15.03.1976
Neðri deild: 76. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2533 í B-deild Alþingistíðinda. (2106)

Umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Virðulegi forseti. Ég mun að sjálfsögðu fara að fyrirmælum forseta, en verð að láta í ljós undrun mína á því að Alþ. hafi ekki tíma til að ræða um landhelgismálið af því að það liggi svo mikið á að pexa um stafsetningu og annað slíkt sem er á dagskrá.

Árásir bresku herskipanna á varðskipin nú fyrir helgina minna okkur illþyrmilega á það hvernig landhelgismálið stendur. Það virðist svo sem þeir herði sig upp í árásarlotur, ekki síst strax eftir að varðskip okkar hafa á áberandi hátt náð árangri við að klippa af togurunum svo að segja fyrir augunum á mönnum á þessum innrásarskipum, og þessu mun að sjálfsögðu halda áfram.

Það heyrir til nýmæla að einn af skipherrum landhelgisgæslunnar hefur látið hafa eftir sér í ríkisfjölmiðlunum allsterka ádeilu á að illa sé búið að landhelgisgæslunni og það, sem gerist hér á Alþingi og í húsakynnum ríkisstj. landsins, sé ekkert annað en kjaftæði, — ég man ekki hvort hann notaði það orð, en það var eitthvað álíka að merkingu.

Það leynir sér ekki að rík ástæða er til að gagnrýna aðgerðaleysi ríkisstj. við að styrkja landhelgisgæsluna. bað er ærið langt síðan að ljóst varð að við gætum lent í enn einu þorskastriði, og við vitum það af reynslu að þorskastríð getur hæglega staðið í 1–2 ár eða jafnvel lengur. Ég tel því undrunarefni að það hafi aðeins einum togara verið bætt við og e.t.v. einhver flugvélaleiga komið til greina, þó það virðist ekki vera reglulega að því er best verður séð. Ég vil líka lýsa undrun minni á því að landhelgisgæslan skuli ekki vera viðbúin að því leyti að vita hvað hún vill. Þegar bretar eru byrjaðir að sigla á skip okkar og farnir að laska þau alvarlega, þannig að við getum misst 2–3 þeirra úr gæslu hvenær sem er, þá er skipuð nefnd sem hreyfir sig svona álíka rösklega og nefndir gera hér á landi, bíður róleg í nokkra daga og svo, þegar frá henni heyrist, er eins og hún hafi náð sér í útlenda skipalista eins og Jane's Fighting Ships og menn hafi flett þessu sér til gamans og komið síðan fram með næsta óraunhæfar hugmyndir, á sama tíma sem ekkert virðist hafa verið gert af því sem raunhæft er. Landhelgisgæslan hefði í fyrsta lagi átt að vita hvers konar skip við þurfum og getum best notað, og í öðru lagi að vita hvar er hægt að fá þessi skip með skömmum fyrirvara. Þetta hefði átt að liggja tilbúið löngu áður en þorskastríðið hófst. Skilst af fréttum að það standi ekkert á tilboðum um allar mögulegar gerðir af skipum sem til greina kæmu.

Ég tel að þetta hefði átt að vera fyrir löngu ákveðið og eigi þar af leiðandi að verða eins fljótt og kostur er á fleiri skipum, fyrst og fremst til þess að fylla í skörðin ef við missum alveg úr þau skip, sem við höfum, og svo til þess að bæta við til frekari gæslu ef mönnum sýnist svo á svipuðu stigi og verið hefur.

Ég get hins vegar ekki látið hjá líða að láta í ljós nokkurt vantraust á tali manna um það að fá hraðskreið skip sem ganga meira en freigáturnar. Í fyrsta lagi segja kunnugir menn að flest slík skip, sem ganga yfir 30 mílur, séu erfið ef nokkuð er í sjó. Eru mörg þeirra ónothæf nema svo að segja á sléttum sjó. Í öðru lagi eru þau ákaflega dýr í rekstri.

Að lokum kemur aðalatriðið, að því er mér finnst, sem er að andstæðingur okkar er víst þriðja stærsta flotaveldi heims og bretar geta valið skip til gæslu hér úr hvaða flokki herskipa sem þeim sýnist. Þeir eiga hóp af strandgæslu- og landhelgisgæsluskipum. Ekkert þeirra hefur sést hér af því að landhelgisskipin okkar hafa við þeim. Bretar velja því næsta flokk fyrir ofan, freigáturnar, og ef við komum með skip örlítið hraðskreiðari en þær, þá eiga þeir 15–20 tundurspilla sem eru bæði öflugri og ganga vafalaust 35–40 mílur. Þetta er fyrir utan það að bretar framleiða hraðbáta fyrir mörg lönd víðs vegar um heim. En hitt er meginatriðið, að landhelgisgæslan hafi eins traust og góð skip af svipuðum gerðum og við höfum notað.

Ég ítreka undrun mína yfir undirbúningsleysi á þessu sviði. Mér skilst að það sé algjört grundvallaratriði í sambandi við allar lögregluaðgerðir, ég tala nú ekki um hernaðaraðgerðir, að þeir, sem bera ábyrgð á þeim, geri sér grein fyrir öllu, sem fyrir gæti komið, og hafi tilbúnar áætlanir um það, hvernig bragðast skuli við hinum mismunandi atvikum, þegar að þeim rekur. Að það skuli þurfa að fara að skipa n., eftir að út í þorskastríð er komið, ti1 þess að kanna þetta mál, það er ekki góðs viti.

Ég vil ennfremur beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðh., hvort það sé rétt, sem mjög er fleygt orðið, — ég man nú ekki nákvæmlega, hvort skipherrann nefndi það, — að Landhelgisgæsluna beinlínis skorti fé til þeirra útgjalda sem hún skapar sér nú frá degi til dags, og það sé rétt að hún skuldi stórupphæðir hjá vélsmiðjum t.d. fyrir viðgerðir og annað slíkt. Ef svo er, þá kemur það Alþ. vafalaust algjörlega á óvart því mér er ekki kunnugt um að Alþ. hafi nokkru sinni neitað um fjárveitingar eða mundi neita að samþ. eftir á fjárveitingar til þess sem nauðsynlegt er fyrir landhelgisgæsluna.

Ég vil að lokum lýsa þeirri skoðun minni, sem er algjört grundvallaratriði í þessu máli, að við íslendingar séum í raun og veru þegar búnir að vinna þorskastríðið. Við erum búnir að vinna þetta stríð, og það er nálega ómögulegt að ímynda sér þær snöggu breytingar í umheiminum sem gætu breytt þeirri staðreynd. Af þessu leiðir að verkefni okkar er nú að halda út meðan bretar þæfa áfram við aðgerðir sínar, og það verður að gerast á þann hátt sem landhelgisgæslan hefur reynt, að trufla veiðar og reyna að minnka afla bretanna eins og hægt er. Við megum ekki falla í þá gryfju að hugsa eins og við séum eitthvert flotaveldi, sem getum tekið upp flotakapphlaup við þjóð eins og breta. Það tel ég að yrði okkur sjálfum til skaða, og ég er hræddur um að ef við förum að panta herskip í austri og vestri og alls staðar þar á milli muni renna tvær grímur á marga þá sem hafa stutt okkur ekki síst vegna þess að þeir líta á okkur sem litla og vopnlausa þjóð sem er að bjarga sér í lífshagsmunamáli. Ef við förum að hegða okkur eins og herveldi er ég hræddur um að sú samúð mundi fljótlega gufa upp bæði hjá almenningi og ráðamönnum erlendis.