15.03.1976
Neðri deild: 76. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2540 í B-deild Alþingistíðinda. (2110)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Forseti. Ég skil það mæta vel að hæstv. forseti geri tilraun til þess að stytta umr. utan dagskrár, það er aðeins eðlilegt, þó að sjálfsögðu eins og hér hefur verið bent á, verði að taka tillít til þess hvernig mál ber að og hvaða mál er um að ræða. Ég hafði satt að segja ekki gert ráð fyrir því að hér yrðu miklar umr., en taldi fulla ástæðu til að vekja hér athygli á því máli, sem ég hóf umr. um, og beina til ríkisstj. nokkrum afmörkuðum spurningum í sambandi við það og minnast þá á þær till. sem ég fyrir hönd míns flokks hafði gert varðandi málið áður.

Ég átti von á því að fá svör við þessum efnislegu fsp. mínum. En þá gerist það að hæstv. forsrh. kemur og hefur uppi mjög almennar umr., vægast sagt á mjög breiðum grundvelli, um landhelgismálið og hefur stærri orð í þeim efnum en hann gerir allajafna í sínum málflutningi. Hann segir að ástæðan til þess, að ég hafi vakið hér athygli á þessu máli og sagt það sem ég sagði um málið, hafi verið sú, að ég vildi slá pólitískar keilur, og hann fordæmdi þetta sem ábyrgðarlausan málflutning. (Gripið fram í.) Já, mér er sama með hvaða formála þetta er, það segir nokkuð til sín, hvað sagt er. Ég lýsi yfir undrun minni á þessari framkomu hæstv. forsrh. og tel að hún sé með öllu ósæmileg í sambandi við það mál sem hér er verið að ræða um Ég tel til harla lítils gagns hjá honum að lýsa því hér yfir að hann vilji hafa samstarf og samráð við stjórnarandstöðuna á meðan hann túlkar málið frá sinni hálfu á þann hátt sem hann gerði að þessu sinni. Hann sagði að hér væri beinlínis um skaðlegar umr. að ræða, vangaveltur okkar um það, hvað gera ætti, fyrir opnum tjöldum og að þessi mál ættu að ræðast í n. fremur en opinberlega á Alþ. Ég vék að því í mínu máli að við hefðum margsinnis áður lagt fram till. um það hvernig ætli að standa að eflingu landhelgisgæslunnar og til hvaða ráða við ættum helst að gripa. Ég minni á það að liðið er nú nokkuð á þriðja mánuð síðan ég lagði fram í landhelgisnefnd skriflegar till. í þessum efnum. Þar var lagt til að bætt yrði við í gæsluflotann tveimur til þremur togurum nú þegar og undirbúið að bæta við fleiri síðar. Hvað hefur verið gert við þessar till. í n.? Hæstv. forsrh. stjórnar þessari n. Hann hefur séð um það að þær væru ekki teknar frekar til umr., þó að ég hafi margsinnis innt eftir því, hæði hér á Alþ. og í n. Hann hefur séð um það að ekkert væri gert. Þegar staðið er að málum á þennan hátt, þá er ekki um annan kost að ræða en að taka alvarleg mál upp hér á Alþ. og gera öllum hv. alþm. og allri þjóðinni grein fyrir því hvernig mál standa. Og það er með öllu þýðingarlaust fyrir hæstv. forsrh. að biðjast undan að ræða málin efnislega þegar svona er að málum staðið. Hann gelur ekki sloppið við að ræða málin.

Hæstv. forsrh. sagði að þessar umr. bæru vott um það af hálfu okkar, sem hér höfum talað fyrir hönd stjórnarandstöðunnar, að við hefðum slæmar taugar, og vildi gefa í skyn að við værum í rauninni að gefast upp í baráttunni við hinn erlenda yfirgang í þessu máli. En hann hefur þessar rólegu taugar, að hann getur beðið aðgerðalaus eins og ekkert hafi í skorist. Ég veit að það er hægt að segja að við séum búnir að sigra í landhelgismálinu, eins og hér hefur verið sagt, af því að allar líkur benda til þess að við munum vinna sigur í málinu. En við skulum gæta að því að málið stendur þannig, þó að við fáum sigur í þessu máli síðar á árinu, þá stendur það svo alvarlega að bretar eru hér að veiða af takmörkuðum fiskstofni og íslensk stjórnvöld eru að þinga um það þessa dagana að stöðva veiðar íslendinga í nokkra mánuði. Þeir, sem næst standa ríkisstj. í þeirri n., sem flutt hefur till., gera beinlínis ráð fyrir því að meginhluti fiskiskipaflotans, sá afkastamesti, verði stöðvaður í 4 mánuði og 10 daga, bannaðar allar veiðar á þorski, vegna þess að það er gengið út frá því að bretar geti veitt hér í óleyfi það mikið af þessum takmarkaða fiskstofni að til þessara alvarlegu ráðstafana verði að grípa. Það er því alveg augljóst mál að við þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að reyna að koma í veg fyrir að bretar geti stundað þessar ólöglegu veiðar með nokkrum teljandi árangri þar til við höfum fengið þann stuðning á alþjóðavettvangi að við getum talað um fullnaðarsigur. Og auðvitað hefur því verið lýst yfir af öllum æ ofan í æ, þangað til nú af hæstv. forsrh., að auðvitað verðum við að reyna að efla okkar landhelgisgæslu sem mest til þess að reyna að koma í veg fyrir árangursríkar veiðar breta.

Ég verð að segja það, að ég lýsi undrun minni yfir þeim málflutningi hæstv. forsrh. og að nokkru leyti hv. þm. Benedikts Gröndals, að vegna þess að bretar geti bætt við fleiri og fleiri skipum, þá þýði í rauninni ekkert fyrir okkur að styrkja okkar landhelgisgæslu. Eftir þessari kenningu ættum við líklega að hætta allri landhelgisgæslu, af því að það hefur ekkert að segja. Þá dugar auðvitað bretum að hafa hér bara eitt skip eða kannske ekkert. Við vitum það, reynslan hefur þegar sýnt okkur það, að þegar við höfum sæmilegan gæsluskipaflota á miðunum, þá komum við að mestu leyti í veg fyrir veiðar breta. En okkar gæsluskipafloti er sáralítill og mjög vanbúinn. Eitt af aðalskipunum er gjörsamlega úr leik og hefur verið það um langan tíma, gengur eins og trillubátur, vegna þess að það skip hefur verið vélarbilað nú í langan tíma. Aðstaða okkar á miðunum er því allt of veik. Auðvitað ætlum við að hafa á veiðisvæðinu a. m. k. 5–6 sæmilega kröftug gæsluskip, og þau mundu gera sitt gagn, það hefur reynslan þegar sýnt okkur. Það er algjör misskilningur að tala um að það sé þýðingarlaust fyrir okkur að bæta við fleiri skipum af því að bretar geti bætt við enn öðrum skipum.

Þá kemur upp sami misskilningurinn í sambandi við hin hraðskreiðu skip. Auðvitað vita allir að mjög hraðskreið skip og skip sem sérstaklega eru búin þannig, þau eru ekki eins góð í sjó að leggja þegar vont er í sjó. Þetta vita allir. Og það gildir ekki aðeins um okkar skip, það gildir auðvitað ekkert síður um skip annarra aðila. Þeir skipherrar okkar, sem sérstaklega hafa gert till. í þessa átt, hafa auðvitað lagt á það áherslu að nota þessi skip fyrst og fremst þann tíma af árinu þegar sjór er hægari og betri, að sumarlagi til, og þá gert ráð fyrir að nota þessi skip á þann eðlilega hátt að þau skjótist út, og það er vitanlega gífurlegur munur þegar skip gengur 35 mílur, þá kostar það skipið tæpan klukkutíma að komast alveg út að þeim mörkum sem við þurfum að sinna, þannig hafa þessi hraðskreiðu skip alla möguleika til þess að skjótast inn í veiðiflotann og klippa veiðarfæri frá togurunum. Það er engin tilviljun að okkar varðskipsmenn hafa bent á þetta hver á fætur öðrum. Og þó að bretar kæmu með jafnhraðskreiða báta, þá mundi það ekki duga í þessum tilfellum, það er mesti misskilningur.

Auðvitað hefur það legið fyrir allan tímann að við þyrftum að efla okkar gæsluflota, við þyrftum að bæta þar við skipum, þannig að við hefðum allmörg skip á miðunum í einu, en ekki á þann hátt sem verið hefur, þegar iðulega hefur komið fyrir að við höfum orðið að láta okkur nægja eitt til tvö skip á miðunum í einu.

Ég verð að segja að mér þykja það heldur þunn svör hjá hæstv. forsrh. að segja það eitt um aðgerðir í þessu máli að það starfi n. í málinu og þegar n. hafi starfað eigi að leggja niðurstöður hennar fyrir enn aðra n. til athugunar, landhelgisnefnd. Auðvitað erum við búnir að hafa þetta mál svo lengi til athugunar að hér er fyrst og fremst um það að ræða hvort við viljum útvega okkur svona skip eða ekki. Og það er alveg þarflaust, eins og komið hefur líka fram hjá okkar varðskipsskipherrum, það er auðvitað alveg þýðingarlaust að vera að tefja sig á því að biðja norðmenn um skip. Við vitum að þeir hafa aldrei gert neitt fyrir okkur í landhelgismálinu, aldrei okkur neitt til gagns, og þeir munu ekki veita okkur aðstöðu til neins skips. En hitt vitum við mætavel, að það liggur fyrir að við getum fengið svona skip, bæði leigð og keypt, hjá mörgum aðilum. Við þurfum ekki að liggja lengi yfir því hvort bandaríkjamenn vilja láta okkur hafa hraðskreið skip eða ekki á leigu eða til kaups. Ef þeir vilja ekki gera það eða svara okkur ekki á skikkanlegum tíma, þá er vitanlega að snúa sér að öðrum sem eru tilbúnir að selja okkur eins og öðrum þjóðum slík skip eða leigja þau. En í þessum efnum er auðvitað spurningin þessi: Viljum við þetta, eða viljum við það ekki? Ég tók eftir því, að hæstv. forsrh. sagði: Við þurfum að meta það, af því að sigurinn er ekki langt undan. hvort yfirleitt borgar sig að vera að eyða fé í nýjan stofnkostnað og nýjan rekstrarkostnað. — Já, við þurfum að athuga það. hvort yfirleitt borgar sig að efla gæsluna nokkuð! Ég segi fyrir mig: Ég er á þeirri skoðun að ég tel mjög miklar líkur til þess að það verði komin sú niðurstaða á Hafréttarráðstefnunni. þegar líður á seinni hluta þessa árs, að það séu miklar líkur til þess að bretar verði þá að gefa eftir og hætta yfirgangi sínum hér. Ég tel því að það séu langmestar líkur til þess að þessi barátta standi fram í ágúst-septembermánuð, þó getur þetta auðvitað orðið lengra. En slagurinn stendur auðvitað um veiðarnar á þessum mánuðum. Er hægt að koma í veg fyrir þessar veiðar eða gera afköst breta mjög lítil?

N. sú, sem hér hefur verið vitnað til og hefur rætt um ráðstafanir af okkar hálfu varðandi okkar eigin fiskveiðar. hefur komið fram með tölur í þessum efnum. Hún segir að hún gangi út frá því að það verði að skera niður aflamagn íslendinga um 80–90 þús tonn af þorski vegna þess að bretar og aðrir útlendingar muni á þessum tíma taka hér í kringum 100 þús. tonn af þorski. Og þessi n. segir: Þessi niðurskurður á alla íslendinga þýðir í beinu útflutningsverði 8 500 millj. kr., sem okkur er svo sagt að megi margfalda með ca. fjórum til þess að fá út þjóðartekjur, af því að hér er auðvitað um að ræða útflutningstekjur sem leggja grundvöll að myndun þjóðartekna á öðrum sviðum. Mér er því ekki um neitt smáræði að tefla hjá okkur, hvort við getum komið þessum veiðum breta niður um helming eða ekki.

Auðvitað er það hreinn barnaskapur að segja á þessu stigi að við eigum að hika við að bæta í gæsluna tveimur þremur togatrum sem er nú verið að tala um hvort sem er að leggja um lengri eða skemmri tíma af því að það sé ekki til fiskur í sjónum handa þeim. Þá er vitanlega ekkert vit í því að draga það við sig eða vera að setja það í n. til athugunar hvort við eigum að bæta tveimur eða þremur slíkum skipum í gæsluflotann. Og auðvitað eigum við a.m.k. að taka á leigu hraðskreitt skip sem kæmi sér vel yfir sumarmánuðina.

Vangaveltur af því tagi sem komu fram hjá hæstv. forsrh., ef þær eru ekki til þess að skaða okkar málstað þegar þetta verður flutt bretum og öðrum, að forsrh. á Íslandi hiki við það hvort eigi að bæta togurum í gæsluskipaflotann, hann sé alls ekki sannfærður um að við eigum að útvega okkur verulega ganggott skip, þetta saki ekki mjög mikið vegna þess að við séum bráðum búnir að sigra, — hvað getur skaðað íslenskan málstað ef það er ekki málflutningur af því tagi? Og auðvitað skaðar það stöðu okkar í þessu máli ef ríkisstj. sýnir þá linkind gagnvart aukinni ásókn breta og hættuleik þeirra á miðunum, að hún gerir blátt áfram ekki neitt. Þá er hún að bjóða hættunni heim.

Svo er alltaf þetta eilífa, þetta algenga, sem er á allra lægsta plani sem menn geta gripið til, þ.e. þegar þeir eru komnir í algjör vandræði með eigin málstað og geta ekki varið hann með nokkrum hætti, þá er að grípa til þess að segja: Ja, gerðir þú ekki einhvern tíma eitthvað svipað? Varst þú ekki einhvern tíma í ríkisstj., og hvað gerðuð þið þá? Hæstv. forsrh. vék sér þannig undan, þegar hann fann að hann var gjörsamlega innilokaður og fór að bera saman gjörsamlega öðruvísi kringumstæður en þær sem við stöndum frammi fyrir nú. Það veit hann mæta vel. Hann veit að í landhelgisdeilunni um útfærsluna í 50 mílur var ekki um að ræða nein meiri háttar átöl sem kölluðu á meiri algerðir en þá var greipið til fyrstu mánuðina, eins og verða vill. Síðan kom Vestmannaeyjagosið í janúarmánuði og þá féll niður öll teljandi gæsla hjá okkur og bretar léku hér lausum hala, af því að þá er talið að við hefðum í öðru að snúast. Og þegar leið hins vegar fram á sumarið, þá fórum við að herða á og þá kom að því að íslenska ríkisstj. samþykkti, öfugt við það sem menn hafa verið að klifa á hér hver á fætur öðrum. Þá samþykkti hún 11. sept. 1973 að tilkynna NATO að ef herskipin yrðu ekki farin út úr landhelginni, þá mundum við taka til endurskoðunar afstöðu okkar til þáttölu í bandalaginu. Um þetta var gerð samþykkt í ríkisstj. Það var í kjölfar þessara samþykktar sem það gerist að bretar tóku herskipin út fyrir. Þeir gáfust upp og buðu forsrh. okkar til London með þeim afleiðingum sem allir þekkja. Svo þarf ekki að rekja þá sögu lengra. En nú er hins vegar um það að ræða að við erum að gera tilraun til þess að verja þann fiskafla sem við þurfum jafnmikið á að halda og raun er á, þar sem við verðum annars að hætta að stunda atvinnu sjálfir.

Það er svo út af fyrir sig broslegt, — já hæstv. forseti, ég skal ljúka máli mínu með örfáum orðum, en aðeins benda á það, að það er út af fyrir sig bæði broslegt og grátlegt þegar hæstv. forsrh. fer svo að afsaka aðgeraleysið frá sinni hálfu með því að þessu sé nú eiginlega öllu að verða lokið, við séum að ná sigri senna á þessu sumri. En hann er nýlega kominn frá því að halda uppi málflutningi um að best hefði verið að semja við breta til tveggja ára. Nei ég vil vænta þess að hæstv. ríkisstj. sjái að málflutningur af þessu tagi getur ekki staðist og hlýtur að þýða fordæmingu allra landmanna og því á ríkisstj. að taka sig á og taka upp heiðarlegt samstarf við stjórnarandstöðuna um það hvað gera á í málinu.