08.03.1976
Efri deild: 72. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2416 í B-deild Alþingistíðinda. (2014)

190. mál, vinnsla mjólkur í verkföllum

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af því, sem fram hefur komið hér í þessum umr., vil ég segja það, að hv. alþm. hafa yfirleitt rætt þessi mál með hófsemi og skilningi. Við gerum okkur allir grein fyrir því að hér er á ferðinni vandamál sem verður að fara með fullri aðgætni að, og ég vil taka það fram að mér dettur ekki í hug að halda því fram að öðrum aðilum sé um að kenna þegar tveir deila, í þessum tilfellum frekar en öðrum. Hins vegar hefur þróunin á síðari árum breyst nokkuð verulega þannig að það hefur færst meira yfir í að vera um allsherjarsamninga að ræða um landið allt, en ekki samninga á einstökum stöðum. Þetta hefur haft veruleg áhrif í sambandi við mjólkurbúin, og þó að bændur eigi aðild að mjólkurbúunum, þá er það ekki nema á vissan hátt sem því væri bjargað í gegnum þá aðild. Þó að tækjust samningar við mjólkurfræðingana og starfsfólk mjólkurbúana og á milli bænda og þeirra, þá mundi það ekki nægja til þess að hægt væri að reka mjólkurbúin, vegna þess að það yrði að vera flutningur á mjólkinni til þeirra líka.

Á síðari árum hefur færst yfir í það að gera allsherjarsamninga. Þess vegna held ég því fram, sem ég sagði áðan, að bændur eru í raun og veru ekki aðilar að slíkum kjarasamningum. Þeir hafa enga möguleika til að ráða niðurstöðum þeirra. Framleiðsla þeirra heima í fjósunum á sér stað þó að verkfall sé og kostnaður við reksturinn, eins og hér hefur komið fram.

Meginatriði þessa frv. gengur út að bjarga verðmætum frá eyðileggingu. Alveg hliðstætt því sem hv. 6. þm. Suðurl. benti réttilega á, að það væri leyft að láta vélstjóra vinna í frystihúsum til þess að skemma ekki matvæli, eins yrði með þetta að fara, það yrði að bjarga matvælunum frá eyðileggingu. Það er hægt með því að leyfa takmörkuðum hópi fólks — það yrði auðvitað að vera fólk úr mjólkurbúunum — að vinna að því að bjarga verðmætunum. Á annan hátt yrði þetta ekki gert. Ef um sölu neyslumjólkur ætti að vera að ræða, þá yrði það að vera eftir reglum eitthvað í átt við það sem gert var í síðasta verkfalli, en ekki með öðrum hætti, fyrst og fremst til að hafa áhrif á að heilsufar ungbarna og annars lasburða fólks biði ekki tjón við mjólkurleysið. En meginmálið hér er að bjarga verðmætunum frá eyðileggingu, alveg eins og á sér stað með frystihúsin þar sem haldið er áfram að keyra vélarnar þrátt fyrir verkfall. Þessu má ekki blanda saman, og það er ekki hægt með rökum að halda því fram að bændur gætu bjargað þessu með sérsamningum. Slíkt væri ekki framkvæmanlegt.

Ég tek svo undir það, sem fram kom hjá hv. 11. landsk. þm., að það ber brýna nauðsyn til að endurskoða vinnulöggjöfina, og æskilegasta leiðin í þeim efnum er samkomulag milli aðila vinnumarkaðarins. Þessi lög eru orðin bað gömul að það er ekki undarlegt þótt þau þurfi endurskoðunar við. Það breytir engu um það þó að komist verði að niðurstöðu um þennan þátt. Ég lít svo á að ef hægt er að bjarga því með samkomulagi, þá þurfi löggjafinn ekki til að koma. En við skulum gera okkur fullkomlega grein fyrir því, að bændur verða fyrir tekjumissi þó að þetta frv. verði að lögum. En verðmætunum verður bjargað og tekjumissirinu verður minni. Það er kjarni málsins.