10.03.1976
Neðri deild: 75. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2497 í B-deild Alþingistíðinda. (2075)

192. mál, jafnrétti kvenna og karla

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess fyrst og fremst að láta með fáeinum orðum í ljós sérstaka ánægju yfir því, að þetta frv. skuli hafa verið flutt, og eindregnu fylgi mínu og míns flokks við meginstefnu frv. Til þess hefur að vísu ekki gefist aðstaða, enda ekki til þess ætlast við 1. umr., að tekin sé afstaða til einstakra atriða í frv. Það mun verða gert í n. og við 2. og 3. umr. En meginstefnu þess tel ég tvímælalaust ganga í rétta átt og lýsi þess vegna þegar við 1. umr. fylgi mínu og míns flokks við þá meginstefnu sem í frv. er mörkuð. Þetta þarf í sjálfu sér ekki að koma á óvart þegar hliðsjón er höfð af því að við þm. Alþfl. fluttum snemma á þessu þingi till. til þál. um setningu löggjafar um jafnrétti kynjanna þar sem gert var ráð fyrir að Alþ. fæli ríkisstj. að láta semja frv. um jafnrétti kynjanna. Ég get vel á það fallist að það sé til bóta, það nafn sem á frv. hefur verið valið, að tala um jafnstöðu kvenna og karla. En í tillgr. var sú stefna mörkuð í meginatriðum sem er hliðstæð þeirri sem fram kemur í þessu frv.

Mér er kunnugt um það þegar þessi till. var flutt að félmrn. hafði í samningu frv. sem ég hafði ástæðu til að halda að stefndi að sama marki og tillgr. gerði ráð fyrir. En mér var jafnframt kunnugt um að þá, þegar till. var flutt, hafði ríkisstj. ekki tekið afstöðu til þess að flytja frv., þó að mér væri um það kunnugt að hæstv. félmrh. væri því fylgjandi, að svo yrði gert, og mundi beita sér fyrir því. En vegna þess að kunnugt var að ákvörðun hafði ekki verið tekin í ríkisstj. um málið, þá ákváðum við þm. Alþfl. að flytja till. Nú hefur þetta frv. verið flutt sem stjfrv., og miðað við þær undirtektir, sem það hefur fengið af hálfu stjórnarandstöðuflokkanna, ættu því að vera miklar líkur á því að það að meginstefnu til nái fram að ganga og er það fagnaðarefni.