09.03.1976
Sameinað þing: 60. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2448 í B-deild Alþingistíðinda. (2038)

176. mál, atvinnuleysistryggingar

Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Ég vil nú þakka ráðh. fyrir svör hans. En það, sem ég lagði áherslu á, er í bráðabirgðaákvæði laga nr. 57 frá 27. apríl 1375, að fyrir 1. jan. 1976 skal ríkisstj. láta kanna á hvern máta megi veita öllum konum í landinu sambærilegt fæðingarorlof og tryggja tekjustofn í þessu skyni. Það, sem ég fann að, var fyrst og fremst þetta, að könnunin var ekki gerð. Þegar könnunin lá fyrir var það auðvitað Alþingis að meta hvort væri hægt að taka eitthvað af þessu eða taka þetta í skrefum, eins og ég minntist á áðan, ekki síst þegar það liggur fyrir og ég gat ekki betur heyrt en að hæstv. ráðh. væri mér alveg sammála um að þær konur, sem þyrftu helst á þessu orlofi að halda,fá það ekki nú. Þegar hér á hæstv. Alþ. er samþ. að gera slíkt, þá á hæstv. ríkisstj. eða sá ráðh., sem málið heyrir undir, að láta slíka könnun eins og í þessu tilfelli fara fram. Það var aðeins þetta sem ég vildi ræða. Og ég endurtek áskorun mína til ráðh. að láta þessa könnun fara fram, þannig að hv. alþm. geti metið á hvern hátt er hægt að verða við því að konur fái fæðingarorlof, fyrst er búið að taka stóra hópa af þeim og þær njóta þess. En það verður auðvitað ekki gert ef menn vita ekki hve vandinn er stór, og það verður ekki gert öðruvísi en með samkomulagi ýmissa um hvernig þetta sé framkvæmt.