15.03.1976
Neðri deild: 76. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2545 í B-deild Alþingistíðinda. (2111)

Umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Virðulegi forseti. Það er misskilningur hjá hæstv. forsrh. að ég telji það litlu máli skipta að bæta við einum togara og leigja flugvél. Ég tel það vera lítið miðað við það sem hefði þurft að gera og þurfi nú að gera.

Það er algjör rangtúlkun hjá hv. 5. þm. Vestf. að ég telji þýðingarlaust að bæta við skipum. Ég sagði mjög skýrt að ég teldi lífsnauðsynlegt að bæta við skipum, bæði til að hafa til vara og til að auka gæsluflotann. Við getum haft mismunandi skoðanir á því hvers konar skip sé hentugast og hagkvæmast fyrir okkur að útvega.

Ég gagnrýndi það harðlega að Landhelgisgæsla og ríkisstj. skuli ekki hafa fyrirliggjandi áætlanir til að mæta mismunandi aðstæðum og að það skuli nú þurfa að líða margir dagar þannig að „um málið sé fjallað“, svo ég noti orð hæstv. forsrh., og menn séu „að gera sér grein fyrir því.“

Alvarlegast af því, sem hæstv. ráðh. sagði, var þó ásökun hans á hendur stjórnarandstöðunni fyrir ábyrgðarlausar umr., og hann lét í ljós að það væri ekki viðeigandi að ræða þessi mál hér á Alþ. Ég vænti þess að hæstv. forsrh. geri sér grein fyrir því hvaða braut hann er að fara inn á með því að láta í ljós slíkar skoðanir. Það tíðkaðist hjá hernaðarþjóðum, sem lenda í stríði að lýsa yfir styrjaldarástandi sem hefur í för með sér takmörkun á málfrelsi og takmörkun á því hvað þing fái að ræða um fyrir opnum tjöldum. Ef menn ætla í sambandi við landhelgismálið að takmarka hvað Alþ. megi tala um, þá er það alvarlegt mál, og það fylgir e.t.v. ekki langt á eftir að takmarka hvað blöðin megi tala um og hvað megi tala um í sjónvarpi. Það sem stjórnarandstaðan hefur rætt um, eru mál sem hvert einasta mannsbarn ræðir um við sina nánustu dagsdaglega í landinu. Ef ráðh. heldur að eitthvað af því séu stórtíðindi fyrir breta, þá gerir hann of lítið úr þeirri upplýsingaþjónustu sem þeir ábyggilega hafa.

Hæstv. forsrh. lýsir ábyrgð á hendur stjórnarandstöðunni fyrir ábyrgðarlausar umr. að gefnu þessu tilefni. Nú vil ég spyrja hæstv. forsrh.: Ætlar hann að lýsa ábyrgð á hendur hæstv. dómsmrh. fyrir ábyrgðarlaust framferði þegar hann gefur út opinbera fréttatilkynningu með miklu nánari tilgreiningu um það hvað gera skuli, heldur en við höfum gert okkur seka um?

Ætlar hæstv. forsrh. að lýsa ábyrgð á hendur hæstv. utanrrh. fyrir ábyrgðarlaust framferði, því að við lesum það í blöðunum að hann sé búinn að fela sendiherra okkar í Washington að hafa samband við ráðamenn í utanrrn. um útvegun á tilgreindri tegund skipa, á sama tíma og hæstv. forsrh. er enn þá að gera sér grein fyrir málinu og fjalla um það hér heima?

Ætlar hæstv. forsrh. að lýsa ábyrgð á hendur skipherra Þórs og öðrum skipherrum sem hafa rætt þessi mál opinskátt í fjölmiðlum?

Ætlar hæstv. forsrh. að lýsa ábyrgð fyrir ábyrgðarleysi á hendur íslenskum fjölmiðlum sem fjalla opinskátt um þessi mál?

Það er ekki svo mikið unnið í þeim n. sem rætt er um, þingnefndum og öðrum, í sambandi við þessi mál, að hægt sé að vísa til þeirra og óska eftir því að þm. ræði ekki málið. Þar að auki eru ekki nema fáir þm. í þessum n., og það er ekki hægt að svipta hina málfrelsi um þessi mál af þeim sökum.

Ég vil því vísa þessari yfirlýsingu hæstv. forsrh. algjörlega frá mér og tel að hér hafi ekki komið neitt fram sem geti skaðað hagsmuni Íslands hið minnsta, miðað við hversu frjálsar umr. fara fram um þetta mál og hversu auðveld öll upplýsingasöfnun er um það.