16.03.1976
Sameinað þing: 64. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2575 í B-deild Alþingistíðinda. (2138)

Umræður utan dagskrár

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans. En ekki er ég vel ánægður með þau. Litla huggun held ég að þeir, sem hér eiga hlut að máli, finni í orðum hæstv. ráðh. Mér sýnist m.ö.o. að viðbrögð af hálfu hæstv. ríkisstj. séu hvergi nærri í samræmi við þá ábyrgð, sem ég hika ekki við að fullyrða að hún beri á þessu öllu saman.

Hæstv. ráðh. minntist á lög sem snerta þetta mál. Það eru „lög um ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot“ frá 21. mars 1974. Ég er hér með eintak af þeim. Þessi lög voru stórt skref í áttina til þess að tryggja réttindi launþega og voru sett að frumkvæði þáv. hæstv. iðnrh„ Magnúsar Kjartanssonar. Hins vegar held ég, því miður, að þau nái ekki til allra þeirra aðila sem hér eiga hlut að máli. Eða telur hæstv. iðnrh. að 1. gr laganna, svo hljóðandi: „Ríkið Ábyrgist samkv lögum þessum greiðslur álaunakröfum á hendur vinnuveitenda sem úrskurðarður hefur verið gjaldþrota.“ — Telur hann að þetta nái til vinnuvélaeigenda og vörubílstjóra?

Það er rétt sem hv. þm. Jón Árnason segir, að ekkert liggur fyrir um það að hægt verði að beita þessum lögum vegna þess að viðkomandi verktaki verði lýstur gjaldþrota. En hv. þm. Jón Árnason nefndi að hann hefði fengið þau svör hjá stjórn járnblendifélagsins varðandi þá kröfu, sem nýlega hefur komið fram frá verktakanum, að það kunni að vera hægt af hálfu félagsins að leggja fram eitthvert fé. Ég tek undir það með hv. þm. að það skiptir miklu máli að það fé fari ekki í hendur verktaka heldur í hendur þess fólks sem hér á hlut að mál. Þess fólks sem verktakinn skuldar stórar upphæðir.

Athyglisverðast að mínum dómi í ræðu hæstv. ráðh. áðan var að hann minntist ekki einu orði á það sem mér var bent á áðan, eftir að ég flutti fyrri ræðu mína, að stendur á forsíðu Tímans í morgun, með leyfi hæstv. forseta. Þetta stendur í Tímanum:

Það virðist vera ákaflega mikil bölsýni ríkjandi hjá forráðamönnum Union Carbide um áframhaldandi þátttöku í járnblendiverksmiðjunni og þeir eru mjög hikandi varðandi frekari framkvæmdir við verksmiðjuna, sagði Steingrímur Hermannsson framkvæmdastjóri Rannsóknarráðs ríkisins sem jafnframt á sæti í stóriðjunefndinni, sem svo er kölluð.“

Og það er ekki nóg með þetta. Seinna segir:

„Steingrímur kvað skýrslu komna frá Union Carbide þar sem ástandið bæri málað dökkum litum. Hann sagði að Íslendingar teldu margt í skýrslunni ekki alls kostar rétt og því hefði verið ákveðið að afla upplýsinga annars staðar frá um markaðshorfur.“

En síðan segir: „Að sögn Steingríms verður endanlega úr því skorið á næsta fundi í stjórn járnblendiverksmiðjunnar hvort hætt verði við að reisa verksmiðjuna, en eins og fram kemur hér að framan virðast nokkrar líkur á því að Union Carbide hætti þátttöku í fyrirtækinu.“

Hæstv. ráðh. minntist ekki á þessi tíðindi í ræðu sinni. Þó hygg ég að þetta verði að teljast stórtíðindi varðandi þetta mikla og mjög svo prísaða, mjög svo lofsungna mál.