08.03.1976
Neðri deild: 74. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2435 í B-deild Alþingistíðinda. (2028)

153. mál, viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi

Jónas Árnason:

Herra forseti. Sjö óbreyttir þm., einn hæstv. ráðh. og einn hæstv. forseti, fáir í þingsalnum eins og fyrri daginn þegar verið er að ræða þau mál, sem ekki gefa þm. tækifæri til að láta ljós sitt skina um efnahagsmálin eða önnur hin æðri tilverusvið stjórnmálanna.

Ég verð að gera athugasemd við ræðu hv. þm. Ellerts B. Schram hér áðan. Hann sagði að ég hefði með ummælum mínum um Samvinnuskólann verið að hræsna, ég hefði fallið, sagði hann, enn einu sinni í þá gryfju að hræsna fyrir alþýðunni. Ég var að segja álit mitt á þessum ágæta skóla og stend við það. Ég rökstuddi þann fyrirvara sem ég hafði varðandi Verslunarskólann í þessu sambandi, að það væri ekki alveg sambærilegt hvort skólinn væri rekinn af fjöldahreyfingu, eins og samvinnuhreyfingin er, eða af Verslunarráði Íslands eða kaupsýslustéttinni. Í framhaldi af þessu lét hv. þm. þess getið, þegar hann tók undir skoðanir okkar sem höfum talið að ekki mætti lengja skólatíma hjá ungu fólki, þá nefndi hann það sem dæmi að hann hefði sem nemandi í Verslunarskóla snemma á vorin komist út á vinnumarkaðinn og þar með fengið tækifæri til þess að kynnast hinu vinnandi fólki þessa lands. Ég verð að segja að ég tel hv. þm. einmitt mjög gott dæmi um það, hvað þetta gamla kerfi var hollt og mannbætandi, og vona að með þessu telji hann ekki að ég sé að hræsna fyrir íhaldsþingmönnum almennt.

Hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir vék hér að atriði sem ég tel mjög þýðingarmikið. Það er fyrirkomulag tungumálakennslunnar eins og það er orðið í skólum yfirleitt. Þar hafði lengi viðgengist gamla fyrirkomulagið, að nemendum var sett fyrir eitthvað í bók að lesa heima og síðan hlýtt yfir þetta. Þetta var að vísu gallað kerfi að því leyti til, að nemendum gafst ekki mikill tími til þess að læra að tala viðkomandi tungumál. Svo var alveg söðlað um og öll áherslan lögð á það að æfa fólk í að tala viðkomandi mál. Það varð aðalatriðið í tungumálakennslu að menn gætu lært að tala málið. Þetta hefur eflaust borið nokkurn árangur. En það, sem gerist um leið, er að tungumálakennararnir rækja ekki sama hlutverk og þeir gerðu fyrrum varðandi móðurmálið sjálft. Ég er alveg sannfærður um að ein aðalástæðan fyrir því að margt ungt fólk hefur að miklu leyti glatað tilfinningunni fyrir móðurmálinu er þetta nýja kerfi í tungumálakennslu. Tungumálarakennararnir hér fyrrum þeir voru jafnframt móðurmálskennarar, og þegar nemandi var látinn þýða upp úr bók yfir á íslensku gekk kennarinn eftir því að það væri þýtt á gott mál. Og jafnframt var þetta tilsögn varðandi gildi málsins og um leið efling tilfinningarinnar fyrir málinu, æfing í því að tala móðurmálið.

Þetta er núna horfið. Og ég spyr: Væri ekki betra að hafa svolítið hóf á og halda þessu gamla kerfi að einhverju leyti? Væri ekki rétt að hafa hóf á þegar teknir eru upp hinir nýju siðir og þá sérstaklega í þessu tilfelli, — halda einhverju af þessu gamla fyrirkomulagi þar sem gengið var eftir því að nemandinn gæti skilað merkingu þess, sem honum hafði verið sett fyrir heima í erlendu tungumáli, yfir á gott íslenskt mál.