11.03.1976
Sameinað þing: 62. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2509 í B-deild Alþingistíðinda. (2084)

135. mál, fiskileit og tilraunaveiðar

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Þegar mál þetta var hér siðást til umr. var ég ekki á fundi og fylgdist því ekki með þeim umr. sem þar fóru fram. En ég hef veitt því athygli að hv. flm. till., Tómas Árnason, vék að því í ræðu sinni fyrir till. að hann vildi gjarnan beina spurningum til mín varðandi fiskfriðunarmál og upplýsingar sem sjútvrn. hefðu borist um þau mál frá Hafrannsóknastofnuninni á árinu 1972. Í ræðu sinni komst hv. þm. þannig að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég sé að hv. 2. þm. Austurl. er ekki hér í salnum, en hann var sjútvrh. á þessum tíma og ég hefði áhuga á því að heyra hann skýra frá því hvaða afdrif þetta mál fékk á sínum tíma, hvort t.d. málið var tekið upp í ríkisstj. þá og hvort það var rætt, hvort þetta var tekið inn í viðræður við útlendinga á árunum 1973 og 1974 um heimildir þeim til handa til fiskveiða í íslenskri fiskveiðilögsögu.“

Það hafa orðið hér nokkrar umr. um þessar upplýsingar sem Hafrannsóknastofnunin gaf um ástand fiskstofna á árinu 1972. Þær hafa orðið hér áður og þá í þeim tón að helst hefur verið látið að því liggja eð ég sem sjútvrh. hafi í rauninni lagst á þessar upplýsingar og ekkert gert með þær. Þegar fullyrðingar um þetta efni komu hér fram áður gerði ég strax opinberlega aths. við þær og benti á að þær væru með öllu rangar. En ég sé á því, sem hv. þm. Tómas Árnason víkur að í sinni ræðu, að það hefur a.m.k. farið fram hjá honum hvaða upplýsingar ég hafði gefið áður um þetta mál. Mér þykir því full ástæða til þess að rekja hér málið nokkru nánar og þá til upplýsingar bæði fyrir hann og aðra.

Það, sem hér er um að ræða, er að á vegum Alþjóðahafrannsóknaráðsins fór fram allsherjarúttekt á stöðu þorskstofna í Norður-Atlantshafi á árinu 1971 aðallega. Ráðið hafði komið sér saman um að láta fara fram mjög ítarlega skoðun á stöðu allra þorskstofna á þessu hafsvæði, bæði á Norðaustur-Atlantshafi og Norðvestur-Atlantshafi, og þær fiskveiðinefndir, sem starfa á vegum Alþjóðahafrannsóknaráðsins á báðum þessum svæðum, stóðu að þessum athugunum. Tíu heimsþekktir fiskifræðingar báru höfuðábyrgð á þessum rannsóknum og sömdu síðan mjög ítarlega skýrslu um málið sem síðan var afgr. á fundi Alþjóðahafrannsóknaráðsins. Þessi skýrsla var auðvitað ekki aðeins send okkur íslendingum og ekki aðeins send íslenska sjútvrn., heldur öllum þeim sem áhuga hafa yfirleitt á þessum málum hér á þessum svæðum. Henni var ekki stungið undir stól hér eins og sumir hv. þm. virðast halda, heldur var þetta eitt af stærstu umræðuefnum í íslenskum hlöðum og íslenskum tímaritum, sem eitthvað fjalla um þessi mál, á þessum tíma og tekið upp af íslenskum stjórnvöldum, eins og ég skal rekja hér nokkru nánar. En sú niðurstaða, sem kom fram í þessari allsherjarúttekt fiskifræðinganna um stöðu þorskstofna í Norður-Atlantshafi, var í meginatriðum á þá lund að þeir bentu á að allir þorskstofnar í Norður-Atlantshafi væru fullnýttir og nota mætti orðið ofveiddir um þá alla nema íslenska þorskstofninn. Þar var notað orðið að hann væri að fullu nýttur.

Það var margt mjög athyglisvert sem kom fram í þessari skýrslu, einkum og sérstaklega það atriði, sem fiskifræðingarnir drógu fram í sambandi við sína athugun, sú stórkostlega breyting sem átt hefði sér stað í fiskveiðum fiskveiðiþjóða, sem veiðar stunda á þessu hafsvæði einmitt á áratugnum frá 1960–1970 einkum að því leyti til hvað stór hluti fiskiskipaflotans, sem veiðarnar stundar, væri orðinn með þeim hætti að hann gæti valið sér auðveldlega veiðisvæði eftir því sem hentaði hverju sinni og upplýsingar lægju fyrir um. Það væri orðið mjög auðvelt að hreyfa þessi stóru skip frá fiskimiðum til fiskimiða og þau hefðu aðstöðu til þess að vera á fiskimiðunum langan tíma í einu. Sem sagt, flotinn var ekki jafnstaðbundinn og hann hafði verið áður, og þá kom veiðin skiljanlega út með allt öðrum 'hætti á meðan mátti segja að tiltekinn fiskifloti frá aðeins nokkrum tilteknum þjóðum stundaði ákveðin fiskimið, en ekki önnur. En nú var sem sagt þessi mikilvæga breyting orðin á, að megnið af fiskiskipaflotanum, hinum afkastamikla, var orðinn hreyfanlegur á þennan hátt, að hann gat valið sér veiðisvæði hvar sem var og hvolfdi sér svo að segja yfir þar sem best veiddist hverju sinni eða útlitið var best. Þar með var auðvitað ofveiðihættan orðin miklu meiri en áður.

Svo bar við að þegar þessi skýrsla var fullunnin á vegum Alþjóðahafrannsóknaráðsins, þá leið þó nokkur tími frá því að skýrslan var tilbúin og undirrituð af þeim, sem höfðu unnið hana, þar til fundur var haldinn í Alþjóðahafrannsóknaráðinu til þess að ganga þar endanlega frá samþykkt ráðsins á skýrslunni. Einn íslenskur fiskifræðingur var í hópi þessara 10 heimsþekktu fiskifræðinga sem unnu þessa skýrslu. Af þessum ástæðum var það að Hafrannsóknastofnunin íslenska sendi sjútvrn. strax nokkrar upplýsingar um þær niðurstöður sem komu fram í þessu áliti, sendi þær til rn. merktar sem trúnaðarmál, þar sem ekki þótti viðeigandi að birta þetta formlega á meðan sú stofnun, sem átti að taka skýrsluna til endanlegrar afgreiðslu, hafði ekki haldið fund um málið. En um þetta leyti stóðum við Íslendingar einmitt í því að gera ýmsar ráðstafanir í okkar fiskveiðimálum og þá sérstaklega varðandi útfærsluna í 50 mílur. Við tókum þessa skýrslu strax og notfærðum okkur hana mjög til rökstuðnings fyrir okkar máli í viðræðum okkar til breta. Lögðum þar drögin á borðið sem við höfðum í okkar höndum og þeim hlaut að vera kunnugt um. Þó að þau væru ekki endanlega samþ., svo að þau voru notuð af okkar hálfu eins og hægt var. En það var ekki aðeins að þetta væri gert, heldur var skýrslunni, á meðan þetta lá fyrir sem trúnaðarmál, sem ekki var ýkjalengi, dreift til landhelgisnefndar sem starfaði með fulltrúum allra flokka, þannig að þeir fengu allir skýrsluna og efni hennar. Og að sjálfsögðu var málið rætt í ríkisstj., eins og það var rætt af hálfu þeirra samningamanna sem höfðu með landhelgisviðræðurnar að gera af hennar hálfu um þetta leyti.

En þetta er ekki nema aðeins lítill hluti af því sem gerðist í sambandi við þessa merkilegu skýrslu og umr. um hana og upplýsingar varðandi hana hér hjá okkur. Ég tel því að það sé rétt að rekja hér, jafnhliða því sem ég hef þegar sagt, hvað var að gerast í okkar fiskveiðimálum einmitt um þetta leyti. En það var að við höfðum tekið ákvörðun, eins og menn kannast við, um að stækka okkar fiskveiðilandhelgi úr 12 sjómílum í 50 mílur og átti að taka gildi 1. sept. á árinu 1972. Það hafði að lokum tekist fullkomin samstaða allra stjórnmálaflokka í landinu um það hvernig skyldi staðið að framkvæmd þeirrar útfærslu með allsherjarsamþykkt hér á Alþ., sem allir þm. 60 talsins tóku þátt í, en þar var grundvöllurinn lagður að því hvernig skyldi vinna að útfærslunni og við hverja skyldi sérstaklega semja um einhverjar fiskveiðiheimildir, m.a. vegna þess hvernig þessi mál voru í pottinn búin frá fyrri tímum.

Við vorum því um þetta leyti, þegar þessar upplýsingar komu hér fram og lágu fyrir, einmitt í óða önn að gera ráðstafanir af okkar hálfu á mörgum sviðum til þess að draga úr þeirri ofveiði sem við töldum þá vera á íslensku fiskstofnunum og þá ekki síst þorskstofninum, og bentum á það æ ofan í æ hvað mikil hætta væri einmitt á því að þrátt fyrir vissar upplýsingar, sem lágu fyrir frá Hafrannsóknastofnuninni um að staða íslenska þorskstofnsins væri ekki slæm. Það kemur hér fram í skýrslum, sem ég skal greina frá síðar, að álit þeirra var ekki á neinn hátt eins skýrt og alþjóðafiskifræðinganna í þessari skýrslu, sem m.a. kom fram í því að þegar við unnum að því að setja hér reglur um takmörkun á veiðiheimildum í okkar landhelgi gagnvart okkar eigin mönnum, þá beinlínis lagði Fiskifélagið til að við drægjum ekki úr okkar sókn vegna þeirra upplýsinga, sem þá lágu fyrir. En það voru till. þeirra á árinu 1972, þar sem Fiskifélagið benti sérstaklega á að það teldi að hér væri ekki um beina ofveiði enn þá að ræða hjá okkur, sbr. þessa skýrslu, heldur að stofninn væri fullnýttur og að telja mætti alveg víst að nú drægi bað mikið úr sókn útlendinganna í okkar fiskstofna að við þyrftum ekki sjálfir að draga verulega úr okkar sókn.

Við gáfum síðan út reglugerð um stækkun okkar fiskveiðilandhelgi úr 12 mílum í 50 mílur og tókum þá upp í fyrsta skipti í okkar fiskveiðisögu ákvæði um að loka fullkomlega vissum svæðum við landið til friðunarráðstöfunar, fyrir öllum veiðum. Þannig lokuðum við tilteknu svæði á aðalhrygningarstöðvum þorsksins skv. áliti Hafrannsóknarstofnunar og þekktra fiskimanna sem gerðu till. um afmörkun svæðisins. Slík lokun ákveðinna svæða af okkar hrygningarsvæðum hafði aldrei þekkst áður, enda höfðu fiskifræðingar okkar hvað eftir annað. Þegar málið hafði verið tekið upp á Alþ., beinlínis sagt að þeir legðu ekki kaup á slíkt.

Í reglugerð okkar í sambandi við útfærsluna í 50 mílur var einnig ákveðið að loka allstóru veiðisvæði fyrir Norðausturlandi þann tíma ársins sem reynslan hafði sýnt að þar var mest um smáfisk að ræða. Slík allsherjarlokun hafði heldur aldrei þekkst áður hjá okkur.

Síðan fylgdi hver reglugerðin á fætur annarri um. þetta leyti þar sem nýjum og nýjum svæðum fyrir Norður- og Norðvesturlandi var lokað um lengri eða skemmri tíma fyrir togveiðum, jafnhliða því sem reglur voru settar um stórkostlega skerta aðstöðu þeirra skipa til veiða við landið sem veiddu með botnvörpu. Reglugerðir voru einnig gefnar þá út um að banna algjörlega þorskveiðar í herpinót sem voru þá hafnar hér í allríkum mæli. Minni háttar undantekning var gerð á litlu svæði fyrir Norðausturlandi um takmarkaðan tíma, en um allt aðalveiðisvæðið gilti fullkomið veiðibann með þessu veiðarfæri. Einnig var sett reglugerð sem miðaði við að banna veiðar með þorskanetum sem höfðu minni möskva en þar var tiltekið. Þar var um verulega breytingu að ræða frá því sem áður var. Einnig var sett reglugerð sem miðaði að því að takmarka fjölda neta sem skip höfðu heimild til að hafa í sjó hverju sinni. Þessu var síðan fylgt eftir með því að ráða allmarga menn til sérstaks eftirlits viða um landið til þess að líta eftir því að þessar reglur væru haldnar. Það fór auðvitað ekkert á milli mála og þóttust vist allir vita að þessar reglur yrðu ekki allar haldnar og það yrði ekki hlaupið að því að sveigja menn frá þeim háttum sem þeir höfðu bundið sig við um langan tíma, bæði með netafjölda í sjó og annað þess háttar, að þar yrðu ekki einhver afföll á, og er þar vitanlega ekki um að sakast við neinn. En þessar ráðstafanir voru sem sagt allar gerðar um þetta leyti.

Auk þess var starfandi sérstök n. allra þingflokka til að endurskoða þær reglur, sem í gildi höfðu verið, og til að gera till. um nýjar reglur um hvernig ætti að standa að því að nýta hina nýju stækkuðu fiskveiðilandhelgi okkar. Þannig var skipuð 5 manna n. þm. 11. okt. 1971 — strax 11. okt. 1971 — og í þeirri n. voru Gils Guðmundsson, sem var skipaður form., Guðlaugur Gíslason, Ingvar Gíslason, Karvel Pálmason og Jón Árm. Héðinsson. Þessi n. starfaði síðari hluta ársins 1971 og síðan á árinu 1972 og allt fram á árið 1973. Sú breyt. varð síðar á skipan n. að Steingrímur Hermannsson tók þar við störfum Ingvars Gíslasonar og vann lengst af í þessari nefnd.

Sem sagt, á árinu 1972 og nokkuð fram á árið 1973 var unnið ítarlegt starf að því hvernig við ættum að standa að því að hemja sókn í okkar fiskistofna og hvernig við ættu að stjórna veiðunum, og á þessum tíma gerir Hafrannsóknastofnunin, fiskifræðingar okkar, till. til þessarar n.. Og það vildi svo til, að Hafrannsóknarstofnunin sendi tvívegis á árinu 1972 till. um fiskveiðarnar. Fyrri till., sem Hafrannsóknarstofnunin lagði fram, voru dags. 2. nóv. 1972. Fiskifélagið gerði að sjálfsögðu sínar ítarlegu till. líka og fjöldamörg samtök útvegsmanna, og það lágu fyrir þessari n. allítarlegt álit um þessi mál frá öllum landshlutum. Það kemur greinilegar fram í þeim gögnum, sem send voru þessari n., m.a. frá Hafrannsóknastofnuninni, að þar vitnar hún til þeirrar alþjóðlegu skýrslu sem hér hefur verið m.a. minnst á.

Það var því sannarlega fjallað um allar þær upplýsingar um þetta leyti sem þarna komu fram, bæði af hálfu opinberra aðila, allra þeirra n. sem settar höfðu verið með fulltrúum allra flokka, bæði í sambandi við lagasetningu á Alþ. og eins til samninga við útlendinga og í sambandi við landhelgismálið, — allt lá þetta fyrir þessum aðilum og ekki aðeins þetta, heldur fóru síðan fram, m.a. í tímariti Fiskifélagsins, tímaritinu Ægi, allmiklar umræður um þessi mál. Ég fer ekki að rekja þær að öðru leyti en því að vekja athygli á að þar urðu nokkur athyglisverð skrif á milli eins af okkar þekktustu fiskifræðingum, Jakobs Jakobssonar, og fiskimálastjóra, Más Elíssonar, vegna þess að Jakob Jakobsson kemur þá — þá er komið fram á árið 1973 — fyrstur manna fram með það að hann sé ekki algjörlega sáttur við þá reikningsaðferð sem fiskifræðingarnir 10, þessir heimsþekktu sem stóðu að verkinu á vegum Alþjóðahafrannsóknaráðsins, hefðu beitt varðandi íslenska þorskstofninn sérstaklega. En í þessari skýrslu, þar sem einn þekktur fiskifræðingur okkar hafði tekið þátt í, kom fram að íslenski þorskstofninn var talinn miklu öruggari og jafnari stofn en aðrir þorskstofnar í Norður-Atlantshafi, það hefði sýnt sig af langri reynslu að sveiflur í honum væru miklu minni en í öðrum þorskstofnum og af þeim ástæðum væri ekki þörf á að reikna með jafnafgerandi aðgerðum til þess að ná þeim stofni upp og þeir teldu að þyrfti við aðra þorskstofna. Jakob vakti þá athygli á því að hann væri ekki ásáttur um þetta, það hefði mátt segja um íslenska þorskstofninn ekki síður en hina að hann væri ofveiddur, en ekki aðeins fullnýttur, ef hefði verið notuð sams konar reikningsaðferð varðandi hann og hina stofnana. Og Jakob lagði áherslu á það í skrifum sínum í Ægi að það væri kominn tími til þess að við hættum að nota þetta orð, sem fiskímálastjóri notaði sí og æ, að íslenski atofninn væri ekki ofveiddur, heldur aðeins fullnýttur. — það væri kominn tími til þess að nota orðið ofveiddur um hann líka.

Um þetta urðu sem sagt í tímaritinu Ægi allmikil skrif á milli þessara tveggja þekktu manna, hvað væri hið rétta í þessum efnum. Ég bendi aðeins á þetta til rökstuðnings því að það var víðs fjarri því, sem hér er verið að reyna að gefa í skyn, að upplýsingar hafi verið gefnar af Hafrannsóknastofnuninni til sjútvn. á þessum tíma um hættuástand okkar fiskstofna sem rn hafi síðan lagst á. Allt slíkt er auðvitað hreinn tilbúningur og þvættingur, enda væru menn í rauninni að ákæra verulega Hafrannsóknastofnunina sjálfa, fiskifræðingana, því að ekki hefur þeim komið til hugar að halda þannig á málum að þeir ættu að hvísla einhverju að rn. um það hvað kom út úr alþjóðlegri skýrslu sem birt var varðandi þessi mál og þeir höfðu sjálfir tekið þátt í, enda lágu þeir ekkert á því þegar ráðið var búið að taka skýrsluna fyrir. Þá var aðeins eftir þessi stutti tími frá því að skýrslan lá í höndum fiskifræðinganna þar til hún var borin undir Alþjóðahafrannsóknaráðsfund til endanlegrar afgreiðslu sem þeir óskuðu eftir að farið væri með efni skýrslunnar sem trúnaðarmál.

Ég gæti auðvitað rakið hér í miklu lengra máli og óteljandi röksemdum svo að segja hvernig þessi mál bar að og hvernig að þeim var unnið á árinu 1972 og árinu 1973. Það sýnir aðeins að þeir, sem reyna að halda einhverju öðru fram eða á þá lund að hér hafi eitthvað verið falið fyrir þjóðinni af upplýsingum sem gefnar hafi verið um stöðu íslenskra fiskstofna um þetta leyti, þeir eru annaðhvort mjög illa að sér um þessi efni og hafa lítið fylgst með því sem var að gerast um þetta leyti eða þá að þeim þykir þægilegra að halda öðru fram en því sem er rétt.

Þessi mál lágu sannarlega fyrir Alþ. til afgreiðslu og Alþ. afgreiddi lög á þessu tímabili um það sem það taldi að rétt væri að gera til þess að hefta sókn í íslensku fiskstofnana. Það er auðvitað enginn vandi að koma á eftir og halda því fram að við hefðum þurft að gera betur en við gerðum. Reynslan hefur sýnt það að við hefðum vissulega þurft að færa landhelgina út í 50 mílur og hefja þá baráttu, sem þar var hafin, helst nokkrum árum áður en við gerðum bað. En um það tókst ekki samstaða. Það er líka hægt að segja að við hefðum ekki átt að semja við útlendinga um neinar heimildir til fiskveiða innan 50 mílnanna eftir 1. sept. 1972. Auðvitað hefði það gefið betri raun. En það samkomulag, sem ég vitnaði til og var gert hér á Alþ. á mjög einstæðan hátt, þar sem allir alþm , hvernig einn einasti, stóðu að samkomulaginu sem var gert á Alþ. 15. febr. 1972. Það var mjðað við það og það tókst ekki samkomulag á öðrum grundvelli en að sú stefna yrði mörkuð að jafnhliða útfærslunni skuldbyndum við okkur til þess að halda. áfram samningaviðræðum, sérstaklega við Bretland og V-Þýskaland, um ákveðinn umþóttunartíma fyrir þessar þjóðir. Ég þarf ekki að fara út í að rekja það. Menn vita mætavel hvaða ástæður lágu til þess fyrst og fremst að menn töldu að þetta mál okkar, 54 mílna landhelgin, yrði varla sótt af okkar hálfu án þess að gefa þessum aðilum með þá samninga, sem þeir töldu sig hafa fullgilda í höndunum, — það yrði varla sótt án þess að við gæfum þeim nokkurn tíma til umþóttunar. Og þessi stefna var mörkuð.

Það var því engin deila um það allan þann tíma sem baráttan við breta stóð, frá 1. sept 1972 og þar til samningur var gerður við þá 13. nóv. 1973, allir flokkar höfðu viðurkennt að þeir mundu fallast á þá leið í landhelgisbaráttunni að samið yrði um umþóttunartíma. Ágreiningurinn var allur um hvað þessi umþóttunartími ætti að vera langur og hvað veiðiheimildir breta og vestur-þjóðverja ættu að vera miklar.

Það vita svo allir hv. þm. hvernig fór í þessum efnum, þar sem gerður var síðan samningur við breta 13. nóv. 1973, til tveggja ára og um tiltekna veiðiaðstöðu hér við land. Ég var einn í þeim hópi sem lét það koma mjög skýrt fram á Alþ. að ég teldi að þá hefði verið samið til of langs tíma og um of mikil veiðiréttindi. En þar sem mér var ljóst að það var engin leið að koma öðru fram og það lá fyrir skýr meiri hl. hér á Alþ., fyrir þessari samningagerð, þá féllst ég á það fyrir mitt leyti að standa að þeim samningi eins og Þingtíðindin bera gleggst vitni um. Sá fyrirvari, sem ég hafði þá á og minn flokkur í þessum efnum, kemur skýrt fram í Þingtíðindum, hvað það var sem við töldum að væri áfátt við þann samning og hefði þurft að vera á annan veg og hvers vegna við féllumst á samningsgerðina.

Vegna þeirrar alvarlegu stöðu, sem upp er komin í þessum málum hjá okkur, er mjög mikilvægt að menn átti sig á því hvað hefur raunverulega verið að gerast í þessum málum okkar fyrir utan almennar aðgerðir sem við höfum gripið til og liggja fyrir í reglugerðum og tilskipunum, lokun svæða og heftingu á veiði og svo aftur á hina hliðina í sambandi við stækkun okkar fiskiskipaflota og aukna sókn, eins og menn tala um, en ég nota nú ekki í sambandi við okkar þorskveiðar það orð og vek athygli á því að það liggja ekki fyrir fræðilega hjá okkur neinar mælingar um sóknarþunga af okkar hálfu í þorskveiðar. Engar slíkar mælingar liggja fyrir. En það er fróðlegt í þessum efnum að sjá hvað hefur verið að gerast varðandi þessi mál og líta þá bara á beinar tölur úr opinberum skýrslum. Ég skal nefna hér nokkrar tölur sem segja býsna mikið um þetta.

Fyrsta árið, eða árið næsta áður en við færðum okkar landhelgi út í 50 mílur, þ.e.a.s. árið 1971, sem var síðasta heila árið sem útlendingar gátu stundað hér veiðar eftir gamla laginu án þess að okkar nýju reglur væru farnar að taka gildi sem miðuðu að því að draga úr sókn útlendinga á því ári árinu 1971, veiddu útlendingar hér á Íslandsmiðum af svonefndum þorskafla, — það er ekki aðeins þorskurinn einn, heldur einnig ufsi og karfi og ýsa. — þá veiddu þeir hér 384 þús. tonn það ár. Árið 1972 seig afli þeirra niður í 309 þús. tonn, þá gætti sem sagt útfærslunnar nokkurn tíma. Árið 1973 seig afli þeirra enn niður í 279 þús. tonn. Árið 1974 seig afli þeirra enn niður í 230 þús. tonn. Og eftir því sem upp hefur verið gefið um afla aðalveiðiþjóðanna, en formlegar skýrslur liggja ekki fyrir um árið 1975, ekki nákvæmar, hefur afli útlendinga á Íslandsmiðum verið 185 þús. tonn árið 1975. Eins og menn sjá hefur afli útlendinga minnkað á þessu tímabili um helming, rétt að segja um helming.

En það er líka fróðlegt að sjá hvernig afla íslendinga hefur verið háttað á þessu sama tímabili.

Árið 1971, árið áður en við færðum út, var heildarafli okkar af þessum fisktegundum 417 þús. tonn, en árið 1975 var þessi afli ekki 417 að vísu, hann var 419. Hann hefur haldist svo að segja óbreyttur eins og tölurnar sýna á þessu tímabili, með minni háttar sveiflum, en nálega óbreyttur, heildarafli okkar. En heildarafli útlendinganna á þessum miðum hefur fallið um helming.

Þegar athugaður er sérstaklega samdrátturinn í veiðum breta og þjóðverja, sem hér skipta mestu máli, þá er þetta mjög svipað hjá þeim. Árið 1971 veiddu þeir 335 þús. tonn, en nú árið 1975 165 þús tonn. Það er því auðvitað ekkert um það að villast að á þessu tímabili höfum við náð umtalsverðum árangri þó að hann hefði mátt vera meiri. Við höfum verið að draga úr sóknarþunga útiendinganna. En það, sem kannske skiptir þó allra mestu máli, er að við náðum algjörlega tökum á því að bægja frá okkur þeirri hættu sem var talin af öllum þeim, sem best þekktu til, mesta hættan varðandi þessi mál sem við stóðum frammi fyrir þegar við vorum að fara í útfærsluna út í 50 mílur. Við stóðum þá einmitt frammi fyrir því, að hinn stóri, hreyfanlegi floti, stóru skipin, sem gátu legið í 2–3 mánuði á miðunum, jafnvel lengur í einu, með allar sínar stórkostlegu upplýsingar til veiða, var einmitt byrjaður, byrjaði samkvæmt skýrslum Fiskifélagsins, þá kemur skýrt fram hjá þeim, hann byrjaði að hreyfa sig hingað til Íslandsmiða seinni hluta ársins 1969, er hér allverulega árið 1970, — það ýtti þá fyrst og fremst við okkur, að nú gætum við ekki beðið lengur, — og á árinu 1971. Þetta var t.d. í fyrsta skipti á þessum árum sem við höfðum séð á okkar miðum stór verksmiðjuskip rússa og margra annarra þjóða, og skýrslur breta sýndu það líka að stóru skipin þeirra, sem við vildum einmitt losna við fyrst og fremst, voru einmitt að byrja veiðar hér á þessum slóðum á þessu tímabili. Fyrir alla þessa stórvaxandi sókn tókum við með öllu, gátum strikað hana út.

En þetta breytir ekki því að við stöndum frammi fyrir alvarlegum vandamálum í dag af því að við hefðum þurft að geta gert betur. En það er allt of ódýr skýring hjá þeim sem halda að í almennu pólitísku þrasi geti þeir afgreitt þetta með því að segja — ja, öll ólukkan núna stafar eiginlega af því að Lúðvík Jósepsson var ekki nógu harður og hann sveikst um að hlíta þeim aðvörunum sem fram komu frá fiskifræðingunum árið 1972. Allt slíkt er auðvitað hreint slúður. Allar upplýsingar þeirra lágu opinberlega fyrir, var um fjallað, lög voru sett á Alþ. reglugerðir voru gefnar út. En við höfðum ekki sakarafl til þess að víkja útlendingunum fullkomlega af okkar miðum, urðum að láta þar í minni pokann, eins og menn vita. Menn getur greint á um það hvort við hefðum getað gert betur en við gerðum í þeim átökum, alveg eins og menn getur greint á um það nú í dag hvort við gætum gert meira en gert er í dag til þess að koma í veg fyrir veiðar útlendinga.

Ég hygg að það, sem ég hef sagt um þessi mál, þó að margt sé í rauninni ósagt og væri freistandi að fara hér inn á, — ég hygg þetta sé fullkomið svar fyrir hv. þm. Tómas Árnason við því sem hann vék hér sérstaklega að um það hvernig þessum málum hafi í rauninni verið háttað á þessum tíma, hvað hafi komið fram af þessum málum, hvað hafi verið gert, og þá er auðvelt að rekja sig áfram í því hverjir það eru sem hefðu kannske viljað gera eitthvað meira.

En till. hv. þm. fjallar í rauninni um annað en það sem ég hef gert hér aðallega að umtalsefni, en þar var ég fyrst og fremst að svara því sem að mér var beint. Till. hans fjallar um að gerðar séu sérstakar ráðstafanir til þess að leita eftir nýjum fiskimiðum og þá sérstaklega nýjum veiðimöguleikum og að efnt verði til tilraunaveiða. Ég skal ekki verða langorður um þetta, en vil aðeins segja það, að á þeim tíma öllum sem ég hef gert hér að umtalsefni hefur verið unnið að þessu. T.d. í minni stjórnartíð var unnið að þessu eins og að mögulegt var talið að gera á þeim tíma. Sjálfur hafði hv. þm. m.a. minnst nokkuð á það, að hér voru gerðar tilraunir til veiða á kolmunna og spærlingi og aðilar studdir til þess á sínum tíma.

Það er rétt, sem hér kom fram hjá hæstv. sjútvrh., að meginástæðan til þess að t.d. spærlingsveiðar eru ekki miklum mun meiri en raun hefur á orðið, t.d. á s.l. ári, er sú, að það er enginn rekstrarlegur grundvöllur fyrir slíkum veiðum á meðan svo að segja ekkert er borgað fyrir það hárefni sem fer til mjölvinnslu. Það getur auðvitað enginn aðili, miðað við okkar tilkostnað og kröfur okkar útgerðar og sjómanna, stundað slíkar veiðar með því að fá greiðslu svipað því sem ákveðið hefur verið við okkar hráefnisverðsákvörðun. Þar liggur aðalvandinn. Ég álít fyrir mitt leyti að ef það þætti tiltækilegt að hækka verðið allverulega á spærlingi til vinnslunnar, þá efast ég ekkert um að allmargir bátar mundu hefja þær veiðar. Og það þyrfti að hafa eins og áður nokkurn hemil á því hvernig að þeim veiðum er staðið, því að það er mikil hætta á því að þorskur fljóti þar með, en spærlingsveiðarnar eru stundaðar með trolli sem er alveg ólöglegt gagnvart þorskveiðum.

En varðandi kolmunnann, þá hafa líka bátar verið styrktir nokkuð til útgerðar. Þar höfum við rekið okkur á það að veiðar á kolmunna hafa hjá öllum mistekist á þeim tíma sem við höfum sérstaklega haft áhuga á að reyna þær veiðar, en það er sem sagt eftir loðnutímabilið. Ef við hefðum viljað senda okkar skip á fiskimiðin fyrir vestan Írland, á aðalhrygningarstöðvar kolmunnans, eins og norðmenn hafa gert nokkuð og nokkrar aðrar þjóðir, strax í marsmánuði og verið þar í mars og apríl, þá er enginn vafi á því að við hefðum getað veitt talsvert af kolmunna eins og þeir, ef útgerðarmenn okkar hefðu verið fúsir til þess. En menn hafa alls ekki viljað skipta á því úthaldi, miðað við sina aðstöðu, og loðnuveiði. Fyrir því er enginn grundvöllur. En kolmunnaveiðar eftir að kemur fram í maí og júní og júlímánuð, sem reyndar hafa verið hér hjá okkur, þær hafa ekki heppnast. Það eru ýmis útgerðarfyrirtæki hér sem tekið hafa á sig mikla skelli, mikil útgjöld í sambandi við þessar veiðar og þær hafa ekki heppnast. Og ég hef ekki neina trú á því að gerðar verði verulegar tilraunir til þessara veiða áfram, nema þá að opinberir aðilar vilji styðja við slíkar tilraunaveiðar með allverulegum fjármunum. Þá má auðvitað fá betur úr því skorið hvort þessar veiðar geta gefið betri raun en orðið hefur, og þá væri kannske einnig hægt að fullreyna það hvort hægt er að vinna eitthvað af þeim afla sem okkar afkastamestu skin gætu þó náð í til manneldis.

Ég er hins vegar á því að við getum gert ýmislegt í sambandi við tilraunaveiðar sem gæti dreift okkar flota, eins og vakir fyrir hv. þm. með till. Og alveg sérstaklega legg ég áherslu á það, að við gætum hafist handa í sambandi við rækjuveiðar á djúpmiðum. Það liggur t.d. fyrir, Hafrannsóknastofnunin hefur staðfest það sem okkar sjómenn voru búnir að halda lengi fram, hún hefur staðfest með sínum rannsóknum að það eru býsna auðug rækjumið úti fyrir Austurlandi, einnig úti fyrir Norðurlandi, þar sem er um úthafsrækju að ræða sem er eftirsótt vara. En ég hef heldur enga trú á því að skorið verði úr þessu á fullnægjandi hátt, hvort þetta getur orðið arðvænleg útgerð, nema til þess fáist verulegur fjárhagsstuðningur hins opinbera í byrjun. Einstakar útgerðir hafa ekki bolmagn til þess að tryggja sínum áhöfnum það kaup og standa undir þeim rekstrarkostnaði sem þessu fylgir. En það hefði verið þýðingarmikið að ekki minna en 2–3 skip úr hvorum landsfjórðungi um sig, fyrir norðan og austan, hefðu getað stundað þessar veiðar í tvo, þrjá mánuði samfleytt til þess að fá rækilega úr því skorið hvernig gæfist slík útgerð. Þar með hefði kannske tekist að leggja grundvöll að því að þessar veiðar væru hafnar fyrir alvöru án stuðnings.

Málið snýst því einfaldlega um það hvað hið opinbera treystir sér til að gera í þeim efnum að styrkja menn til byrjunar útgerðar, af því að það er ekkert gamanmál fjárhagslega séð að hefja slíkar veiðar.

Ég veit að það er ekki aðstaða til þess að halda þessum umræðum miklu lengur áfram nú — eða ég get ekki tekið hér allan tímann. Ég hefði þó sannarlega haft áhuga á því að ræða í sambandi við þetta mál að nokkru leyti þá frásögn sem skýrt er frá í blöðum í dag, að sérstök stjórnunarnefnd fiskveiða við landið er að komast að þeirri niðurstöðu og farinn að leggja til að það eigi að stöðva allar veiðar íslendinga, sem gefa einhverja raun, í 2–4 mánuði á þessu ári til þess að ná því marki að draga niður aflamagn okkar af þorski um þriðjung frá s.l. ári, um 90 þús. tonn af 270 þús. tonnum sem veiðin var. Það er enginu smáræðis vandi sem við stöndum frammi fyrir ef það á að verða ofan á að við bregðumst þannig við að við segjum einfaldlega, t.d. við allan okkar togaraflota og öll þau skip sem eitthvert magn bera að landi, að þar skuli menn taka sé fjögurra mánaða frí á komandi sumri. Það þýðir auðvitað í heilum landshlutum, þar sem vinnan er að langmestu leyti fiskvinna, frá 80–90% af allri almennri vinnu, hún er vinna við að tilreiða þorsk til útflutnings, — það er stærri verkfallsboðun en maður hefur heyrt nefnda hér í okkar landi fyrr. Það er því vissulega ástæða til þess að þessi mál séu rædd, hvernig á að taka á þeim, og reynt að ná sem allra viðtækustu samstarfi um það. Einmitt út frá þessu sjónarmiði þykir mér einsýnt, að það verður ekki undan því vikist að hið opinbera leggi á sig nokkrar fjárhagslegar byrðar til þess að reyna að dreifa flotanum, m.a. í sambandi við nýjar veiðar. En það þýðir ekki að segja mönnum einfaldlega að þeir skuli gera þetta sjálfir, því að það kostar meira en svo að íslensk útgerð geti yfirleitt gert það. Ég álít því að sú n., sem kemur til með að fjalla um þessa till., þurfi að athuga að breyta till. þannig að það sé ákveðið að verja skuli ákveðnum fjármunum í því skyni að gera tilraunaveiðar kleifar. Til þess verður hreinlega að leggja fram fé, nokkra tugi millj. kr. Um það þýðir ekkert að fást. Ef þetta á að verða þarf að gera það.

Almenn þál. og áskorun gildir ekki nema það sé hreinlega tekið fram að til þess sé ætlast að ríkisstj. fái heimild til þess að taka lán eða útvega sér fjármuni á annan hátt til þess að standa undir þessum aðgerðum.