16.03.1976
Sameinað þing: 64. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2573 í B-deild Alþingistíðinda. (2137)

Umræður utan dagskrár

Jón Árnason:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð um þetta mál sem hv. 5. þm. Vesturl. hefur gert hér að umræðuefni utan dagskrár. Hér er um að ræða á hvaða hátt eða hvort ríkisstj. eða Járnblendifélagið geti haft afskipti af og beitt sér fyrir að greiða þær vanskilaskuldir, svo sem vinnulaun verkamanna, vörubifreiðaakstur, vinnuvélanotkun o.fl., sem verktaki, er tók að sér byrjunarframkvæmdir með byggingu járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, er í vanskilum gagnvart umræddum aðilum. Við mig hafa rætt sumir af þeim sem hér eiga hlut að máli og borið sig illa yfir hlut sínum. Eins og komið hefur fram í þessum umr. liggja ekki fyrir tæmandi upplýsingar um hvað hér er um stóra fjárupphæð að ræða sem verktaki á vangreidda, en fullvíst má telja að hér sé um verulegar fjárupphæðir að ræða. Að vísu munu skuldir verktaka hvað snertir laun verkamanna, þegar frá eru teknar orlofsgreiðslur og greiðslur vegna lífeyristrygginga, — en þar mun vera um stórar upphæðir að ræða, — vinnulaunin sjálf, sem vangreidd eru, — það mun hafa verið bara ein vika og talið er að það séu um 700 þús. kr. sem þar er um að ræða. Hins vegar er vitað að það eru stórar upphæðir í sambandi við orlofsgreiðslur og lífeyristryggingagreiðslur sem skipta millj. kr. sem ern í vanskilum.

Það er talið eftir þeim upplýsingum, sem ég hef getað aflað mér, að skuldir við vörubifreiðaeigendur séu tæplega 3 millj. kr. Þar er aðeins um eina viku að ræða, vegna þess að þar var greiðslum þannig komið fyrir samkv. sérstöku samkomulagi, sem bifreiðastjórar gerðu við verktaka, að það var ávísað beint á Járnblendifélagið, það greiddi bifreiðastjórunum og það gekk þar til seinustu vikuna, sem var unnið, en þá hafði, eins og hefur komið fram í þessum umr., Járnblendifélagið talið sig vera búið að greiða að fullu það sem því bar í sambandi við þessa framkvæmd Þá hef ég aflað mér upplýsinga um hvað skuldakröfur vinnuvélaeigenda munu vera háar. Eftir því sem ég hef getað komist næst á þeim efnum munu það vera um 12 millj. kr., eitthvað nálægt því. Síðan eru að sjálfsögðu ýmsar skuldir við þjónustuaðila sem ég hef ekki getað aflað mér upplýsinga um hvað háum upphæðum nemi, en þar er ábyggilega um upphæðir að ræða sem skipta mörgum millj. kr.

Af því, sem ég hef nú tekið fram, er augljóst mál að hér er um allmikinn vanda að ræða til lausnar, hvernig sem með verður farið.

Eins og fram kom hjá hæstv. iðnrh. áðan hefur lögfræðingur verktaka nú lagt fram viðbótarkröfur um verulegar fjárupphæðir sem eru byggðar á þeim breytingum á verðlagi sem átt hafa sér stað á framkvæmdatímabilinu. Þar er ýmislegt sem gerst hefur á þessu tímabili sem talið er að þurfi og verði ekki komist hjá að viðurkenna. Það er t.d. í sambandi við vörugjaldið sem hefur lagst á alls konar rekstrarvörur og þjónustu, sem þessi maður hefur innt af hendi, þannig að það er talið a.m.k. af hans lögfræðingi og fleirum að Járnblendifélagið komist ekki hjá því að bæta við nokkurri upphæð þegar búið er að fara yfir þær kröfur sem þar liggja fyrir. En hvort þessar kröfur eiga rétt á sér eða ekki verður náttúrulega að svo komnu máli ekki fullyrt neitt um.

Hér hefur verið rætt um það að samkv. sérstökum lögum beri ríkissjóði að greiða verulegan hluta af þeim launakröfum sem um er að ræða hjá viðkomandi atvinnurekanda þegar svo stendur á að hann verður gjaldþrota. Nú liggur ekki fyrir í þessu efni í dag hvort sá verktaki sem hér um ræðir og á þessar vangreiðslur við ýmsa aðila, verður ekki talinn eiga fyrir skuldum og verði þess vegna gerður gjaldþrota. En ég verð að segja það, að með tilliti til þess hvernig ríkið stendur að þessum málum og fyrirtæki sem ríkið á meiri hl. í, Járnblendifélagið, þá finnst mér að þessir aðilar báðir eigi að beita sér fyrir því að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að reyna að rétta hlut þeirra manna sem hér eiga eftir að fá fullnægt kröfum sínum og greiðslu, bæði í sambandi við vinnulaun og aðra þjónustu. Ég hafði samband við menn úr stjórn Járnblendifélagsins í gær, og eftir þeim upplýsingum, sem ég komst þar að, töldu þeir ekki óhugsandi að í sambandi við þær kröfur, sem nú hafa verið lagðar fram, verði um einhverjar upphæðir að ræða sem Járnblendifélagið mun eiga eftir að greiða til verktaka. Ef slíkar upphæðir koma, þá tel ég að eigi að nota þær fyrst og fremst til að gera upp þessar skuldir. Ég tel það sé eðlilegra að Járnblendifélagið geri það heldur en ríkisstj. eða ríkissjóður, það yfirtaki þessar kröfur af kröfuhöfum og geri það sem í þess valdi stendur til að rétta hlut þessara manna, fyrst og fremst með þeim fjárupphæðum sem það kemur til með óhjákvæmilega að þurfa að inna af hendi til verktaka í sambandi við þetta verk. En þar fyrir utan finnst mér ekki óeðlilegt að Járnblendifélagið gengi lengra í þessum efnum.