08.03.1976
Neðri deild: 74. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2418 í B-deild Alþingistíðinda. (2019)

15. mál, almenn hegningarlög

Frsm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, var samið af hegningarlaganefnd sem nú vinnur að endurskoðun á ýmsum þáttum hegningarlaganna, en þetta frv. hefur verið flutt sérstaklega þar sem ekki þykir ástæða til að bíða með það eftir heildarniðurstöðu endurskoðunar fyrrgreindrar hegningarlaganefndar.

Að meginefni til er þetta frv. um breyt. á 40.–42. gr. hegningarlaganna þar sem gefið er meira svigrúm til þess að nota svokallaða reynslulausn, en reynslulausn er fólgin í því að eftir að afplánaður hefur verið ákveðinn hluti af refsitíma, þá er fanga veitt reynslulausn. Hann fær að vera frjáls ferða sinna og er þá undir honum sjálfum komið hvort ástæða er til þess að beita refsingunni frekar.

Í núgildandi hegningarlögum er heimild til þess að veita reynslulausn, en samkv. 40. gr. almennu hegningarlaganna er lágmarkstími afplánunar 8 mánuðir. Fyrr getur viðkomandi fangi ekki fengið reynslulausn. En lagt er til í þessu frv. að tíminn sé styttur í 4 mánuði. Þá er og gert ráð fyrir því að reynslulausn megi veita er helmingur refsitíma hafi verið tekinn út, en í gildandi lögum er ávallt áskilið að fangi hafi tekið út 2/3 hluta refsitímans. Þessi breyt. er, eins og fyrr segir, til þess að veita meira svigrúm í refsidómum og hefur, að svo miklu leyti sem heimildin hefur verið notuð bæði hérlendis og erlendis, gefist vel.

Á þeim tíma sem liðinn er síðan frv. þetta var samið hefur finnska ríkisþingið samþ. að stytta þennan refsitíma úr 4 mánuðum í 3 mánuði og hefur norræna refsilaganefndin svo og íslenska hegningarlaganefndin lýst sig sammála um að það spor sé stigið í annarri norrænni refsilöggjöf, en eins og kunnugt er, þá er verið að reyna að samræma norræna refsilöggjöf í öllum aðalatriðum og þetta frv. er liður í því.

Vegna þeirra ákvæða, sem nú eru í gildi, og vegna dómafordæma hafa dómarar á Íslandi ekki talið sér kleift að dæma skilorðsbundið eða taka tillit til félagslegra aðstæðna. Reynslan hefur líka verið sú, að fyrir vikið hefur þurft að grípa meira til náðana hér á landi heldur en víða annars staðar. Tilgangurinn með náðunum er ekki sá að til þeirra sé gripið í tíma og ótíma, heldur þegar mjög sérstaklega stendur á og við sérstakar aðstæður. Reynslulausn er miklu aðgengilegri og sveigjanlegri aðferð fyrir dómara sem vilja taka tillit til þeirra sem ákærðir hafa verið og eiga dóm yfir höfði sér.

Allshn. leggur til að frv. verði samþ. eins og það var lagt fram, með þeirri breyt. að í staðinn fyrir 4 mánuði sé talað um 3 mánuði og að því leyti til farið að fordæmi finnska ríkisþingsins.

Þá er ein breyt. í þessu frv. sem er annars eðlis, en hún er breyt. á 232. gr. hegningarlaganna. Er lagt til að sú gr. orðist svo:

„Ef maður þrátt fyrir áminningu lögreglunnar raskar friði annars manns með því að ásækja hann, ofsækja með bréfum eða ónáða hann á annan svipaðan hátt, þar á meðal með símhringingum, þá varðar það sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 6 mánuðum. Áminning lögreglunnar hefur gildi í 5 ár.“

Refsing fyrir slík brot er ekki fyrir hendi í löggjöfinni, en lögð nokkur áhersla á, að þetta ákvæði sé samþ. til þess að bregðast við með ákveðnari hætti gagnvart ofsóknartilraunum eins og þarna um ræðir heldur en nú er mögulegt.

Lagadeild Háskóla Íslands, Lögmannafélag Íslands og Lögfræðingafélag íslands, allir þessir aðilar hafa mælt með samþykkt frv.. bæði aðalefnis þess og þeirrar brtt. sem ég nefndi síðast. Allshn. leggur til að málið verði samþ. með þeirri hreyt. sem fram kemur á þskj. 383 og fjallar sem sagt um þá breyt. að í stað orðanna „4 mánuðir“ komi: 3 mánuðir.