09.03.1976
Sameinað þing: 60. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2459 í B-deild Alþingistíðinda. (2052)

311. mál, bæklunarlækningadeild Landspítalans

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður tók af mér ómakið í sambandi við þá skoðun hv. fyrirspyrjanda að þessar lækningaaðgerðir ættu að fara fram á einum stað. Ég held að það séu allir á því, sem best þekkja þessi mál, að við eigum auðvitað að nýta sem flest sjúkrahús til sem flestra aðgerða. Hins vegar verða auðvitað vandameiri aðgerðir framkvæmdar af sérfræðingum, og þá auðvitað er þessi bæklunarlækningadeild fyrst og fremst. En í sambandi við þrengslin, sem þarna eru, verða menn að líta í kringum sig, líta á það hvað verið er að byggja upp annars staðar, hvað hefur verið gert á annan hátt.

Á s.l. ári var tekin í notkun í Hátúni, þar sem ríkið leigir þrjár hæðir, legudeild fyrir aldraða. Það hefur aðeins ein hæð verið tekin í notkun þó að þær séu allar þrjár til. Það hefur vantað starfsfólk, sérstaklega sérhæft starfsfólk, þ.e. hjúkrunarfræðinga, sem hefur vantað þar og gert það að verkum að þessar deildir eru ekki allar komnar í notkun. Þannig geta alltaf myndast einhverjir erfiðleikar á því að halda áfram eðlilegri uppbyggingu. Þegar þessar hæðir allar eru komnar í notkun er ætlunin að létta á öllum sjúkrahúsunum hér í Reykjavík hlutfallslega jafnt, og það á auðvitað að skapa möguleika fyrir því, þegar hægt er að taka langlegusjúklinga af þessum dýru „akút“-sjúkrahúsum á heimili fyrir langlegusjúklinga, að deildir, sem eru jafnilla settar og bæklunarlækningadeildin, fái fleiri sjúkrarúm.

Nú er langt komið að taka í notkun fæðingardeildina og kvensjúkdómadeildina. Það léttir á ýmsum öðrum deildum vegna þeirra miklu þrengsla sem þar voru. Þarna er ekki lítil aukning sem verður á sjúkrarúmum.

Svo er í byggingu og verður orðin fokheld um mitt þetta ár geðdeildin, sem er á landspítalalóðinni. Unnið er að byggingu sjúkrahúss á Selfossi af fullum krafti, stækkun sjúkrahúss í Keflavík, stórfelld stækkun við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, ný sjúkrahúsbygging á Ísafirði, stækkun í Neskaupstað og svo auðvitað bygging margra heilsugæslustöðva sem Alþ. hefur þegar veitt nokkurt fjármagn til, en allt er þetta háð fjármagni.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég skil mjög vel að slík fsp. sem þessi komi hér fram. Það eru ýmsir erfiðleikar við innanhúsaðbúnað sem eru í veginum, en ég tel ekki rétt að fara neitt að tíunda hér og engum til góðs. Ég hef fullan hug á því að reyna að ná þarna betri samvinnu og samstarfi til þess að fjölga þarna sjúkrarúmum bæði á þessari deild og nokkrum ölrum. En það tekur tíma. Hins vegar þykir mér vænt um það og bið menn að muna vel eftir því við afgreiðslu fjárl. næst að standa þá fast með mér í auknum fjárveitingum til sjúkrahúsabygginga og heilsugæslustöðva.