14.10.1975
Neðri deild: 3. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í B-deild Alþingistíðinda. (21)

4. mál, veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni

Lúðvík Jósepsson:

Forseti. Farið er fram á, að þetta frv. fái afgreiðslu með nokkuð sérstökum hætti, þannig að hægt verði að afgr. málið sem lög frá Alþ. á þessum degi. Ég tel sjálfsagt að greiða fyrir því að þetta frv. nái fram að ganga í dag. Hér er um formbreytingu að ræða og ég ætla að hér geti ekki verið um neinn ágreining að ræða í sambandi við landhelgismálið.

Af þessum ástæðum mun ég ekki ræða hér um landhelgismálið almennt, þó að vissulega sé ástæða til þess að slíkar umr. geti farið fram á Alþ., eins og það mál stendur nú í dag. Ég áskil mér allan rétt til þess að taka upp slíkar umr. hér í þinginu, væntanlega síðar í þessari viku eða a. m. k. áður en sendimenn á vegum íslenska ríkisins fara utan til þess að þinga um það mál við erlenda aðila.

En sem sagt, ég ítreka það að ég vil greiða fyrir því að þetta frv. nái fram að ganga og verði að lögum í dag og tel það enda nauðsynlegt vegna þeirrar útfærslu sem ákveðið hefur verið með reglugerð að eigi að taka gildi frá og með næsta degi.