08.03.1976
Neðri deild: 74. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2436 í B-deild Alþingistíðinda. (2029)

153. mál, viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið, en mig langar þó að víkja að örfáum atriðum af því sem hér hefur komið fram.

Ég vil taka undir það sem fram kom hjá síðasta hv. ræðumanni og fleiri ræðumönnum hér: Við eigum ekki að fleygja því sem hagnýti er í okkar skólakerfi og skólastarfi þó við hugum að nýjungum. Við höfum töluvert mikla aðstöðu hér á þessu, eylandi okkar og eigum ekki að gleypa allt hrátt sem að höndum ber.

Það hefur aðeins verið minnst á skólana sem nú starfa á viðskiptasviðinu, Samvinnuskólann og Verslunarskólann, og hvort þetta væru góðar stofnanir eður ei. Ég er fyrir mína parta sannfærður um að þetta eru hvort tveggja mjög góðar stofnanir. Ég hef af tilviljun átt leið í Verslunarskólann hérna í Reykjavík nokkrum sinnum síðan ég kom í rn. og hafði óbeint nokkur kynni af skólastarfi þar áður. Og ég er sannfærður um það að á báðum þessum stöðum er vel starfað og það ríkir góður skólaandi á þessum stöðum, þar er mikið félagslíf og mikið lífrænt starf. Auðvitað eru þetta hlutir sem erfitt er að fullyrða um. Þetta er e.t.v. meira tilfinning, en mín tilfinning er svona.

Það er enginn vafi á því að þetta fyrirkomulag, sem hefur verið á viðskiptafræðslunni á Íslandi, hefur verið ódýrt fyrir ríkissjóð, því að fyrir utan það að ríkið greiðir ekki nema lítinn hundraðshluta til þessara skóla, þá virðast þeir hafa verið reknir á hagkvæman hátt og heildarkostnaður við fræðslu í þessum skólum á nemanda mun vera nokkuð miklu minni en almennt á hliðstæðu skólastigi.

Hv. 5. landsk. þm., — ég vil ekki að það sé neinn misskilningur okkar í milli, — ég var ekki að vefengja tölur hennar á neinn hátt, en ég vildi bara benda á að þó að ríkið greiði ekki nema helming kostnaðar í iðnskólunum, þá er það hið opinbera sem kostar þá. Og ég man nú eftir því í vetur, þegar verið var að afgreiða fjárlögin og færa verkefni yfir á sveitarfélögin, að þá sögðu hv. flokksbræður þessa hv. þm. að það væri ekki allur munur á hvort skattarnir væru lagðir á á þessum staðnum eða hinum, því að frá almenningi kæmu auðvitað peningarnir. En ég vil enn leggja áherslu á það, að þó ég bendi á þetta, þá má það ekki verða til þess að skyggja á hitt, að það eru stórkostleg vandkvæði og vandræði bókstaflega hvernig nú háttar þátttöku ríkisins í kostnaði við skóla framhaldsstigsins, þar sem í sumum tilvikum er greitt að fullu, í öðrum að hálfu o.s.frv. Á þessu verðum við að ráða bót með einhverjum hætti og koma á samræmi.

Hv. 5. landsk. talaði um að allt frumkvæði varðandi það sem gerst hefði í verkmenntamálum kæmi frá skólamönnunum, ekki frá því opinbera, ráðuneytinu. En ég er nú eiginlega þarna á nokkurn veginn á sama báti og Jón hrak sem „hugði ei sannleik hóti betri hafðan eftir Sankti-Pétri heldur en ef svo hending tækist, að húsgangurinn á hann rækist“. Þetta álít ég að skipti ekki miklu mál. En það er nú líka verið að puða í höfuðstöðvunum. Sumt af því, sem gert hefur verið, á upptök sín þar og annað úti á vinnustöðunum og tel ég einmitt æskilegt að þar komi hvort tveggja til.

Hv. þm. Stefán Valgeirsson, 3. þm. Norðurl. e., minntist á þann möguleika að hefja viðskiptamenntun norðanlands þegar í haust og þá í húsakynnum Laugalandsskóla. Ég skal ekki segja um það hvort þetta er möguleiki. Ég skal ekkert segja um það á þessu stigi. En hitt er auðvitað alveg ljóst, að það er þörf á meiri möguleikum til þess að nema viðskiptafræði. Það sýnir aðsóknin að þessum skólum. Þó að hún byggist að einhverju leyti á því að þeir njóta viðurkenningar og eru í áliti báðir, þá er aðsóknin einnig til komin af því að þarna er mikil þörf — aukin þörf og vaxandi.

Fjölbrautaskólinn í Breiðholti byrjaði með viðskiptafræðslu og það kannske slakar aðeins á spennu, en hann tekur ekki við nema litlu einu af eftirspurninni, það er ég sannfærður um. Það er því ástæða til að huga að öllum möguleikum þarna.

Það verða ýmsar breytingar í skólamálum okkar, hvort sem okkur líkar betur eða verr og hvort sem þær eru undirbúnar af einhverjum stjórnvöldum eða verða fyrir þróun úti í lífinu sjálfu. Þannig gerist það t.d. að húsmæðraskólarnir sumir standa auðir þó að aðrir séu fullsetnir vetur eftir vetur. Þetta hefur t.d. gerst norður frá varðandi laugalandsskóla. Hann er ekki rekinn í vetur. Það verða áreiðanlega breytingar varðandi t.d. stöðu héraðsskólanna, og það er fyrirhugaður fundur nú á næstunni með skólastjórum héraðsskólanna til þess að ræða sérstaklega um þau mál. En það hefur mér aldrei blandast hugur um, að þó að breytingar verði að þessu leyti, líkt og ég var að nefna dæmi um í sambandi við húsmæðrafræðsluna, þá verður stöðugt þörf fyrir þann húsakost og aðbúnað sem fyrir hendi er til nota í fræðslukerfinu, jafnvel þó að það kunni að koma einn vetur eða tveir með eins konar millibilsástandi á þessum staðnum eða hinum.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, 8. landsk. þm., virtist verða eitthvað órólegur þegar ég fór að rifja það upp að það hefði verið aðeins hreyfing í sambandi við verkmenntamálin 1 Hann ræddi um ýmsa þætti varðandi skólastarfið í landinu og stjórnun skólamálanna. M.a. ræddi hann um lengingu skólaársins og inná það hafa fleiri hv. þm. komið í ræðum sínum hér. Eins og bent hefur verið á er hér um að ræða langa þróun. Hér er í raun og veru um að ræða þróun í þessa átt allt frá því að fyrstu fræðslulögin voru sett á Íslandi, að það er sífellt verið, svona smátt og smátt, að lengja skólaárið. Við erum sjálfsagt ekkert einangrað fyrirbrigði að þessu leyti, íslendingar. Þetta er samstiga þróun því sem gerst hefur í öllum nálægum löndum, að ég ætla, á sama tíma, nema þar hefur víða verið farið enn lengra í þessa átt annars staðar. Við erum skemmra á veg komin í þessa átt hér heldur en á Norðurlöndum, heldur en í Bandaríkjunum og Bretlandi o.s.frv. Ég held að það hafi ekki sakað þó að við höfum flýtt okkur hægt í þessu efni. Og það eru allir sammála um það, að mér heyrist, hvar sem þessi mál eru rædd, að það sé full þörf á því að huga vel að og jafnvel stinga hér við fótum. Það er ekki einasta að þessar raddir heyrast hér í þingsölum frá mörgum hv. alþm. Þær heyrast líka víðs vegar, bæði frá ungum og gömlum, frá fólki, sem hefur eytt skömmum tíma á skólabekk, og langskólafólki. Eru mér þá í minni ummæli í ræðu rektors Háskóla Íslands á háskólahátíð fyrir nokkru þar sem hann lét þá skoðun í ljós að það væri höfuðatriði fyrir okkur íslendinga að halda áfram þeim hætti að unga fólkið samtímis sinni skólagöngu ynni víðs vegar á hinum ýmsu vinnustöðum í atvinnulífinu í breiðustu merkingu. Og þegar grunnskólalögin voru afgr. vorið 1974 kom þessi hugsun greinilega í ljós. Það var selt inn í löggjöfina ákvæði um að lengja skólaskylduna, en jafnframt er gert ráð fyrir að fjallað sé um lenginguna sérstaklega á Alþ. innan fjögra ára frá setningu löggjafarinnar, áður en hún komi til framkvæmda. Hér í þingsölum voru menn þá mjög með það í huga að við skyldum flýta okkur hægt að þessu leyti.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson var að óskapast yfir alls konar tilraunastarfsemi sem fram færi í skólanum. Ég er nú eiginlega vanari að sjá gagnrýni um það að ekkert sé verið að gera og þar sitji allt í sama farinu, en hann tók þennan pól í hæðina núna. Auðvitað er sífellt verið að reyna að þoka málum á leið, fylgjast með þróun og þróa málin í skólakerfinu eins og annars staðar í þjóðlífinu. Ég er alls ekki kominn til með að samþ. það að t.d. sú starfsemi, sem hefur verið unnin á vegum menntmrn., skólarannsóknadeildar á undanförnum árum í sambandi við endurskipulagningu námsefnis, og þá á ég sérstaklega við grunnskólastigið, að hún hafi verið neitt sérstaklega fálmkennd þegar á heildina er lítið. Sjálfsagt hafa orðið þar mistök eins og í flestu öðru mannlegu starfi. Ég dreg það ekki í efa. Og það er sjálfsagt hægt að benda á þau. En þegar á heildina er lítið álít ég að þar hafi verið unnið jákvætt og lífrænt starf undir forustu þeirra manna sem þar hafa starfað, Andra Ísakssonar fyrst og Harðar Lárussonar síðar. það er búið að fara yfir marga þætti námsefnisins á grunnskólastiginu, bæði með samningu nýrra kennslubóka og endurskoðun á námsskrám og með því að gera fyrstu tilraunir í nokkrum skólum með hið nýja fyrirkomulag og nýtt námsefni og síðan að færa þetta út. Það má nefna þætti eins og eðlisfræði, eins og mál, þ. á m. móðurmálið. Það hefur verið mjög mikil vinna lögð í að reyna að leiða til þess, sem við öll viljum auðvitað leggja kapp á, að gera móðurmálskennsluna á grunnskólastiginu lífrænni og jákvæðari en mönnum fannst hún vera orðin. Og varðandi verkmenntaþáttinn á grunnskólastiginu hefur einnig töluvert verið aðhafst. Ég álít fráleitt að skopast hér á Alþ. að þessum tilraunum, sem verið er að gera, með því að glæða skilning og kynna börnum og unglingum hina ýmsu starfsþætti þjóðfélagsins. Við búum í allt öðru þjóðfélagi hér að þessu leyti en var fyrir nokkrum áratugum. Þá lifði meginhluti þjóðarinnar í strjálbýli. Unglingarnir voru með í vinnu, fengu sína þjálfun og þekkingu á atvinnulífinu beint í gegnum lífandi starf með foreldrum sínum. Nú erum við komin inn í allt annað samfélag þar sem heimilið er ekki lengur atvinnustöð á sama hátt og það áður var, og þó að ýkt sé dæmið sem einn hv. þm. hefur sett upp í bók sinni ágætri, þ.e. hv. þm. Stefán Jónsson, um hjónin sem bjuggu í Hveragerði: Maðurinn vann í Reykjavík, þau áttu tvö börn, enn fremur hund sem hét Lappi. Hundurinn varð undir bíl. Móðirin varð mjög kvíðandi þegar börnin komu úr skólanum og segja þeim frá þessum hrakförum hundsins sem þeim þótti mjög vænt um. En þegar til kom kipptu börnin sér ekkert upp við þetta og spurðu kalt og rólega: „Hvar léstu hann?“ Og hann var þá látinn í bílskúrinn. Konan fór að sýsla við matinn handa börnunum. En þá komu þau með háum hljóðum og veinuðu: „Mér heyrðist þú segja pabbi!“

Þó að þetta sé mjög afstrakt mynd, þá er hún fyllilega alvarlegs eðlis, raunhæf. Svo mikil gjörbreyting hefur átt sér stað, að það er ekki einungis að börnin séu slitin úr tengslum við atvinnulífið og kynnast því ekki lengur, heldur er þessi hætta yfirvofandi, að þau slitni úr tengslum a.m.k. við þann aðila fjölskyldunnar sem mest sækir vinnu utan heimilis. Og mér finnst alveg fráleitt að vera að skopast að starfskynningunni og tilraunum til þess með námskeiðum, styttri eða lengri, að þróa með nemendum grunnskólans, börnum og unglingum, skilning — og um leið efla þekkingu þeirra — á hinum ýmsu atvinnugreinum sem verið er að vinna við í landinu. Það má aðeins minna á það hér, af því það hefur verið skrifað um það þó nokkuð, að skólinn sé stirðnaður í bekkjakerfinu svokallaða, að einnig á því sviði er verið að gera skipulegar tilraunir og kannanir í hinum svokallaða opna skóla. Menn greinir á um þetta, og ég álít að menn verði að fara sér hægt í þessu, en það er sjálfsagt að gefa gætur að öllum möguleikum.

Það hefur komið hér fram í ræðum manna, og gott ef ekki sami hv. þm., Sighvatur Björgvinsson, vék að því einnig, um nauðsyn þess að hafa góð tengsl með hliðstæðri kennslu í fjölbrautaskólunum og í iðnskólum. Já, hv. þm. sagði að það væri lofað að kenna þar 60 iðngreinar! Maður sér nú hvað þess háttar upphrópanir eru viskulegar — og svo þetta um pappírstígrisdýrin. En sleppum því nú alveg. En geta má um að nýlega hef ég sett menn til þess sérstaklega að huga að því hvernig Fjölbrautaskólinn í Breiðholti geti unnið saman með Iðnskólanum og notað kannske aðstöðu sem þar er e.t.v. fyrir hendi án þess að vera fullnýtt. Og það er áreiðanlega þörf á að huga að slíkum tengslum viðar, t.d. á milli Tækniskólans og verkfræðideildar Háskólans. Þetta eru skólar sem starfa á líku sviði, og það er fullþörf á því að þarna sé hagsýni gætt og hugað að nauðsynlegum tengslum.

Og ég vil enn minna á það sem ég vakti athygli á áðan og ég hygg að hafi komið fram í kynningarþætti Óskars Guðmundssonar í sjónvarpinu, að við hina nýju tilhögun á fræðslunni er beinlínis gert ráð fyrir því að meiri hlutann af síðasta og fjórða skólaárinu starfi nemendurnir úti. í atvinnufyrirtækjunum, úti í verksmiðjum og á öðrum vinnustöðum. Menn eru að tala um að leggja niður meistarakerfið, en það þýðir vitanlega að bóklega kennslan fer fram í skólunum, en eitthvað verður að koma í staðinn fyrir meistarann og þá gjarnan hugsa menn sér að hluti af náminu fari beinlínis fram úti á vinnustöðunum.

Já, það er leiðinlegt að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson er ekki hér við. En hann les Alþt. og ég vil láta það koma hér skýrt fram út af ummælum hans um að kennarar á grunnskólastigi hér í Reykjavík vanræki sín störf, séu ekki með undirbúna stundaskrá þegar skóli byrjar á haustin, — ég veit ekkert um þetta og get ekkert um þetta sagt, — en mér finnst að hv. þm. eigi fremur að kvarta um þetta beint og bréflega til rn. og tiltaka ákveðin dæmi, kvarta um þetta beint til menntmrn. heldur en að koma með þetta inn á Alþ. á þann hátt sem hv. þm. gerði áðan. En ef hann hefur einhver ákveðin dæmi í huga og ber fram ákveðnar kvartanir, þá er auðvitað sjálfsagt að taka þær til athugunar.

Ég skal þá ekki hafa þessi orð öllu fleiri. Það er stundum talað um að það sé allt stjórn- og stefnulaust í skólamálunum. Grunnskólalöggjöfin er ekki nema tæplega tveggja ára. Ég álít að með þeirri löggjöf og með framkvæmd hennar, sem nú fer fram eftir því sem geta leyfir, hafi verið mörkuð stefna varðandi fræðslumálin á þessu skólastigi. Ég álít það. lá var gert ráð fyrir því og því slegið föstu að framhaldsskólastigið skyldi taka til meðferðar í beinu framhaldi af þessari lagasetningu. Það hefur verið gert, eins og ég vék að hérna á dögunum þegar þessi umr. hófst. Sérstaklega hefur verið lögð mikil undirbúningsvinna í verkmenntaþáttinn. Verk- og tæknimenntanefnd, sem starfaði 1971, skilaði mjög ítarlegu og greinagóðu og samhljóða áliti. Iðnfræðslulaganefnd, sem starfaði frá 1973 og þangað til nú um áramótin, hefur einnig skilað yfirgripsmiklu áliti, en var ekki sammála. Meira hefur verið gert á þessu sérstaka sviði. N, til þess að endurskoða þessi mál í heild var sett í nóv. 1974, og ég vona að á allra næstu vikum komi frá henni frumtill. sem síðan þarf að ræða ítarlega, eins og ég hef áður vikið að. Ég tók það ráð að skipa samstæðan hóp manna sem er með fingurna í þessum málum dagsdaglega. En vitanlega þurfa svo þeirra störf að skoðast ítarlega og á mörgum sviðum í hópi þeirra manna, sem um þessi mál fjalla almennt og áhuga hafa á þeim, þegar þessi frumvinna liggur fyrir. En sú endurskoðun er vitanlega bæði stórmál og vandasamt mál.