09.03.1976
Sameinað þing: 60. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2442 í B-deild Alþingistíðinda. (2033)

146. mál, virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Fyrirspurnin er í tveim liðum. Fyrri liðurinn er svo hljóðandi:

„Hverjar eru meginniðurstöður athugana á orkuvinnslugetu Bessastaðaárvirkjunar í Fljótsdal? Hvenær verður hægt að taka ákvörðun um virkjun Bessastaðaár og hvaða stærð virkjunar mundi verða hagstæðust?"

Í lögum um virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal frá des. 1974 er gert ráð fyrir allt að 32 mw. virkjun þar. Sú stærð virkjunar var valin með hliðsjón af þeim gögnum sem þá lágu fyrir. Aflið 32 mw. er byggt á meðalársrennslisorku árinnar sem áætluð var 185 gwst. á ári miðað við 68 millj. teningsmetra miðlun.

Á s.l. ári var unnið að ferkari rannsóknum á svæðinu, svo sem nákvæmari kortagerð, jarðborunum og jarðfræðirannsóknum, svo og reiknaðar rennslisraðir árinnar, byggðar á úrkomumælingum, og gerðar frekari verkfræðilegar athuganir. Einnig var gerð rekstrareftirlíking í tölvu fyrir virkjunina. Ráðgjafaverkfræðingar, Helgi Sigvaldason o.fl., unnu það verk. Slíkar athuganir hafa á undanförnum árum verið gerðar fyrir ýmsa virkjunarkosti hér á landi og hafa gefið mikilsverðar upplýsingar um eiginleika einstakra virkjunarmöguleika, m.a. að því er varðar orkuvinnslugetu og aflþörf í samrekstri við það kerfi sem virkjunin tengist.

Við slíka athugun eru notaðar upplýsingar um virkjunaraðstæður, m.a. rennsliseiginleika og miðlunarmöguleika þess vatnsfalls sem virkja á, svo og sömu upplýsingar um þær virkjanir sem fyrir eru í kerfi því sem væntanleg virkjun tengist. Þá er stuðst við upplýsingar um orkumeðferð og orkuspá. Með þessu fæst stærðfræðilegt líkan af orkukerfinu. Er síðan gerð svokölluð rekstrareftirlíking í tölvu fyrir ákveðið tímabil, þ.e. athugað hver orkuvinnslugeta kerfisins muni verða eftir tilkomu væntanlegrar virkjunar og hvaða afl sé æskilegt að sé fyrir hendi í virkjuninni.

Slík athugun sem þessi veitir mikilsverðar upplýsingar um eiginleika þess raforkukerfis sem athugað er, en er þó vissum takmörkunum háð, m.a. hvað snertir takmörkun á flutningsgetu háspennulína.

Með orkuvinnslugetu virkjunar er hér átt við þá aukningu í orkuvinnslugetu sem fæst úr því kerfi sem virkjunin er tengd inn á. Þessi aukning orkuvinnslu þarf ekki að vera bundin við orkuvinnslu í þeirri virkjun sem verið er að athuga. Samreksturinn getur haft í för með sér aukningu á orkuvinnslu annarra virkjana í kerfinu, t.d. ef fyrir er skortur á miðlun eða rennsliseiginleikar vatnsfalla mjög álíkir.

Orkuvinnslugeta Bessastaðaárvirkjunar var athuguð miðað við tvo kosti:

1) Að Bessastaðaárvirkjun tengist við núverandi Austurlandskerfi.

2) Að Bessastaðaárvirkjun tengist við landskerfi, þ.e. þegar Austurland hefur verið tengt við Norðurland og Suðurland eftir að Sigölduvirkjun og Kröfluvirkjun hafa verið teknar í notkun.

Orkuvinnsla er mjög háð því hve mikilli miðlun verður við komið í Bessastaðaárvirkjun. Helstu niðurstöður eru þessar:

1) Sé Bessastaðaárvirkjun tengd núverandi Austurlandskerfi: Með 30 millj. rúmmetra miðlun í Bessastaðaá vex orkuvinnslugeta kerfisins um 135 gwst. á ári og aflþörf Bessastaðaárvirkjunar er þá 37 mw. Með 70 millj. rúmmetra miðlum vex orkuvinnslugetan um 195 gwst. á ári og þá er aflþörfin 55 mw. Með 100 millj. rúmmetra miðlun vex orkuvinnslugetan um 215 gwst. á ári, þá er aflþörf virkjunarinnar 65 mw.

2) Sé Bessastaðaárvirkjun tengd landskerfi sem að framan greinir: Þá vex orkuvinnslugeta kerfisins með 30 millj. rúmmetra miðlun um 130 gwst. á ári og aflþörf Bessastaðaárvirkjunar er þá 22 mw. Með 70 millj. rúmmetra miðlun vex orkuvinnslugetan um 235 gwst. á ári og aflþörf virkjunarinnar er þá 39 mw. Með 100 millj. rúmmetra miðlun vex orkuvinnslugetan í 310 gwst. á ári og aflþörf er þá 52 mw.

Aukin miðlun umfram 90–100 millj. rúmmetra skilar ekki tilsvarandi aukningu í orkuvinnslugetu.

Niðurstaða þessara athugana er því sú að með virkjun Bessastaðaár aukist verulega nýting þeirra rennslisvirkjana sem fyrir eru á Austurlandi, þ.e. Grímsár og Lagarfoss, og að æskilegt sé að uppsett afl í virkjuninni verði nokkru meira en upphaflega var ráð fyrir gert.

Jafnframt bendir athugunin til þess að virkjunin falli vel að samrekstri við aðrar virkjanir í landinu þegar komist hefur á örugg tenging hennar við virkjanir á Norður- og Suðurlandi.

Þá er um það spurt hvenær hægt verði að taka ákvörðun um virkjunina og hvaða stærð muni verða hagstæðust.

Þær athuganir á afli og orkuvinnslugetu, sem greint var frá, eru miðaðar við breytilega stærð miðlunar. Kostnaðarathuganir sem nú er verið að gera, benda til þess að hagkvæm stærð virkjunar muni vera á bilinu 30–60mw. með samsvarandi orkuvinnslugetu og miðlunarþörf. Virkjunina má byggja í tveimur eða fleiri áföngum og aðlaga þannig framkvæmdarkostnað á hagkvæman hátt að aukinni afl- og orkueftirspurn.

Unnið er nú að áætlun um virkjunina og er ráðgert að sú áætlun verði tilbúin í þessum eða næsta mánuði. Á grundvelli hennar verður væntanlega hægt að meta hvenær í virkjunina skuli ráðist og hvaða stærð endanlega verður valin.

2. liður fsp. hljóðar svo:

„Hvað líður framkvæmd þingsályktunar um raunsókn á byggingu Fljótsdalsvirkjunar?"

þál., sem vitnað er til. var samþykkt á Alþ. 15. maí s.l. og er svo hljóðandi:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að hlutast til um að Orkustofnun ljúki eins fljótt og við verður komið rannsókn á byggingu Fljótsdalsvirkjunar.“

Fljótsdalsvirkjun mundi nýta um 600 m fall af Fljótsdalsheiði niður í Fljótsdal, þ.e. rennsli Jökulsár á Fljótsdal og að auki rennsli ýmissa fleiri vatnsfalla sem renna til Fljótsdals að sunnanverðu. Hugsanlegt er talið að auka megi rennsli til virkjunarinnar enn frekar en þetta með vatni sem nú rennur til austurs og suðurs af Hraunum, hálendisrananum austur úr Vatnajökull.

Aðalmiðlun virkjunarinnar mundi verða við Eyjabakka. Inn í hana yrði veitt framangreindum vatnsföllum.

Stærð Fljótsdalsvirkjunar mundi væntanlega verða um 350 mw. og orkuvinnslugeta um 2100 gwst. á ári.

Fljótsdalsvirkjun mundi nýta sama fall og Bessastaðaárvirkjun og má lita á Bessastaðaárvirkjun sem fyrsta áfanga hennar.

Varðandi Fljótsdalsvirkjun hefur verið unnið að ýmsum forrannsóknum á væntanlegu virkjunarsvæði, svo sem kortagerð, vatnamælingum og jarðfræðirannsóknum. Á s.l. sumri var unnið að jarðfræðirannsóknum og borunum, vegna Bessastaðaárvirkjunar og koma þær rannsóknir að miklum notum við rannsókn á Fljótsdalsvirkjun.

Mikið verk er enn eftir við jarðboranir og aðra neðanjarðarkönnun. Þetta er umfangsmesti og kostnaðarsamasti hluti þeirra rannsókna sem eftir eru, enda þótt boranir vegna Bessastaðaárvirkjunar séu góð byrjun. Fljótsdalsvirkjun er það umfangsmikið og stórt mannvirki að verulegar jarðboranir eru óhjákvæmilegar, svo sem boranir við Bessastaðaá á s.l. sumri sýndu greinilega.

Reikna má með því að þessar jarðboranir taki þrjú sumur ef hægt væri að halda þeim áfram af fullum krafti. Samtímis mætti vinna að nákvæmniskortum af einstökum mannvirkjasvæðum, þegar þau hafa verið ákveðin, eftir því sem rannsókn miðar áfram. Slík nákvæmniskort liggja þegar fyrir af mikilvægasta hluta svæðisins, þ.e. af umhverfi Gilsárvatna og hluta af skurðleið þaðan upp að Eyjabökkum.

Enn hafa einungis verið gerðar lauslegar verkfræðiáætlanir um Fljótsdalsvirkjun, enda hafa tiltæk gögn ekki leyft annað. Þessar áætlanir benda til þess að Fljótsdalsvirkjun geti verið það álitleg að full ástæða sé til að rannsaka hana ítarlega, svo sem fyrirhugað er, eftir því sem fjármagn og aðrar aðstæður leyfa.