15.03.1976
Neðri deild: 76. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2547 í B-deild Alþingistíðinda. (2113)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. — Ég vil taka það fram að ég áskil mér rétt til þess að svara fullum hálsi, þegar stjórnarandstaðan notar þetta mál til sérstakrar gagnrýni á hendur ríkisstj., og flytja þau rök sem eru til staðar sem andsvar við þeirri gagnrýni sem hér er flutt. Og sannast best að segja finnst mér stjórnarandstaðan hafa kippst töluvert við. Hún talar um eflingu landhelgisgæslunnar. Um það eru allir þm. sammála.

En hins vegar er stjórnarandstaðan innbyrðis engan veginn sammála um til hvaða úrræða skuli gripið. Niðurstaða mín er sú að við eigum innbyrðis að reyna að samræma þessi sjónarmið. Lúðvík Jósepsson nefndi að hann hefði flutt till. í landhelgisnefnd um að bætt yrði 2–3 togurum í landhelgisgæsluna. Það voru engar sérstakar undirtektir undir þá till. í landhelgisnefnd. Það kom til greina e.t.v. að bæta við einum slíkum togara til viðbótar. Það er þó vissum annmörkum háð, t.d. þeim, að þótt þessir togarar séu sterkir að byggingarlagi að vissu marki, þá eru þeir ekki útbúnir þeim hólfum sem jafnvel elstu varðskip okkar eru. Margs þarf því að gæta áður en við setjum skip í slíka baráttu sem landhelgisgæsluskipin eru sett í. Við berum ábyrgð á lífi og limum áhafnarinnar, og ég vil gjarnan liggja undir ámæli fyrir linkind í landhelgismálinu eða varðandi eflingu landhelgisgæslunnar eða varðandi það að herða átökin á miðunum að fyrra bragði af okkar hálfu, ef í því ámæli felst að ég hef það að markmiði að vernda líf og limi áhafnanna á varðskipunum. Ég veit að við höfum öll þetta í huga, og ég segi þessi orð ekki til þess að ætla öðrum þm. annað en að þetta sé líka efst í þeirra huga.

Það var athyglisvert að hv. þm. Lúðvík Jósepsson vitnaði í niðurstöðu nefndar sem hefur fjallað um takmörkun fiskveiða eða réttara sagt fjallað um nýtingu fiskimiða, en sú n. hefur gert því skóna að útlendingar gætu tekið allt að því 100 þús. tonn af þorski á ári hverju af Íslandsmiðum. Nú höfum við íslendingar ekki samið við útlendinga um veiðar, eins og málum er nú komið, nema held ég, um 6500 tonn og ekki boðið nema 8000 tonn til viðbótar. Það þýðir að samkv. þessu gerir hv. þm. sjálfur því skóna að bretum takist að veiða í óleyfi yfir 35 þús. tonn af þorski á ári hverju. Þá mætti ætla að hann ætti e.t.v. eftir að gerast formælandi þess að samið yrði við breta um eitthvað minna aflamagn. Látum það liggja á milli hluta og eins hitt, þótt hann tíundaði hvers vegna öðru máli hefði gegnt um eflingu landhelgisgæslunnar í hans eigin stjórnartíð en núna. Skýringin var blátt åfram sú að sögn hv. þm. að það voru engir meiri háttar árekstrar í sambandi við gæslu 50 mílna fiskveiðilögsögunnar fyrst framan af, síðan kom Vestmannaeyjagosið o.s.frv. Ég dreg þá ályktun af þessu að hann vilji meina að 50 mílna fiskveiðilögsagan hafi alls ekki verið virk og kemur það úr hörðustu átt.

Varðandi þær fsp., sem hv. þm. Benedikt Gröndal varpaði til mín um hvað væri ábyrgðarleysi í sambandi við málflutning stjórnarandstöðunnar og stjórnarliðs í sambandi við landhelgismálið, þá vil ég aðeins taka það fram, að ég tók skýrt fram í ræðu minni að ég teldi að þjóð og þing ættu skilyrðislausan rétt á því að gefnar væru upplýsingar og hér færu fram opnar umræður um ástand og horfur í landhelgismálinu og hvaða úrræði væru þar til staðar, að svo miklu leyti að ekki gagnaði andstæðingum. En ég tel það hins vegar ábyrgðarleysi að efna til umr. hér hvað eftir annað af tilefni sem að vísu eru alvarleg, en engum á í raun og veru að koma á óvart, miðað við fyrri reynslu, sérstaklega þar sem hv. þm. hafa ekkert nýtt lagt til málanna. Og það er e.t.v. þetta sem veldur ákveðnum vonbrigðum hjá almenningi og raunar hér innan þings og meðal starfsmanna landhelgisgæslunnar. Við hljótum að gera okkur ljóst, að þótt við leitum allra ráða — og það sé sjálfsagt — til eflingar landhelgisgæslunnar, þá skiptir öllu máli að við tókum ákvarðanir á grundvelli nytsemi, en tökum ekki ákvarðanir bara til að gera eitthvað, ekki bara til. að veifa röngu tré fremur en engu. Ef við miðum við nytsemi aðgerðanna, þá erum við á réttri leið. En ef við erum bara að gera ráðstafanir út í bláinn, þá völdum við vonbrigðum og eigum enga virðingu skilið.