04.11.1975
Sameinað þing: 11. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í B-deild Alþingistíðinda. (210)

25. mál, húsnæðismál

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan) :

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra svörin, einkum við 3. fsp., sem voru mjög ítarleg svör og að mörgu leyti ágæt.

Ég ítreka það að leiguíbúðirnar eru nú og hafa verið helsta von landsbyggðarinnar til aukins jafnréttis við Reykjavíkursvæðið varðandi húsnæðismál. Það er að vísu rétt að sveitarfélögin hafa að mörgu leyti verið vanbúin til þessara verkefna og m. a. einnig til rekstrar þessara íbúða, en heildarstefnan er þó tvímælalaust rétt og ég hygg að þetta kerfi út af fyrir sig eigi ekki að setja húsnæðislánakerfið sjálft úr skorðum svo mjög, því að hvort tveggja hefur gerst, að Breiðholtsframkvæmdunum víðfrægu er sem óðast að ljúka og í annan stað var til þessara leiguíbúða á sínum tíma tryggður ákveðinn tekjustofn. Ég verð hins vegar að segja það, að ég trúði Tímanum svona rétt bærilega þegar þessi forsíðufrétt birtist í októbermánuði, en eftir svör hæstv. ráðh. um lánveitingar fram til áramóta hallast ég að því að Tíminn hafi haft töluvert til síns máls, því að sannleikurinn er sá að hæstv. ráðh. gaf hér engin svör um það hverjir fengju úthlutun fyrir áramót aðrir en þeir sem þegar hafa fengið um það formlega tilkynningu, verið formlega tilkynnt um það af húsnæðismálastjórn.

Ég var einmitt að leita eftir því hvort ekki væri hægt á þessu stigi að gefa þeim svör sem gera fokhelt — við skulum segja eins og verið hefur undanfarin ár, fyrir 15. nóv. — einhver svör, einhverja von um að þeir gætu átt von á sömu fyrirgreiðslu og undanfarin ár, en hæstv. ráðherra treysti sér ekki til þess að gefa þessum mönnum neina slíka von, sagði að það ætti eftir að taka ákvörðun um þetta, og ég lýsi vonbrigðum mínum með það. Ég treysti hins vegar enn á að hann sjái til þess, hæstv. ráðherra, að þarna verði myndarlega að staðið, og bendi á að mér sýnist ekki betur en að þetta muni kosta Byggingarsjóð ríkisins allmiklu minni fjárhæð en undanfarið af þeirri ástæðu að lánið út á fokheldni íbúðanna nemur nú 1/3 á móti helmingi áður af heildarlánsupphæðinni. En við skulum sem sagt vona að Tíminn hafi þarna eins og kannske oft áður farið með rangt mál og það verði nógir peningar til til þess að standa a. m. k. við það mark sem hefur verið sett undanfarin ár, því að eftir þessu bíða menn með mikilli óþreyju.

Varðandi það sem hæstv. ráðh. sagði um kaup á eldri íbúðum, þá er alveg rétt og ég fagnaði því þegar hann lagði fram stjfrv. í fyrra um að hækka verulega upphæðina sem til eldri íbúða átti að fara. En ég held að við eigum að ganga lengra enn í þessu. Það gæti dregið að mun úr þeirri spennu sem ríkir í þessum málum. Ég held að það sé t. d. flestra mál í dag að það sé auðveldara að byggja hús heldur en að kaupa sér eldri íbúð ef sú íbúð er á annað borð nokkuð sæmileg. Ég skora sem sagt á hæstv. ráðh., ef hann sæi sér fært, að rýmka enn heimild til kaupa á eldri íbúðum einmitt til þess þá ef til vill að spennan minnkaði varðandi nýbyggingu húsa.