08.03.1976
Neðri deild: 74. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2425 í B-deild Alþingistíðinda. (2023)

153. mál, viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég ætlaði mér ekki að taka til máls um þetta frv., sem hér er rætt, við 1. umr., en ýmislegt, sem hæstv. menntmrh. sagði áðan, varð til þess að ég gat ekki á mér setið.

Hæstv. ráðh. ræddi talsvert um nauðsyn þess að tengja skóla og skólanám við atvinnulífið. Við skulum bara líta á hvað er að gerast í skólakerfi okkar í því sambandi. Það hefur verið talið nauðsynlegt af yfirvöldum fræðslumála og verið gert að lengja stöðugt skólaárið. Niðurstaðan hefur orðið sú að menn hafa uppgötvað að árlegt orlof skólanemenda er orðið það stutt að það er fleiri og fleiri í þeim hópi sem nota ekki það orlof til þess að stunda vinnu. Þá kemst skólakerfið að þeirri gáfulegu niðurstöðu að þetta sé að sjálfsögðu ekki vel gott, að fólk skuli geta farið í gegnum íslenska skólakerfið án þess að kunna að vinna úti í atvinnulífinu. Þá dettur því það snjallræði í hug að fara nú að kenna fólki að vinna í skólum með því að taka upp alls konar námskeið, í sjóvinnu og iðnaði og tæknistörfum, og flytja það inn í skólana, m.ö.o. að lengja kannske eilítið hinn árlega námstíma til þess að geta kennt nemendum vinnu sem þeir stunduðu áður fyrr í sínum eðlilegu fríum.

Það er sem sé smátt og smátt verið að koma í veg fyrir að árið nýtist nemendum til alhliða menntunar því að menntun fer ekki bara fram í skóla. Það er líka fólgin menntun í því fyrir ungan mann eða unga konu að þekkja til frumatvinnuframleiðslu þjóðarbúsins, þekkja hugsunarhátt fólksins sem þar starfar, aðbúð og kjör.

Þessi hluti menntunar lærist ekki í skólum, ekki einu sinni á fræðslunámskeiðum um sjóvinnu, iðnað eða tæknistörf. Ég vara mjög við því, að ég tel að hér séu fræðsluyfirvöld að fara út á ranga braut, að vera stöðugt að lengja hið árlega skólanám og komast síðan að þeirri niðurstöðu að þetta árlega skólanám sé orðið svo langt að það verði að fara að flytja vinnukennslu inn í skólana til þess að kenna nemendum að vinna störf sem unnin eru á hinum frjálsa vinnumarkaði. Ég held það væri rétt fyrir hæstv. menntmrh. — og tala ég þar af eigin reynslu sem faðir skólabarna — að kynna sér t.d. hér í Reykjavík hvernig þetta skólaár er notað, hvenær hið raunverulega skólastarf reykvískra skóla hefst á haustin, hversu algengt það er að þegar skólabörn eru kvödd til skólastarfs í byrjun septembermánaðar sé ekki einu sinni til fullfrágengin stundatafla og ekki farið að vinna að töflugerð fyrr en nemendurnir eiga að vera mættir, hversu algengt það er orðið í íslenskum grunnskólum að nemendur séu kallaðir til skóla úr atvinnulífinu eða úr sveitum til þess eingöngu að vera við skólasetningu og eru svo sendir heim og sagt að mæta ekki aftur í skóla fyrr en að 10 dögum eða hálfum mánuði liðnum og hvað mikill árlegur skólatími fer í alls konar próf, skyndipróf, miðsvetrarpróf og annað slíkt. É g held að hæstv. ráðh. ætti að athuga þessi mál og sjá hvernig skólatíminn er nýttur.

Þá vil ég einnig að því víkja og get tekið undir margt það, sem hv. þm. Svava Jakobsdóttir sagði hér áðan, að það virðist vera í íslensku skólakerfi að það grípi um sig þar einhvers konar tískuorðafaraldur. Menn detta ofan á eitthvert nýtt skólaheiti eða starfsheiti á námi og það fer eins og farsótt gegnum allt íslenska skólakerfið. Ég þekki ekki nokkurt annað skólakerfi í nokkru landi sem er algjörlega undirlagt alls kyns tilraunastarfsemi eins og það íslenska. Það virðist ekki vera stjórn á nokkrum sköpuðum hlutum þar lengur. Allt kerfið er undirlagt í eintómri tilraunastarfsemi.

Tískuorðið, sem nú ber hæst, sem allir ætla að keyra í gegn og framkvæma, er fjölbrautaskóli. Allir eru að berjast við að taka upp fjölbrautaskóla. En hvað er fjölbrautaskóli? Fjölbrautaskóli er skóli sem gefur nemendum tækifæri á því að ljúka við ýmislegt nám innan sinna vébanda. Það hefur verið settur upp fjölbrautaskóli hér í Reykjavík. Það var auglýst með hástemmdum orðum að einn þátturinn í námi þessa fjölbrautaskóla væri að veita verklega menntun á iðnnámsstigi. Guð almáttugur hjálpi mér. Það eru yfir 60 löggiltar iðngreinar í landinu. Þessi skóli lýsir því yfir að hann ætli að taka til við að kenna nemendum, sem inn í hann koma, leysa þá út frá sveinsprófi í 60 löggiltum iðngreinum. Hvað eru menn að hugsa? Íslenska þjóðin hefur verið að baksa í því um áratugaskeið að reyna að koma verkstæðisnámi inn í iðnskólana. Okkur hefur tekist á öllum þessum tíma að byggja upp örfá fullkomin verkstæði, — ja, maður ætti kannske ekki einu sinni að segja fullkomin, en örfá skólaverkstæði við eina stóra iðnskólann í landinu, Iðuskólann: Reykjavík, og svo eru menn að prédika núna að það eigi að reisa fjölbrautaskóla úti um hvippinn og hvappinn sem eigi að taka að sér að kenna nemendum, sem inn í þessa skóla koma, til sveinsprófs í yfir 60 iðngreinum og það eigi bara að vera einn þátturinn af mörgum í námi þessara skóla. Þetta er svo algjörlega stjórnlaust og vitlaust að ég held að þess séu fá dæmi að mönnum geti dottið annað eins í hug og þetta.

Nei, við eigum ekki að vera að flýja vandamálið með að grípa til svona pappírslausna sem líta vissulega vel út þegar þær eru settar fram. Það er hægt að auglýsa svona starf upp ansi skemmtilega fyrir saklausa foreldra og saklausa nemendur, hægt að telja þeim trú um að það sé hægt að stofna skóla á einu eða tveimur árum sem m.a. geti boðið nemendum að ganga þar inn að loknu barnaskólaprófi og koma þaðan út aftur eftir þetta og þetta mörg ár sem fullgildur sveinn í hinni eða þessari iðugrein. Þetta lítur ákaflega vel út á pappírnum, en þetta er bara ekki hægt að framkvæma og með því að vera að segja slíkt við nemendur, sem vita ekki hvernig málum er hagað, er hreinlega verið að gabba þá. Það er verið að plata þá nemendur, sem ganga inn í slíka skóla, vegna þess að slíkir skólar geta ekki staðið við þau loforð sem þeir gefa þessum nemendum í upphafi. Það er hrein svívirða að vera að flýja fjárhagsvandamál iðnfræðslukerfisins með því að vera að búa til pappírstígrisdýr eins og þessa fjölbrautaskóla sem aldrei koma til með að geta gegnt því hlutverki sem þeir eru að lofast til að gegna.

Það er að vissu leyti rétt að það er ýmislegt nytsamlegt við hugmyndina um fjölbrautaskóla. Þetta getur komið að gagni í löndum þar sem til eru sérstakir fagskólar í ýmsum verknáms- og bóknámsgreinum og þar sem rétt þykir að sameina slíka fagskóla undir einn hatt, þannig að nemendur þurfi ekki að hlaupa á milli mismunandi sjálfstæðra skólastofnana til þess að leita sér náms, heldur geta leitað sér náms síns í kannske fjölmörgum skólum, en undir einum hatti. En þessir skólar, sem eru grundvöllur slíks kerfis, eru ekki til á Íslandi. Þessir verkstæðisskólar, sem eru forsenda þess að hægt sé að setja fjölbrautaskóla á fót, eru ekki til hér og það vandamál, að þeir séu ekki til, verður ekki leyst með því að samþ. einhver lög hér á hinu háa Alþ. eða reglur sveitarstjórna um að setja upp eitthvert pappírstígrisdýr sem heitir fjölbrautarskóli. Það er kannske talsverð lýsing á því í hvernig íslendingar leysa gjarnan fjárhagsvanda í sínum menntamálum að þegar þeir ekki geta ráðið við að fjármagna iðnfræðslukerfið, þá á að leysa það með því að búa til eitthvert pappírstígrisdýr, eins og fjölbrautaskóla, til þess að geta gabbað saklausan almenning.