16.03.1976
Sameinað þing: 64. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2572 í B-deild Alþingistíðinda. (2136)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég veitti því athygli að hæstv. ráðh. greindi frá því að enn stæði yfir sú endurskoðun á kostnaðaráætlun varðandi byggingu væntanlegrar járnblendiverksmiðju sem hér hefur áður verið skýrt frá. En ég heyrði ekki að hann svaraði því neinu hvort þetta mál yrði lagt fyrir Alþ. á nýjan leik þegar þessar endurskoðuðu áætlanir lægju fyrir. Þegar mál þetta var rætt fyrr á þessu þingi lagði ég og ég hygg fleiri alþm. áherslu á að það væri eðlilegt, eins og komið væri málum, að allar áætlanir varðandi byggingu þessarar væntanlegu verksmiðju í Hvalfirði og eins áætlanir varðandi rekstur verksmiðjunnar yrðu teknar upp hér á Alþ. að nýju til þess að Alþ. gæfist kostur á því að segja til um hvort það vildi fallast á að halda þessari mannvirkjagerð áfram, þar sem allar líkur benda til þess að forsendur hafi gjörbreyst frá því sem var þegar ákvarðanir voru teknar hér um að ráðast í verksmiðjubygginguna Ég vil því endurnýja fsp. til hæstv. ráðh. um það, hvort hann vilji ekki gefa yfirlýsingu um að þegar þessari endurskoðun lýkur verði allar upplýsingar um málið lagðar fram á Alþ., skýrsla gefin hér um stöðu málsins og fyrirætlanir af hálfu ríkisstj., og hvort hann geti ekki fallist á að eðlilegt sé, ef forsendur hafa raskast í grundvallaratriðum varðandi stofnkostnað og rekstraráætlun, að þá sé eðlilegt að Alþ. taki málið í sínar hendur á nýjan leik og segi til um það hvort rétt sé að halda verkinu áfram eða ekki. Ég tel mjög hæpið að standa þannig að málum að sú stjórn, sem kosin hefur verið fyrir þetta fyrirtæki, taki þessar ákvarðanir í krafti fyrri samþykkta Alþingis sem byggðar voru þar á allt öðrum forsendum en sennilega koma til með að liggja fyrir. Þetta finnst mér eitt höfuðatriði þessa máls, sem ég vil leggja áherslu á, að fá skýr svör um hvort við eigum von á því að þessi endurskoðun verði kynnt og rædd hér á Alþ. og þau nýju viðhorf sem skapast hafa og hvort ekki þyki ástæða til þess að fá álit Alþ. á nýjan leik um það hvort áfram skuli halda eða ekki.

Ég ræði ekki um þann hluta af þessu máli sem hér hefur nú aðallega verið ræddur, það vandræðafjármálaástand sem upp hefur komið í sambandi við greiðsluþrot verktaka í sambandi við þetta fyrirtæki, vil þó aðeins segja um það mál, að ég tel að það sé afar hæpið fyrir ríkisfyrirtæki eða fyrirtæki, sem ríkið á meiri hl. í, að skjóta sér undan því að sjá til þess að þeir, sem raunverulega hafa unnið verkið og unnið það gallalaust og svikalaust, — ef svo er, þá tel ég mjög hæpið að ríkissjóður geti skotið sér undan því eða fyrirtækið sem slíkt að greiða slíka reikninga, jafnvel þó að komi í ljós að um gjaldþrot kunni að vera að ræða hjá verktaka. En auðvitað kemur ekki til greina að greiða slíka reikninga af hálfu ríkisins fyrr en fullséð er um það að verktakinn hafi staðið við allar sínar skyldur.

Ég vil aðeins að þetta komi fram sem mín skoðun. Ég tel að það hvíli á ríkinu viss siðferðileg skylda að sjá um að þeir, sem þarna hafa unnið, fái sínar greiðslur. En á hitt legg ég höfuðáherslu, að fá hér fram skýrar yfirlýsingar frá hæstv. ráðh. um hvernig hann hugsar sér að áfram verði staðið að hugsanlegum framkvæmdum í sambandi við þessa verksmiðjubyggingu.