16.03.1976
Sameinað þing: 64. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2579 í B-deild Alþingistíðinda. (2143)

312. mál, nýjungar í húshitunarmálum

iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Áður en vikið er að efni spurningarinnar er rétt að fara örfáum orðum um aðdraganda þessa máls.

Að beiðni Iðnþróunarstofnunar Íslands skipaði iðnrn. í byrjun sept. s.l. 3 manna n. til að hafa yfirumsjón með prófunum og athugunum á húshitunarkatli sem hannaður er af Guðjóni Ormssyni rafvirkjameistara. Í n. eiga sæti Gunnar Guttormsson fulltrúi, Gísli Jónsson prófessor, Leó Jónsson véltæknifræðingur. Ketill þessi er gerður bæði fyrir olíu og rafhitun. Hefur Guðjón um nokkurra ára skeið unnið að því að útfæra hugmynd sína um nýtingu þessara tveggja hitagjafa í einum og sama katlinum. Með því að koma rafhitara — eða rafhitaldi, það er nýyrði sem Gísli Jónsson prófessor notar um rafhitara — fyrir inni í olíukyntum katli telur Guðjón að nýta megi ódýra umframorku utan mesta álagstíma og þannig spara olíu á þeim svæðum sem ekki búa við hitaveitu og ekki hafa enn nægilega raforku til fullrar húshitunar með rafmagni.

Verkefni þeirrar n., sem rn. skipaði, var, eins og áður segir, að hafa forgang um prófanir á þessum katli og að meta gagnsemi hans m.a. með tillíti til hugsanlegs olíusparnaðar. N. hefur nú lokið umræddum prófunum og mun bráðlega skila rn. skýrslu um niðurstöður sínar. Þar sem þess er skammt að bíða að heildarniðurstöður þessara athugana liggi fyrir verður hér aðeins drepið á nokkur atriði sem fram munu koma í skýrslu nefndarinnar.

Um 1. lið fsp., hverjar séu niðurstöður athugana sem gerðar hafa verið á vegum iðnrn. á hagkvæmni nýrrar gerðar af miðstöðvarkatli — svonefndum „Nýtli“ — vil ég segja þetta: N. telur að sú hugmynd að byggja rafhitald inn í olíukyntan ketil sé ekki ný, allt frá því að möguleikar opnuðust til rafhitunar húsa hérlendis hafi nokkuð verið að því gert að breyta eldri kötlum á þann veg að setja í þá rafhitald og nota þannig rafmagn í stað olíu sem hitagjafa við venjuleg miðstöðvarkerfi. Það, sem hins vegar megi telja nýstárlegt og um leið athyglisvert við hugmynd Guðjóns Ormssonar, sé að nýta jöfnum höndum olíu og rafhitun við sama ketil. Í katli sínum hefur Guðjón gert þessa hugmynd að veruleika með því að hanna sjálfvirkan stjórnbúnað sem sér um að sá hitagjafi sé í sambandi sem hagkvæmari er miðað við ákveðnar gefnar forsendur.

Þá telur n. rétt að geta þess, að samhliða nýting olíu og rafmagns til húshitunar þarf ekki að vera bundin með eina gerð katla eða sams konar rafhitald og Guðjón notaði í sínum katli. Mestu máli skiptir í þessu sambandi að notaður sé sá búnaður sem nýtir best varmann frá hitagjafanum. Við nýtnimælingar, sem gerðar voru á katli Guðjóns, reyndist nýtnin mjög góð. En þar sem nákvæmlega sambærilegar mælingar hafa ekki farið fram á öðrum kötlum er á þessu stigi ekki varlegt að fullyrða mikið um nýtni hans í samanburði við aðra katla sem hér eru í notkun. Á síðasta ári hefur verulegt átak verið gert í því að kanna nýtni og stilla húskyndingarkatla viða um land. Mæld hefur verið svonefnd brennslunýtni katlanna og þannig fylgst með hversu vel þeir nýta olíuna. Við lauslegan samanburð á nokkrum niðurstöðum þessara mælinga og sams konar mælinga, sem gerðar voru á katli Guðjóns, virðist brennslunýtni hans sambærileg því sem gerist best í öðrum kötlum.

2. liður fsp. er á þessa lund:

„Hefur einhver ákvörðun verið tekin um hvort og þá hvernig greitt yrði fyrir því að miðstöðvarkatlar af þessari gerð verði almennt teknir til notkunar á olíuhitunarsvæðum til þess að draga úr upphitunarkostnaði?“

Meðan heildarniðurstöður athugana n. liggja ekki fyrir er ekki hægt að gefa tæmandi svör við þeim atriðum sem hér er spurt um. Með tilliti til þess, sem sagt var um fyrri lið fsp., mun iðnrn. leggja skýrslu n. til grundvallar frekari könnun á hitunaraðferðinni án þess þó að taka í því sambandi afstöðu til ákveðinna gerða húshitunarkatla. Öll þessi atriði munu verða skoðuð, bæði í tengslum við það málefni, sem hér er spurt um, og aðra þætti orkumála.

Það er ástæða til að fagna því þegar einstaklingar eiga frumkvæði að tilraunum með nýjar húshitunaraðferðir, svo sem hér hefur átt sér stað. Iðnrn. hefur með stuðningi við þessa ákveðnu tilraun viljað fá hlutlaust mat á gagnsemi þess tækjabúnaðar sem hér um ræðir. Á grundvelli álitsgerðar n. mun rn. í samstarfi við aðra aðila taka ákvarðanir um frekari aðgerðir á þessu sviði.