04.11.1975
Sameinað þing: 11. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í B-deild Alþingistíðinda. (208)

25. mál, húsnæðismál

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fyrirspurnir á þskj. 28 til hæstv. félmrh., svo hljóðandi:

„1. Hverjar eru horfur á afgreiðslu nýrra lána (fyrsta hluta) fram til áramóta? Við hvaða dagsetningu fokheldnivottorða verður lánveiting fyrir áramót miðuð?

2. Hvenær má vænta afgreiðslu lána til eldri íbúða, sem sótt var um fyrir 1. okt. s. l.?

3. Til hve margra leiguíbúða á vegum sveitarfélaga hefur leyfi verið veitt til þessa dags? Hve margar þeirra hafa fengið fulla fjármagnsfyrirgreiðslu?“

Mikil óvissa ríkir nú um möguleika Byggingarsjóðs ríkisins á að standa að lánveitingum á svipaðan hátt og undanfarin ár. Húsbyggjendur víðs vegar um land bíða þess nú í miklum kvíða hvernig um lánamál þeirra fer nú fyrir áramót. Viðkvæmastir eru þeir af eðlilegum ástæðum sem nú eru að gera fokheldar íbúðir sínar og því hef ég sérstaklega um þá spurt.

Sá háttur að miða lánveitingar í desember eða fyrir áramót við fokheldni íbúða fyrir 15. nóv. hefur sérstaklega komið sér vel fyrir íbúa landsbyggðarinnar á þeim svæðum þar sem byggingartími er skammur. Nú hefur að vísu verið gerð sú breyting á að lánum er þrískipt og aðeins er um að ræða 1/3 lána út á fokheldni í stað helmings áður. Ef við bætist svo að þessi þriðjungur kemur ekki til greiðslu fyrr en einhvern tíma ná næsta ári, eins og nú munu algeng svör uppi í Húsnæðismálastofnun, og fyrirgreiðsla bankanna er í algeru lágmarki og mjög þrýst á um skjótar greiðslur þar, þá er kvíði húsbyggjenda auðskilinn.

Annað stjórnarblaðið, Tíminn, hefur hér hjálpað vel til og ýtt duglega undir með feitletraðri forsíðufrétt um stórkostlega fjárvöntun Byggingarsjóðs, eða eins og þar segir: „760 millj. kr. vantar í Byggingarsjóð ríkisins.“

Ég taldi því af öllum þessum ástæðum rétt að fá sem skýrust svör og sem fyrst frá þeim aðila sem hér hefur alla þræði í höndum sér og ég þykist vita að hafi fullan hug á að reyna að leysa til hins ítrasta þessi mál á sem farsælastan hátt.

Mér þykir einsýnt að hæstv. ráðherra geti gefið betri og skýrari svör en húsbyggjendur fá nú almennt um þessi mál í viðkomandi stofnun. Því skal ekki að óreyndu trúað að ekki verði reynt að hafa fyrirgreiðslu sem næst því er verið hefur undanfarin ár, ekki síst með tillíti til þess að fyrsti hlutinn er nú skertur svo mjög og fokheldni íbúða hefur þar af leiðandi minni útgjöld í för með sér en áður hefur verið.

Í annan stað er einnig rétt að fá upplýst um þá sem eldri íbúðir hafa verið að kaupa í sumar. Ég taldi og tel enn rétt að auka lánsmöguleika þessara aðila og flutti um það sérstaka tillögu á síðasta þingi, sem því miður var felld, en ég taldi rétt að láta þetta fylgja með, einkum vegna fjölmargra fyrirspurna úr mínu kjördæmi þetta varðandi án þess að um nein viðhlítandi svör væri að ræða hjá viðkomandi stofnun.

Í þriðja lagi lýtur fyrirspurnin að því mjög umtalaða máli, leiguíbúðunum á vegum sveitarfélaga.

Rétt þykir að fá upplýst, hvernig þau mál nú standa, með tilliti til þeirra fyrirheita sem gefin voru.

Þó að hæstv. ráðh. muni e. t. v. ekki geta á þessu stigi gefið tæmandi upplýsingar um öll þessi atriði, þá vona ég — og mæli þar fyrir munn margra — að svör hans geti sem jákvæðust orðið og a. m. k. verði þeim kvíða frá þeim víkið sem tóku forsíðugrein Tímans trúanlega og hafa síðan beðið í þeim mun meiri kvíða og óró út af sínum málum.