10.03.1976
Efri deild: 73. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2476 í B-deild Alþingistíðinda. (2067)

185. mál, lögsagnarumdæmi í Austur-Skaftafellssýslu

Flm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. flm. Helga F. Seljan leyft mér að flytja frv. til l. um sérstakt lögsagnarumdæmi í Austur-Skaftafellssýslu. Frv. þetta er flutt samkvæmt eindregnum tilmælum íbúa Austur-Skaftafellssýslu og má í því sambandi vitna til fjölda fundarsamþykkta sem gerðar hafa verið á undanförnum árum. Frv. er flutt í samráði við alla þm. Austurl. og með vitund dómsmrn. og félmrn. Svo hljóðandi grg. fylgir frv.:

„Íbúar Austur-Skaftafellssýslu hafa um langt skeið óskað eftir því að sérstakur sýslumaður sé starfandi í sýslunni. Með auknum fólksfjölda kom sífellt betur í ljós að sýslumaður Skaftafellssýslu í Vík hafði ekki möguleika til að veita viðhlítandi þjónustu vegna mikillar fjarlægðar og farartálma, þrátt fyrir góðan vilja.

Ýmsar leiðir voru athugaðar til úrbóta, og var niðurstaðan sú að stofnað var embætti lögreglustjóra í Hafnarhreppi með l. nr. 15 13. apríl 1373. Með þessu móti færðist mestur hluti verkefna sýslumanns í Skaftafellssýslu fyrir íbúa Hafnarhrepps yfir til lögreglustjóraembættisins á Höfn. Lögreglustjóraembættið hefur einnig á höndum ýmsa starfsemi sem varðar aðra hreppa í Skaftafellssýslu, þ.e. Bæjarhrepp, Nesjahrepp, Mýrahrepp, Borgarhafnarhrepp og Hofshrepp. Þar má nefna umboð almannatrygginga í sýslunni, umboð sýslusamlags, verulegan hluta innheimtu ríkissjóðs, dómgæslu í opinberum málum, löggæslu o.fl. Hins vegar eru veðmálabækur og bifreiðaskráningar í höndum sýslumanns Skaftafellssýslu í Vík.“

Við þetta má bæta að í höndum sýslumanns í Vík er einnig sýslusjóður og dómgæsla í einkamálum.

„Íbúar Austur-Skaftafellssýslu sækja alla sína verslun til Hafnar. Þar eru allar þjónustumiðstöðvar héraðsins, banki, kaupfélag, elli- og hjúkrunarheimili og heilsugæslustöð er að risa. Sameiginlegt menntasetur sveitahreppanna fimm er í nágrenni Hafnar. Austur-Skaftafellssýsla er því ein félagsleg heild. Flestir þræðir liggja til miðstöðvarinnar á Höfn og því er erfitt og illgerlegt vegna fjarlægðar að sækja þjónustu til Víkur sem er í 300 km fjarlægð frá Höfn.

Eftir að lögreglustjóraembættið var stofnað á Höfn hefur þróunin verið í þá átt að íbúar Austur-Skaftafellssýslu leita æ meir til embættisins, en hins vegar er verulegt óhagræði að þar skuli ekki unnt að veita alla þjónustu sem sýslumannsembætti veita.

Ekki er talið að umtalsverður kostnaðarauki verði að breytingu þessari og er því svo komið, að hér er fyrst og fremst um formbreytingu að ræða.“

Með frv. þessu er gert ráð fyrir því að Austur- Skaftafellssýsla verði sérstakt lögsagnarumdæmi og Vestur-Skaftafellssýsla annað lögsagnarumdæmi. Saga þessara tveggja sýslna að því er varðar stjórnsýslu og sveitarstjórnarmálefni hefur tekið ýmsum breytingum í gegnum aldirnar. Fyrr á öldum voru sýslurnar tvö lögsagnarumdæmi og höfðu hvor sinn sýslumann. Sýslumenn hafa setið á ýmsum stöðum, eins og t.d. í Hoffelli, Bjarnanesi Felli í Suðursveit, Kirkjubæjarklaustri og í Vík. Má m.a. geta þess að á tímabilinu 1730–1740 var síðar landfógeti Skúli Magnússon sýslumaður í Austur-Skaftafellssýslu í 3 ár og sat hann þá í Bjarnanesi.

Skaftafellssýslur voru gerðar að einu lögsagnarumdæmi samkvæmt lögum frá 1877, en þá var Skaftafellssýslu skipt í tvö sýslufélög að því er sveitarmálefni varðaði. Í lögum þessum segir:

„Skeiðaársandur (skilur) sýslufélög Skaftafellssýslu eins og sýslur að fornu. Hvort þessara sýslufélaga hefur sinn fjárhag og sveitarmálefni út af fyrir sig.“

Skipan þessi er óbreytt í dag. Austur-Skaftafellssýsla og Vestur-Skaftafellssýsla eru eitt lögsagnarumdæmi, en sýslufélögin hafa hvor sinn fjárhag og sveitarmálefni út af fyrir sig.

Eins og ég gat um áður var það ákveðið með lögum frá 13. apríl 1973 að stofna lögreglustjóraembætti á Höfn. Þessari ákvörðun var að sjálfsögðu fagnað og stórbætti alla þjónustu þar. Stærsti galli þessarar skipunar var hins vegar sá, að þjónusta við sveitarhreppana batnaði ekki að sama skapi. Sú skoðun var mjög rík þá að það bæri að stofna sýslumannsembætti í Austur-Skaftafellssýslu, en niðurstaðan varð samt sú að stofnað var sérstakt lögreglustjóraembætti sem var millileið. Reynslan af lögreglustjóraembættinu er vissulega góð, en reynslan hefur sýnt að rétt hefði verið að stofna sérstakt sýslumannsembætti í Austur-Skaftafellssýslu, og með þessu frv. er að því stefnt að svo verði.

Í þessu sambandi skal á það minnst að íbúar á Höfn og í Austur-Skaftafellssýslu hafa ekki óskað eftir kaupstaðarréttindum fyrir Höfn og stofnsetningu bæjarfógetaembættis sem yrði óhjákvæmilegt samhliða því. Sýslan er ein félagsleg heild og þessa heild ber að festa í sessi, en ekki kljúfa í sundur. Engin sýsla hefur verið jafnklofin frá náttúrunnar hendi með vatnsföllum og ófærum. Fólkið hefur ávallt staðið fast saman og stofnað samtök á grundvelli sýslumarkanna, t.d. kaupfélag, menningarfélag, bændasamtök, samstarf í skólamálum, samstarf í heilbrigðismálum o.s.frv. Sú breyting, sem hér er gert ráð fyrir, festir þessa heild, enn betur í sessi.

Það hefur verið á það minnst að réttasta lausn þessa máls sé sú að færa sýslumannsembættið frá Vik til Hafnar, Sýslumannsembætti hefur verið á mörgum stöðum í Austur- og Vestur-Skaftafellssýslu og því hefur sýslumannsembætti færst til í reynd. Þessi lausn gæti sjálfsagt komið til móts við íbúa Austur-Skaftafellssýslu, en nýr vandi væri þá skapaður í Vestur-Skaftafellssýslu. Slík lausn er því að mínum dómi óraunhæf. Fjarlægðir eru gífurlegar í þessum landshluta og taka verður tillit til þess. Það væri t.d. jafnlangt fyrir íbúa Víkur að sækja þjónustu til Hafnar og að sækja þjónustu til Akraness, eða nákvæmlega 288 km. Og ég hygg að mönnum þætti það óraunhæft ef íbúar í Vík færu að sækja sína þjónustu til Akraness.

Íbúar Austur-Skaftafellssýslu voru samkv. bráðabirgðatölum 1. des. s.l. 1876, þar af á Höfn 1196. Íbúar Vestur-Skaftafellssýslu voru þá samkv. sömu bráðabirgðatölum 1359. Vestur-Skaftafellssýsla verður hins vegar ekki minnsta sýslufélagið með eigin sýslumann. Íbúar Strandasýslu voru samkvæmt bráðabirgðatölum 1. des. s.l. 1178 og Dalasýslu 1161. Fólksfjöldi getur ekki heldur verið algildur mælikvarði í þessum efnum fremur en öðrum, náttúruaðstæður, vegalengd og samgöngur skipta einnig miklu máli.

Kostnaðarauki samfara þessari breytingu er óverulegur og jafnvel enginn. Líklegt er talið að nauðsynlegt sé að bæta við stúlku í hálft starf við embættið á Höfn og samsvarandi fækkun gæti orðið við embættið í Vík. Húsnæði og öll aðstaða er nægileg hjá lögreglustjóraembættinu á Höfn til að taka á móti þessari breytingu.

Ég vil að lokum geta þess að íbúar Austur- Skaftafellssýslu binda miklar vonir við að mál þetta nái fram að ganga, sérstaklega með tillíti til þess að hér er ekki um kostnaðarauka eða a. m. k. ekki neinn umtalsverðan kostnaðarauka að ræða. Í Austur-Skaftafellssýslu er ört vaxandi byggð. Það eru aðeins liðin 78 ár síðan fyrstu húsin voru byggð á Höfn, en þá voru reist þar 3 hús. 1946, eða fyrir um það bil 30 árum, varð Höfn síðan sjálfstætt sveitarfélag, en var áður hluti af Nesjahreppi. Þá var íbúafjöldinn 335. Íbúafjöldinn hefur því nær fjórfaldast á þessum tíma. Þessi þróun hefur verið stöðug, en þó hefur fjölgunin aldrei verið meiri en nú síðustu árin, og fullvist er að þessi þróun heldur áfram takist okkur að nýta auðæfin í hafinu á réttan máta, en ein auðugustu fiskimið landsins liggja undan þessum slóðum.

Landbúnaður hefur einnig stóraukist í sveitahreppunum. Ég skal geta þess að 1953 var slátrað um 11 þús. fjár í Austur-Skaftafellssýslu, en nú 1975 um 30 þús. fjár. Auk þess eru framleiddar um 1.3 milljónir lítra af mjólk, þannig að landbúnaðarframleiðslan hefur stórlega aukist. Auk þess hefur verið reist þar heykögglaverksmiðja.

Sú breyting, sem hér er lagt til að verði gerð, er því í fullu samræmi við þróun tímans og til mikilla hagsbóta fyrir ört vaxandi byggðarlag, sem byggir á traustri undirstöðu. Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að rekja þetta mál frekar, það er í sjálfu sér einfalt og liggur mjög hreint fyrir. Að svo mæltu leyfi ég mér að leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.