á um verðlagningu landbúnaðarvara, þ. á m. mjólkurvara og vinnslukostnað, þá er það í reynd svo að lögin ætlast til þess að vinnslustöðvarnar geti skilað bændum ákveðnu verði fyrir vöru þeirra, en sá kostnaður, sem til fellur í vinnslustöðvunum, greiðist af neytandanum. Þess vegna er það sannarlega ekki síður hagsmunamál neytandans heldur en bóndans að rekstur vinnslustöðvanna sé hagkvæmur. Og auðvitað hlýtur það að koma niður á verði vörunnar, bæði vinnslukostnaði og heildarverði vörunnar, ef þannig tekst til að varan eyðileggst í meðförum, eins og nú hefur orðið í verulegum mæli um mjólkina. Samkv. lögum eru það alls ekki bændurnir einir sem eiga að bera kostnaðinn af því að mjólk var hellt niður. Ég er líka víss um að þeir gera það ekki einir, þeir bera ekki einir þann kostnað. Hins vegar hlýtur svo að fara að bændurnir beri hann að mjög verulegu leyti og mjög misjafnlega eftir ýmsum ytri aðstæðum sem þeim eru óviðráðanlegar. Þar á ég t.d. við það að mjög misjafnlega stendur á um það hversu mikil mjólkurframleiðsla var á þeim tíma sem hér um ræðir. Þeir bændur, sem hafa mikla mjólkurframleiðslu á þessum tíma og hafa verið að leitast við að haga sínum búskap þannig að fullnægt yrði nýmjólkurþörf landsmanna, þeir fara sérstaklega illa út úr vinnustöðvun eða framleiðslustöðvun eins og þarna verður, þegar ekki er hægt að taka við mjólkinni í mjólkurbúum.

Nú er það vafalaust rétt, sem kom fram áðan, að mjólkurbú verður ekki rekið með eðlilegum hætti þegar meginþorri starfsliðs þess er í verkfalli. Ég er ekki sérfræðingur á þessu sviði og ætla mér ekki þá dul að gera grein fyrir því í einstökum atriðum. Hitt er mér kunnugt um, að í nútímamjólkurbúum eru vissir þættir í vinnslu sem krefjast hlutfallslega lítils vinnuafls og með tiltölulega takmarkaðri hagræðingu er hægt að koma að mjög verulegu leyti í veg fyrir eyðileggingu vörunnar án þess að þurfa að kalla beinlínis til fólk til að koma í stað þeirra sem í verkfall hafa farið. Ég veit t.d. að smjörgerð er nógu einföld vinnsla mjólkur til þess að lítið starfslið getur annað því verki að breyta mjólkinni í smjör og bjargað þar með meginverðmætum mjólkurinnar, þó að undanrennan færi e.t.v. forgörðum.

Það kom líka fram í ræðu hv. 11. landsk. þm. að bændur nytu þeirra kjarabóta sem fást í gegnum verkföll. Það er rétt að laun bænda í verðlagsgrundvelli eru tengd launum verkafólks, hvort sem það eru iðnaðarmenn eða aðrir verkamenn. Hins vegar er það svo, að þetta er laununum tengt á þann veg að þær kjarabætur, sem fást í krónum, koma yfirleitt miklu seinna til bóndans heldur en verkafólksins. Má benda á það í þessu sambandi t.d., að þannig er um samið að launahækkanirnar, sem verða samkv. síðustu samningum, koma, ef ég man rétt, 1. júlí og 1. okt, auk þeirrar hækkunar sem kemur nú. Þetta verður t.d. til þess að bændur fá ekki hækkanir á sínum vörum fyrr en tveim mánuðum eftir að kaupið hefur hækkað til verkamanna. Þetta er aðeins dæmi um það, að þó að gert sé ráð fyrir því í lögum að kaupgjald bóndans fylgi kaupi verkamannsins, þá hefur það í reynd orðið svo að þeim mun meiri sem verðbólgan er og því örari sem kauphækkanirnar verða, þeim mun erfiðara er að láta kaupgjald og tekjur bóndans fylgja hinu almenna kaupgjaldi og hinum almennu tekjum í landinu. Það verður alltaf svo að ýmsar framleiðsluvörur og rekstrarvörur bænda taka á sig örari hækkanir heldur en þær sem koma út í verðlagið, og þessu verður bóndinn að mæta annaðhvort beint eða óbeint með tekjutapi. Það má líkja þessu við það að þegar verðbólga er ör, þá hækkar verð á landbúnaðarvörum í þrepum, en hið almenna verðlag hækkar í línu sem ætli að snerta brúnir þrepanna. Þeim mun hærri sem þrepin eru, þeim mun stærri verður geirinn sem myndast á milli þrepanna og línunnar. Það bil, sem þar er á milli, verður bóndinn að greiða af eigin kaupi ef hann á að halda áfram rekstri búsins.

Ég ætla ekki að halda lengri ræðu um þetta mál. Ég vil endurtaka það, að ég er mjög þakklátur fyrir að þetta mál skuli hafa verið borið hér upp, og ég vænti þess að Alþ. megi lánast að fjalla um það á þann hátt að héðan komi lög sem stemmi stigu við því að mjólk verði eyðilögð, þessi undirstöðufæðutegund sem íslenska þjóðin hefur öðrum þræði lifað á allt frá upphafi, og að takast megi að gera það á þann veg að það brjóti ekki í bága við hugmyndir og réttlætiskennd verkalýðsins í landinn.