09.03.1976
Sameinað þing: 60. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2448 í B-deild Alþingistíðinda. (2039)

176. mál, atvinnuleysistryggingar

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. — Orlofsmál heyra ekki undir heilbrrh. en hins vegar gerir Atvinnuleysistryggingasjóður það. Þess vegna var það verksvið heilbr.- og trmrn. að semja og gefa út reglugerð um framkvæmd þeirra laga. En þó að þessu ákvæði hafi verið hnýtt þar til viðbótar um könnun á greiðslu fæðingarorlofs fyrir allar konur, þá er ekki þar með sagt, að Alþ. hafi tekið þá stefnu að greiða fyrir allar fæðingar úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Hitt er svo annað mál, að skyldan í þessu efni hvíldi auðvitað á ríkisstj. í heild. Og það var rætt á ríkisstjórnarfundi í haust við gerð fjárl., bæði þetta atriði og önnur, og þá varð þessi niðurstaða. Hins vegar hefði verið hægt að breyta því við meðferð fjárl., áætla til almannatrygginga eða á einhvern annan hátt til greiðslu á fæðingarorlofi þeirra sem ekki fá fæðingarorlof annars staðar greitt. En engin slík till. kom, hvorki frá ríkisstj. né einstökum þm., ekki að því er ég man best.

Ég held að við þurfum ekki að orðlengja frekar um þetta mál. Ég hef sagt mína skoðun og jafnframt minn vilja í því að þetta verði tekið í heildarendurskoðun með almannatryggingarlögunum.