09.03.1976
Sameinað þing: 60. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2451 í B-deild Alþingistíðinda. (2042)

159. mál, sjálfvirkt símkerfi um sveitir landsins

Fyrirspyrjandi (Ingiberg J. Hannesson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. fyrir greinagóð svör við fsp. minni. Svo sem vænta mátti er hér við ýmsan vanda að etja og ætti okkur, sem úti á landi búum, að vera það vel ljóst. Það dylst ekki heldur að fjármagn þarf til þess að hrinda þessu í framkvæmd, um það er enginn í vafa, og þess er ekki að dyljast heldur að oft hefur verið rýmra um fé en nú er, þar sem þjóðin á við ýmsan vanda að stríða í þeim efnum. En þó að svo sé, þá verðum við að halda áfram að skapa sem jöfnust lífsskilyrði til búsetu í landinu. Þar verður þéttbýlið, sem um áraraðir hefur notið þeirra gæða sem hér hafa verið til umr., að koma til móts við dreifbýlið, því að öðruvísi getur ekki orðið um að ræða uppbyggingu í landinu en dreifa byrðunum á alla. Verður þá þéttbýlið að gjalda nokkurn skatt fyrir þann aðstöðumun sem það hefur haft fram yfir sveitirnar, því að nógur er munurinn samt. Ég vil því vona að að þessum málum verði unnið með hagsmuni dreifbýlisins fyrir augum og þannig verði skapað sem eðlilegast jafnvægi í byggð landsins. Hér er því ekki um það að ræða beinlínis hvort fjármagn er fyrir hendi til þessara hluta í dag, heldur hvort stjórnvöld hugsa sér að gera áætlun um dreifingu sjálfvirka símakerfisins í sveitunum og afla þá til þess tekna í samræmi við slíka áætlun. Það hlýtur að vera krafa þeirra, sem í dreifbýlinu búa, að áætlun sé gerð um þessi mál þannig að það liggi fyrir hvenær vænta megi vissra áfanga í þessum efnum í hinum ýmsu byggðum landsins.