09.03.1976
Sameinað þing: 61. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2462 í B-deild Alþingistíðinda. (2064)

72. mál, niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þessi till., sem flutt er af þm. Alþfl., fjallar um það að Alþ. fell ríkisstj. að láta kanna hvort ekki sé hægt að verja því fé, sem nú er greitt úr ríkissjóði til þess að lækka söluverð innlendra landbúnaðarafurða á innlendum markaði, þannig að það komi neytendum að betri notum og meiri notum en nú á sér stað, og þá sérstaklega að það stuðli að aukinni kjarajöfnun, og svo hins vegar að það komi í veg fyrir þá mismunun sem núgildandi niðurgreiðslukerfi veldur milli einstakra greina í landbúnaði, og eins hvort ekki megi beita þessu almannafé betur til þess að styðja við þá bændur sem við erfið kjör búa. Gerir till. ráð fyrir því að könnunin sé falin fulltrúum kjörnum af þessum samtökum: Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bandalagi háskólamanna, Stéttarsambandi bænda, Framleiðsluráði landbúnaðarins og Búnaðarfélagi Íslands, einum frá hverjum þessara samtaka. Síðan skipi ríkisstj. formann nefndarinnar.

Það er grundvallarhugsunin, sem hér liggur að baki, að í stað niðurgreiðslna á innlendu verði landbúnaðarafurða komi beinar peningagreiðslur til neytenda, að niðurgreiðslufénu verði ekki varið til þess að lækka útsöluverð þessara tilteknu afurða, heldur fái neytendur féð til frjálsrar ráðstöfunar til kaupa á þessum afurðum eða öðrum afurðum ef þeim sýnist svo. En með því móti má segja og það má rökstyðja að þá komi féð neytendum að betri og meiri notum en núgildandi kerfi gerir ráð fyrir.

Það er rétt að láta þess getið að þessi hugmynd var ein af þeim hugmyndum sem settar voru fram af hálfu launþegasamtakanna í des. s.l. gagnvart ríkisstj. og launþegasamtökin voru á einu máli um að mundi fela í sér kjarabót og kjarajöfnun fyrir launþega. En því miður taldi ríkisstj. sig, á því stigi a.m.k. ekki þess umkomna eða ekki reiðubúna til að framkvæma slíka breytingu. Út af fyrir sig skal henni ekki láð það að vilja ekki framkvæma jafngagngera breytingu og hér er um að ræða án undangenginnar rækilegrar athugunar. Einmitt þess vegna hefur þessi till. verið flutt, að sú athugun skuli fara fram.

Það getur varla farið fram hjá nokkrum hugsandi manni að þörf er á endurbótum á því niðurgreiðslukerfi og raunar útflutningsbótakerfi líka sem nú á sér stað. Íslenskar landbúnaðarafurðir hafa verið greiddar niður á innlendum markaði í áratugi. Upphaflega var farið inn á þessa braut til þess að koma í veg fyrir hækkun verðs landbúnaðarafurða og þar með hækkun á vísitölu framfærslukostnaðar sem laun hafa lengst af verið tengd með einum eða öðrum hætti. Í fyrstu voru þessar niðurgreiðslur ekki verulegar, en þær hafa smám saman farið mjög vaxandi. Á þessu ári er gert ráð fyrir að ríkissjóður verji 4600 millj., 4.6 milljörðum kr. til niðurgreiðslna á verði innlendra landbúnaðarafurða. Í fyrra voru niðurgreiðslurnar nokkru meiri eða rúmir 5 milljarðar kr.

Auðvitað hafa niðurgreiðslurnar fyrst og fremst verið hagstjórnartæki stjórnvalda í baráttu við vaxandi dýrtíð. Því hefur aldrei verið haldið fram af neinum ábyrgum aðila hér á Alþ. að þessar niðurgreiðslur væru styrkur til bænda. Hitt væri sanni nærri, að segja að þær væru styrkur til launþega, að vísu í formi sem nú er orðin mikil nauðsyn að endurbæta. Hitt er annað mál, að framleiðendur landbúnaðarafurða hafa notið niðurgreiðslunnar á óbeinan hátt í verulegum mæli því að vegna þeirra hefur söluverð innlendra landbúnaðarafurða á innlendum markaði orðið mun lægra en ella og þær þess vegna mun samkeppnishæfari en ella við t.d. erlendar matvörur og raunar hvers kyns aðrar vörur sem menn nota tekjur sínar til kaupa á.

Þegar niðurgreiðslur eru hvorki verulegur hluti af framleiðsluverði afurðanna né heldur af tekjum þeirra neytenda sem þær kaupa, þá má segja að þær hafi ekki nein veruleg efnahagsáhrif umfram það sem þeim er ætlað, þ.e.a.s. að valda verðlækkun frá því sem vera mundi ef ekki væri um niðurgreiðslu að ræða. En þegar niðurgreiðslur eru orðnar jafnmiklar og hér á sér stað, þá fara smám saman að koma fram alls konar aukaverkanir og þær hafa komið fram í vaxandi mæli á undanförnum áratugum.

Það er óhætt að fullyrða að niðurgreiðslur á íslenskum landbúnaðarvörum séu nú hér á landi orðnar hlutfallslega meiri en liðkast í nokkru nálægu landi og á það við hvort sem niðurgreiðslurnar eru bornar saman við framleiðslukostnað þeirra innanlands eða tekjur neytendanna. Á síðasta framleiðsluári, sem skýrslur eru til um, þ.e. árin 1974–1975, nam heildsöluverð íslenskra landbúnaðarafurða 16 500 millj. kr., 16.5 milljörðum kr. Niðurgreiðslur á þessum vörum námu 450 millj., 4.5 milljörðum eða um 27% heildsöluverðsins. Finnast ekki dæmi í nálægum löndum um jafnmikla niðurgreiðslu á heildsöluverði innlendra landbúnaðarafurða. Á framleiðsluárin 1975–1976 má gera ráð fyrir að heildsöluverð afurðanna verði um 22 milljarðar. Miðað við þær reglur, sem í gildi voru þegar þessi áætlun var gerð, nema niðurgreiðslurnar 5200 millj. kr., 5.2 milljörðum eða um 24% heildsöluverðsins, sem er eilítið lægra en árið áður, en þó mjög há tala. Ráðstöfunartekjur heimilanna má á s.l. ári áætla um 105–110 milljarða kr, og nema því niðurgreiðslurnar um 5% af heildarupphæð allra tekna heimilanna. Ég hef hvergi séð jafnháa hlutfallstölu niðurgreiðslna á innlendum landbúnaðarafurðum af ráðstöfunartekjum heimilanna og hér er um að ræða, hvorki meira né minna en 5%.

Áhrif niðurgreiðslnanna á einstakar vörur sjást auðvitað best ef athugað er hvað það mundi kosta ef varan væri ekki niðurgreidd. Niðurgreiðsla á súpukjöti nemur nú 28% af verðinu óniðurgreiddu. Niðurgreiðsla á mjólk nemur 53%, meira en helmingi af verðinu óniðurgreiddu. Niðurgreiðsla á 45% osti er hlutfallslega mun minni eða aðeins um 12%. Hins vegar er niðurgreiðslan á smjöri miklu meiri eða hvorki meira né minna en 44% eða næstum helmingur hins raunverulega verðs. Á hinn bóginn er hvorki svínakjöt né alifuglakjöt greitt niður. Þessar landbúnaðarafurðir greiða neytendur fullu verði. Hér er auðvitað um að ræða mikið misrétti milli þeirra bænda sem framleiða svínakjöt og alifuglakjöt annars vegar og aðrar landbúnaðarafurðir hins vegar.

Þegar niðurgreiðslur eru orðnar svo miklar sem hér er um að ræða hljóta ýmsar efnahagsspurningar að vakna. Að því er neytendur snertir hlýtur meginspurningin að teljast sú, hvort svo mikil niðurgreiðsla, 5% af ráðstöfunartekjum heimilanna, torveldi ekki neytendunum að hagnýta sér tekjur sínar á þann hátt að þær hafi sem mest notagildi fyrir tekjuhafann, neytandann. Til þess að njóta þess hagræðis, sem niðurgreiðslunum er ætlað að veita honum, verður hann að kaupa hinar niðurgreiddu vörur, annars nýtur hann ekki hagræðis. Hann nýtur hagræðisins ef hann t.d. kaupir súpukjöt, en nýtur einskis hagræðis ef hann kaupir kjúkling. Liggur ekki í augum uppi að hér er um kerfi að ræða sem þarfnast mikilla endurbóta? Hann nýtur mikils hagræðis ef hann kaupir súpukjöt, en hann gæti ekki notið þessa sama hagræðis ef hann kysi ekki að kaupa kjöt, væri t.d. ekki kjötæta, heldur væri grænmetisæta og vildi heldur nota tekjur sínar til þess að kaupa hreinlætisvörur eða húsgögn. Þá nýtur hann einskis hagræðis.

Hér er um einföld, en augljós dæmi að ræða, sumpart meint í alvöru og sumpart í gamni, til þess að sýna fram á að kerfið þarfnast endurbóta. M.ö.o.: hið opinbera, sem annast niðurgreiðslurnar, setur neytandanum ákveðið skilyrði fyrir því hvaða vörur hann skuli kaupa til þess að njóta hagræðisins. Hann verður að kaupa vissar vörur ef hann á að njóta þeirra tæpra 5 milljarða sem ríkið ver og ætlar honum til hagræðis.

Þetta lýtur að hagsmunum neytendanna, en að því er sjálfa framleiðendurnar snertir þá vakna líka spurningar í þessu sambandi. Niðurgreiðslur eru mjög misjafnar á einstakar landbúnaðarafurðir og engar á sumar landbúnaðarafurðir. Þetta veldur misrétti milli framleiðendanna. Ef um niðurgreiðslur er að ræða á annað borð og þannig er málum yfirleitt hagað annars staðar, þá verður að hafa þær hlutfallslega jafnmiklar á einstakar landbúnaðarafurðir og þá allar afurðir sem geta fullnægt svipuðum þörfum, einmitt í því skyni að mismuna ekki einstökum framleiðendum.

Enn eitt sjónarmið verður að hafa í huga í þessu sambandi. Á undanförnum árum hefur framleiðsla landbúnaðarafurða vaxið mun meir en eftirspurn innanlands. Enginn vafi er á því að eftirspurn innanlands hefur þó vaxið meira en ella mundi vera einmitt vegna niðurgreiðslnanna, en vöxtur landbúnaðarframleiðslunnar hefur valdið því að útflutningur landbúnaðarafurða hefur farið mjög vaxandi á undanförnum árum. Sú var tíðin, að bændur urðu sjálfir að bera tjón af því ef selja þurfti afurðir þeirra úr landi og minna fékkst fyrir þær á erlendum markaði en innanlands. Á þessu hefur orðið sú breyting að bændum er tryggt sama verð fyrir þær vörur, sem fluttar eru úr landi, þó þannig að útflutningsuppbæturnar í heild mega ekki nema meiru en 10 af 100 af heildarverðmæti framleiðslunnar. Um það hefur að vísu verið deilt hvort þetta ákvæði laganna eigi við hverja einstaka vörutegund eða landbúnaðarframleiðsluna í heild. Í mörg ár hefur það verið túlkað þannig að þetta eigi við landbúnaðarframleiðsluna í heild, og skal ég ekki gera það mál að deiluefni hér.

Útflutningsbæturnar eru líka orðnar vandamál. Útflutningur kjöts var á síðasta framleiðsluári, á árinu 1974–1975, 2800 smálestir eða hvorki meira né minna en 21% af heildarframleiðslunni sem nam 13 500 smálestum. M.ö.o.: fimmta hvert kíló kjöts, sem framleitt var í landinu, var flutt úr landi og það verð, sem fékkst fyrir útflutta kindakjötið, nam 49%, nam tæpum helmingi af innlendu kostnaðarverði. Það þarf vonandi ekki að nefna aðrar en þessar einföldu tölur til þess að opna augu allra hugsandi manna fyrir því að hér er vandamál á ferðinni sem verður að taka á með raunhæfum skilningi.

Að því er snertir útflutta osta, sem talsvert er flutt út af, eru tölurnar enn þá alvarlegri. Verðið, sem fékkst fyrir útflutta osta, nam á síðasta framleiðsluári aðeins 27%, aðeins rúmum fjórðungi af framleiðslukostnaðinum innanlands. Auðvitað er ástæðulaust að íslenskir bændur séu að framleiða kjöt og osta og aðrar mjólkurafurðir fyrir erlenda neytendur og selja við verði sem er frá fjórðungi og upp í helming af kostnaðarverði, og ennþá ástæðulausara fyrir íslenska skattgreiðendur að standa undir kostnaðinum við jafnfáránlega framkvæmd og hér er um að ræða.

Það ætti satt að segja varla að geta verið ágreiningur um það meðal skynsamra manna sem vilja gera sér grein fyrir íslenskum efnahagsvandamálum, jafnt efnahagsvandamálum landbúnaðarins og öðrum efnahagsvandamálum, að það er brýnt úrlausnarefni þegar niðurgreiðslur á innlendum landbúnaðarafurðum eru orðnar upp undir 5000 millj. kr, og greiða þarf í heild um 1000 millj. kr. með þeim landbúnaðarafurðum sem fluttar eru á erlendan markað, þó að hér sé að vísu ólíku saman að jafna. Niðurgreiðslurnar eru ætlaðar neytendum til hagsbóta, þessar 5000 milljónir, en útflutningsbæturnar eru beinn tekjuauki til bænda, sem niðurgreiðslurnar eru að sjálfsögðu ekki, því að þeir hafa fullan rétt á því að selja sínar vörur á innlendum markaði við því verði sem opinberir aðilar ákveða. En hér er orðið um svo stórkostlegar upphæðir að ræða, 5000 milljóna niðurgreiðslur og 1000 milljóna útflutningsuppbætur, þótt ólíks eðlis séu auðvitað, að það hlýtur að vera orðið umhugsunarefni hvort ekki megi ráðstafa þessu fé þannig að það komi neytendum að betra gagni, það sem þeim er ætlað, 5000 milljónirnar, og hvort ekki megi losa skattgreiðendurna við byrðina af 1000 milljónum sem eru teknar úr sameiginlegum sjóði sem tekjuauki fyrir bændur.

Ég ræði ekki frekar um útflutningsuppbæturnar því að þar er um að ræða stórt og flókið efnahagsvandamál sem snertir þá framtíðarstefnu sem reka á í landbúnaðarmálum og það tel ég ekki vera umræðuefni hér. En spurningin er: Má ekki nota tæpar 5000 millj, kr., sem nú ganga til niðurgreiðslu á innlendum vörum og ætlaðar eru neytendum til hagsbóta, — má ekki nota það fé betur en nú er gert? Má ekki nota það þannig að það komi neytendum að betra haldi en nú á sér stað?

Í því sambandi hefur sú hugmynd komið fram sem ég gat um í upphafi máls míns og skal ljúka máli mínu með að rekja örlitið nánar, hvort ekki væri skynsamlegra hreinlega að greiða neytendum þessa upphæð, skipta upphæðinni milli neytenda og láta þá sjálfa um það hvort þeir kaupa súpukjöt, sem er niðurgreitt um helming, eða hvort þeir kaupa kjúkling, sem ekki er niðurgreiddur, eða hvort þeir kaupa sér fatnað, ef þeir telja sig ekki þurfa á þeim mat að halda sem vísitölufjölskyldunni er reiknaður, eða hvort þeir vilja kaupa sér búsgögn eða ráðstafa tekjum sínum með einhverjum öðrum hætti. Allir menn, sem ofboðlitla nasasjón hafa af hagfræði, vita að tekjur eru taldar nýtast þeim mun betur sem þeir eru frjálsari að því hvernig þeir skipta þeim á milli hinna ýmsu notkunarmöguleika. Það er einmitt það sem verið er að gera ráð fyrir hérna, að skylda neytendur ekki til að kaupa súpukjöt, mjólk og nokkrar aðrar afurðir til að geta orðið hluttakandi í þeim 5 miljörðum sem ríkið ætlar þeim til hagsbóta.

Til að sýna, hvaða tölur hér er um að ræða, er þess að geta að nú er talið að landsmenn eldri en 16 ára séu um 147 þús. og yngri menn um 71 þús. Það væri ekki eðlilegt að láta alla, fullorðið fólk, börn og unglinga, fá sömu greiðslu í bendur, en sé sem reikningsdæmi gert ráð fyrir því að þeir, sem eru eldri en 16 ára, fengju helmingi hærri greiðslu en þeir sem eru yngri en 16 ára, þá gæti greiðslan, miðað við núverandi aðstæður, orðið 28 þús. kr. til hvers íslendings eldri en 16 ára og 14 þús. kr. til hvers íslendings yngri en 16 ára, þannig að 5 manna fjölskylda, hjón með 3 börn yngri en 16 ára, mundi geta fengið um 100 þús. kr. til frjálsrar ráðstöfunar án þess að það kostaði ríkissjóð einn eyri umfram það sem hann borgar nú.

Nú beini ég þeirri spurningin til hugsandi þm. og annarra manna sem hugsa af alvöru um íslensk efnahagsmál og afkomu launþega: Hvort halda menn að sé launþegum hagstæðara að eiga kost á því að kaupa kjöt, mjólk og nokkrar aðrar landbúnaðarafurðir við því stórlega niðurgreidda verði, sem nú á sér stað, eða fyrir 5 manna fjölskyldu að fá í hendurnar 100 þús. kr. greiðslu í peningum einu sinni, tvisvar, þrisvar eða fjórum sinnum á ári og mega ráðstafa því sjálf eins og henni sýnist? Á því er ekki nokkur vafi að fjölskyldunni yrði að þessu hagsbót.

Ég lýk máli mínu með því að undirstrika enn að þetta er skoðun alþýðusamtakanna, þetta hefur reynst skoðun Alþýðusambandsins, að með þessu móti væru bæði kjör launþegans bætt og þó einkum og sér í lagi kjör launþeganna jöfnuð, því að nú nýtur ríki maðurinn jafnmikillar niðurgreiðslu á kjötinu, á mjólkinni og hinn tekjulægsti. En með þessu breytta kerfi lengi tekjulági maðurinn jafnmikla upphæð og hinn tekjuhái. En það er enginn vafi á því að núverandi kerfi ívilnar hinum tekjuháu vegna þess að gera má ráð fyrir að þeir noti meira af t.d. smjöri og dýru kjöti heldur hinir tekjulágu. Núverandi kerfi bætir þá hag hins tekjuháa meira heldur en hins tekjulága. Það er af þessum sökum sem það mundi ekki aðeins vera kjarabót að taka upp greiðslukerfið heldur líka vera kjarajöfnun.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að óska þess að að lokinni þessari umr. verði till. vísað til 2. umr. og ég vænti hv. fjvn. Er það ekki eðlilegast?