04.11.1975
Sameinað þing: 11. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í B-deild Alþingistíðinda. (202)

14. mál, raforkumál á Snæfellsnesi

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Raforkukerfið á Snæfellsnesi hefur lengi verið nokkrum truflunum háð. Eftir að raforkukerfi Snæfellsness var tengt við kerfi Landsvirkjunar hefur ekki náðst enn það rekstraröryggi sem íbúar þar höfðu vænst með tengingu þess við það kerfi. Lögð hefur verið háspennulína frá Andakíl að Vegamótum á Snæfellsnesi og þaðan áfram til Stykkishólms. 15. mars 1975 var þessi lína tekin í notkun og orkuflutningur hafinn. Með tilkomu hennar á að aukast öryggi við afhendingu raforku á Snæfellsnesi. Auk þess má vænta töluverðs sparnaðar, því að á árinu 1974 var meira en helmingur raforku á Snæfellsnesi framleiddur með dísilolíu. Með tilkomu þessarar tengingar mun einungis verða framleitt varaafl með dísilvélum á svæðinu.

En breytingum, sem þarf að gera á kerfinu, er ekki lokið enn þá. Hefur ekki verið gengið frá aðveitustöðvum á Vegamótum og í Stykkishólmi, en vonir standa til eftir upplýsingum Rafmagnsveitna ríkisins að þeim verði lokið fyrir árslok. Í sumar hefur línan á sunnanverðu Snæfellsnesi verið styrkt og spennan á henni hækkuð úr 11 í 19 kílóvolt. Við þetta mun tenging til Ólafsvíkur og Grundarfjarðar styrkjast verulega. Þó ber þess að gæta að hér er enn um dreifilínu eða sveitalínu að ræða og má jafnan búast við nokkrum rekstrartruflunum á henni. Á meðan ekki er lokið vinnu við framangreindar aðveitustöðvar verður raforkukerfi Snæfellsness nokkuð óstöðugt, svo að verði bilun í þessu kerfi getur orðið nauðsynlegt að setja í gang varastöðvar.

Eins og fyrr var sagt er búist við því að tenging aðveitustöðvanna á Vegamótum og í Stykkishólmi muni auka verulega rekstraröryggi kerfisins og munu einstakir hlutar þess verða miklu óháðari truflunum en verið hefur að undanförnu. Meiri hluti efnis í þessar stöðvar er kominn til landsins, annað væntanlegt fljótlega og verður þá hægt að ljúka tengingu aðveitustöðvanna. Þá mun styrking háspennulínunnar á sunnanverðu Snæfellsnesi einnig styrkja kerfið frá því sem verið hefur að undanförnu. Þegar þessum framkvæmdum er lokið er þess vænst að rekstraröryggi kerfisins verði viðunandi.