09.03.1976
Sameinað þing: 61. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2461 í B-deild Alþingistíðinda. (2062)

22. mál, viðgerðar- og viðhaldsaðstaða flugvéla á Keflavíkurflugvelli

Frsm. (Jón Skaftason):

Virðulegur forseti. Hjá allshn. Sþ. hefur legið nokkrar undanfarnar vikur till. til þál. um viðgerðar- og viðhaldsaðstöðu flugvéla á Keflavíkurflugvelli, en hún er 22. mál þessa þings. Till. hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að láta athuga í samráði við Flugleiðir hf. og önnur flugfélög, er hagsmuna hafa að gæta, á hvern hátt hagkvæmast sé að koma upp aðstöðu til viðgerða og viðhalds flugvélum á Keflavíkurflugvelli.“

N. sendi þessa þáltill. til umsagnar til tveggja aðila, þ.e.a.s. til flugmálastjórnar og til Flugvirkjafélags Íslands, og fyrir nokkru hafa henni borist umsagnir þessara aðila beggja sem eru jákvæðar. Með leyfi hæstv. forseta, langar mig til að lesa örlítinn kafla upp úr umsögn þessara umsagnaraðila og byrja þá á umsögn flugmálastjórnar, en þar segir svo m.a.:

„Ég,“ þ.e.a.s. flugmálastjóri „ég er till. þessari eindregið fylgjandi og tel að brýnt sé að koma á fót fullkominni viðgerðar- og viðhaldsþjónustu fyrir stærri gerðir millilandaflugvéla á Keflavíkurflugvelli. Töluverður fjöldi vel menntaðra flugvirkja er fyrir hendi hér á landi og hafa á undanförnum árum sýnt að þeim er vel treystandi fyrir viðgerðum og viðhaldi loftfara af ýmsum gerðum og stærðum. Slík viðhaldsaðstaða hér á landi mundi geta sparað töluverð útlát gjaldeyris og jafnframt skapa aukna vinnu fyrir það tæknilið sem að þessum málum mundi starfa.“

Í umsögn frá Flugvirkjafélagi Íslands segir m.a. svo:

„Að lokum er rétt að geta þess, að hér er ekki eingöngu um atvinnuöryggi og gjaldeyrissparnað að ræða. Einn veigamikill þáttur þessa máls er sá að tækniþekking sé ekki látin hverfa úr landinu vegna þess að gamalt og af sér gengið flugskýli hafi brunnið, heldur sé reynt að skapa þau skilyrði að hún megi vaxa hér og dafna. Mikilvægt er að málið verði tekið nú þegar föstum tökum.“

Þegar ég mælti fyrir þessari þáltill. fyrir nokkrum mánuðum vék ég nokkrum orðum að upplýsingum sem var að finna í umsögn með álitsgerð sem félagið Hagvangur hf. hafði gert að beiðni Flugvirkjafélags Íslands um þessi mál. Þar kom m.a. fram það álit að við það að færa þessa viðhalds- og viðgerðarþjónustu að sem mestu leyti inn í landið væri hægt að spara mjög verulegan gjaldeyri og á því þurfum við sannarlega að halda nú, auk þess væri um að ræða möguleika til þess að mæta óskum sem uppi eru frá íslenskum flugvirkjum sem nú starfa erlendis, en vilja gjarnan koma heim til að vinna í fagi sínu hér.

Ég ætla ekki að eyða tíma hv. þings í dag með því að fara nánar inn á þetta. Það er getið um þessi atriði, m.a. um gjaldeyriseyðslu í sambandi við viðgerðar- og viðhaldsaðstöðu flugfélaganna stóru, tveggja, þ.e.a.s. Flugfélags Íslands og Loftleiða, á árunum 1971—1974, í þeirri grg. sem till. fylgir og vísa ég til hennar um það atriði og þess sem ég hef áður sagt með upplestri úr skýrslu Hagvangs hf.

Nefndarmenn, sem á fundi voru, þeir voru 6, hafa allir skrifað undir nál. sem er á þskj. 392 og mæla þeir samhljóða með því að till. verði samþ. Einn nm., hv. 1. þm. Suðurl., var ekki á fundinum.