09.03.1976
Sameinað þing: 60. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2450 í B-deild Alþingistíðinda. (2041)

159. mál, sjálfvirkt símkerfi um sveitir landsins

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af fsp. hv. 2. þm. Vesturl. á þskj. 340 vil ég taka eftirfarandi fram:

Það hefur ekki verið gerð tímaáætlun um sjálfvirka símakerfið um sveitir landsins og ekki hefur heldur verið gerð áætlun um ýmsa aðra staði en sveitirnar, að það sé búið að ákveða hvenær framkvæmdir skuli vera þar. Ástæður fyrir þessu eru tvær: í fyrsta lagi að fjárhagur símans hefur ekki leyft að fara með meiri hraða en orðið er, og svo hitt, að áætlanagerðir, sem gerðar hafa verið síðustu árin, hafa allar brenglast vegna hinnar miklu verðbólgu. Þess vegna hefur komið að litlu gagni þó að hafi verið búið að gera áætlanir, vegna þess að þær hafa ekki haldið gildi sínu þegar til framkvæmdanna kom. En út af fsp. hv. þm. vil ég vitna til ræðu sem ég hélt í sambandi við jöfnun símgjalda og er á dálki 1813 í Alþt. Þar segir m.a. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég þarf að vísu ekki miklu að bæta við það sem ég sagði áðan þar sem þeir hv. alþm., sem hér hafa talað, hafa í raun og veru staðfest það sem ég hef sagt, að það sé margþætt verkefni sem við þurfum að vinna í þessu. Við þurfum að tryggja betur það sjálfvirka kerfi, sem komið er, til þess að ná á milli staða. Við þurfum að dreifa því meira en orðið er. Mikið af gömlum línum er orðið þannig að það er hinum mesta vanda bundið að nota þær og óöryggi afar mikið. Hitt vil ég endurtaka og vekja athygli á, að það er ekki fyrirstaða við að breyta þessu sem gerir það að verkum að seint gengur, heldur fjármagnið sem þarf til þess.

Eins og ég tók fram áðan hefur raunverulega ekki orðið nema ein breyting á gjaldskrá síðan ég kom í þetta starf, því að sú litla breyting, sem fékkst í sumar, var langt fyrir neðan það sem beinar launahækkanir voru við stofnunina.“

Þessu til viðbótar vil ég geta þess að þessi stofn»n hefur byggt sítt kerfi upp sjálf og gerir enn. Hún hefur hins vegar fengið miklu minni hækkanir á sínum þjónustugjöldum en gerst hefur bæði um aðrar stofnanir og kaupgjaldstaxtar hafa hækkað á svipuðum tíma. Þetta held ég að hafi verið upplýst hér í fyrravetur miðað við 1960 og síðan, og ég get að sjálfsögðu látið hv. þm. það í té.

Ég vil svo endurtaka það, að ég tel brýna nauðsyn bera til að halda áfram á þessari braut, þ.e. bæði að jafna gjöldin og eins að dreifa sjálfvirka kerfinu út um landið, bæði til þéttbýlisstaða og einnig til sveitanna. Þess vegna er það mín skoðun að það megi ekki draga svo úr töxtunum að það dragi úr dreifingu kerfisins. Og ég vil vekja athygli á því að t.d. í Noregi, þar sem dreifing símans er orðin verulega mikil, eru símataxtarnir líka háir, enda er þar jafnað á milli og hefur símakerfinu verið dreift út um landið.

Ég vil endurtaka þetta, þó að ég verði að hryggja hv. þm. með því að segja honum eins og ástatt er, og það er auðvitað ekki nema síálfsagt því að sannleikurinn er jafnan sagna bestur og hann er svona. En ég vil jafnframt taka það fram, að það er ekki af viljaleysi sem þessi dreifing gengur svo hægt, heldur er þar um fjárhagsmöguleikana að ræða sem munu ráða þar mestu um. Hins vegar er unnið að því hjá Landssímanum að athuga með hvaða hætti er ódýrast að dreifa þessu kerfi út um landsbyggðina og því verður haldið áfram.