17.03.1976
Efri deild: 78. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2616 í B-deild Alþingistíðinda. (2168)

198. mál, Búnaðarbanki Íslands

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 411 er frv. til l. um breyt. á l. um Búnaðarbanka Íslands, sem er heildarlöggjöf þeirrar stofnunar að öðru leyti en því er varðar Stofnlánadeild og veðdeild.

Fyrstu lög um Búnaðarbanka Íslands eru nr. 31 frá 14. júní 1929. Sú stofnun, Búnaðarbankinn, hefur starfað síðan og hefur farið vaxandi. svo sem kunnugt er. Lögum Búnaðarbankans var næst breytt með lögum nr. 15/1941 og eru núgildandi lög bankans að stofni til frá því ári. En lítils háttar breyting var gerð á lögunum 1962 með lögum nr. 75 frá 27. apríl.

Búnaðarbanki Íslands hefur, eins og ég gat um áðan, vaxið mjög á síðari árum og er nú orðinn annar stærsti banki landsins. Innlán bankans voru tæpir 10 milljarðar um síðustu áramót eða 9 milljarðar 925 millj. kr. Aukningin varð 2 milljarðar 360 millj. kr. eða um 32% og þar með mestur vöxtur bankans á einu ári bæði í krónum og hundraðshlutum. Þar með hefur vöxturinn orðið yfir 30% þriðja árið í röð. Er hér um að ræða talsvert meiri aukningu en búist var við, því að spáð var að aukningin mundi verða um 27% í bankakerfinu í heild.

Heildarinnlán viðskiptabankanna námu við áramótin 41.9 milljörðum kr., en meðalaukningin var 29% 1975. Hlutdeild Búnaðarbankans í heildarinnlánum viðskiptabankanna hefur aukist á 10 árum úr 18% í 23.2% á s.l. ári.

Heildarútlán Búnaðarbankans námu um síðustu áramót 8 milljörðum 922 millj. kr. Jukust þau um 2 milljarða 157 millj. kr. eða um 32%. Í þessari heildartölu eru endurseld lán Seðlabankans sem að langmestu leyti eru afurðalán landbúnaðarins svo og verðbréfakaup bankans vegna framkvæmdalána ríkisstj. Afar miklar breytingar hafa orðið á útlánaskiptingu síðustu árin, þar sem afurðalánin hafa aukist mjög verulega. Nema þau nú 1/3 af öllum útlánum bankans.

Til þess að sporna við taumlausri þenslu í efnahagsmálum átti bankinn aðild að sérstöku útlánatakmarki sem sett var í marsbyrjun og síðan framlengt tvívegis í lítt breyttri mynd til áramóta. Tókst bankanum að standa við þetta mark að fullu, enda voru afurðalán og lán til Framkvæmdasjóðs undanþegin útlánatakmörkunum. Í heild náðu viðskiptabankarnir verulegum árangri í þessum þætti peningamála.

Útlánaflokkun Búnaðarbanka Íslands sýnir að 6 milljarðar 775 millj. kr. eða 76% er lánað til atvinnuveganna, 1 milljarður 277 millj. kr. eða 14% til opinberra aðila, 920 millj. kr. eða 10% til einkaaðila. Af lánum til atvinnuveganna er hlutur landbúnaðarins langstærstur. Næstir koma iðnaður og síðan verslun.

Staða Búnaðarbanka Íslands við Seðlabanka Íslands á s.l. ári, lausafjárstaða bankans, var mjög góð allt árið og myndaðist aldrei yfirdráttarskuld eið Seðlabankann. Á áramótum var innistæða á viðskiptareikningi í Seðlabanka Íslands að upphæð 1 milljarður 37 millj. kr. Á bundnum reikningi í Seðlabankanum voru í árslok 1 milljarður 983 millj. kr. vegna ákvæða um 23% bindiskyldu innlána. Jókst þessi innstæða um 529 millj. kr. Endurkaup Seðlabankans voru á árinu 1975 2 milljarðar 810 millj. kr. Að mestu leyti er hér um að ræða afurðalán landbúnaðarins, en einnig að hluta afurðalán sjávarútvegsins og rekstrarlán til iðnaðarins. Af þessu er ljóst að inneignir í Seðlabankanum námu hærri fjárhæð en heildarendurkaup hans voru af Búnaðarbankanum. Rekstrarafkoma bankans var hagstæðari en nokkru sinni fyrr í sögu bankans, en tekjuafgangur til ráðstöfunar var 124 millj. kr. Heildarkostnaður við rekstur var 372.5 millj. kr. eða um 42% á móti 56% árið áður. Starfsmannafjöldi var 217, en var 211 árið áður. Er þá meðtalið starfslið Stofnlánadeildar landbúnaðarins og veðdeildar Búnaðarbankans.

Búnaðarbankinn rekur nú 15 útibú, 5 útibú í Reykjavík. Austurbæjarútibú við Hlemm er þeirra stærst með 1 milljarð og 90 millj. kr. innstæðu. Utan Reykjavíkur eru útibúin orðin 11. Frá þeim eru svo reknar afgreiðslur á 5 stöðum. Útibúið á Sauðárkróki er stærst utan Reykjavíkur með 780 millj. kr. innlán. Vöxtur útíbúanna hefur verið mjög mikill og eiga þau sinn stóra þátt í velgengni bankans, bæði að því er varðar innlánaaukningu og rekstrarafkomu. Á s.l. ári var innlánaaukning þeirra 40% og nema innlán í þeim um 4.4 milljörðum kr. Nýtt útibú bankans tók til starfa í nóv. s.l. í Vík í Mýrdal á grundvelli samnings við Sparisjóð Vestur-Skaftafellssýslu. Afgreiðsla frá hinu nýja útibúi er að Kirkjubæjarklaustri. Innlán útibúsins eru um 260 millj. um áramót. Í undirbúningi er stofnun nýs útibús í Garðabæ og standa vonir til að það geti tekið til starfa í júní.

Stofnlánadeild landbúnaðarins er helsti fjárfestingarsjóður þessarar atvinnugreinar og deild í Búnaðarbankanum. Heildarútlán deildarinnar í árslok voru 4 milljarðar 209 millj. kr. og jukust um 1214 millj. eða 41%. Lánveitingar á árinu námu 1385 millj. kr., sem er 31% aukning. Mestur hluti lánsveitinganna fór til ræktunarframkvæmda og útihúsabygginga, 738 millj. kr. til íbúðarhúsa var lánað 185 millj. kr., til vinnslustöðva 162 millj. kr., til dráttarvéla- og vinnuvélakaupa 154 millj. og til annarra framkvæmda 146 millj. Lánveitingar deildarinnar hafa stóraukist á liðnum árum og hefur geta deildarinnar til að lána út úr eigin sjóði minnkað vegna óhagstæðra lánskjara. Í þessu sambandi má geta þess að vextir og afborganir á útiánum deildarinnar námu 407 millj., en vaxta- og afborganabyrði hennar var 584 millj. Lánveitingar Stofnlánadeildarinnar hafa því í auknum mæli verið fjármagnaðar með nýjum lántökum, þannig að lántökur á liðnu ári voru 1460 millj. kr., 598 millj. kr. á næsta ári á undan. Ljóst er því að erfitt ástand er að skapast, en málefni deildarinnar er nú til sérstakrar athugunar hjá landbrn.

Veðdeild Búnaðarbankans hefur það verksvið að lána til jarðakaupa. Veitt voru 83 ný lán á árinu að upphæð 49 millj. kr., en árið áður 44 millj. kr. Lántökur deildarinnar voru 65 millj. kr. og þar af 50 millj. hjá Lífeyrissjóði bænda.

Þessi þáttur, sem ég hef nú greint frá, er í stuttu máli frásögn af þróun Búnaðarbanka Íslands eins og hún hefur verið og sérstaklega þó miðað við s.l. ár. Það sýnir að þessi stofnun er ört vaxandi og starfsemi hennar hefur verið með ágætum.

Ástæðan til þess að nú er verið að breyta lögum Búnaðarbanka Íslands er fyrst og fremst fólgin í því að það er verið að samræma þau lögum hinna ríkisbankanna. Nokkur umr. hefur verið um það og er langt frá því að frá því hafi verið horfið að setja ein lög um alla viðskiptabanka ríkisins. En það breytir engu þó að þessi lög verði sett því að þau mundu þá af sjálfu sér falla inn í það kerfi sem þá yrði myndað. Hins vegar ber brýna nauðsyn til að laga starfsemi Búnaðarbanka Íslands að starfsemi hinna bankanna og gera stöðu hans þannig að ekki verði hægt að líta á hann eins og annars flokks banka, því að það er langt frá því að svo sé þar sem hann er orðinn annar stærsti banki landsins, eins og ég hef nú þegar getið um.

Þá er og að geta þess að með þessu frv. er eitt af því, sem gert er ráð fyrir að breytt sé, að stjórn bankans verði skipuð á sama hátt og er um hina ríkisbankana, að aðalbankastjórar verði þrír í stað tveggja eins og nú er. Munu e.t.v. einhverjir halda því fram að óþarfi væri að gera þá breytingu. En svo er ekki, því að það er óeðlilegt að í svo stórri stofnun sem þessari séu ekki að jafnaði tveir menn til þess að taka ákvarðanir um það sem ákvarðanir þarf að taka um hverju sinni, en svo er ekki í Búnaðarbankanum því að auðvitað eiga bankastjórar þar eins og aðrir menn í þessu landi rétt á sínum fríum og fjarvistum og geta því ekki alltaf verið við látnir. Er því mjög óeðlilegt að það sé einn maður til ákvörðunar í veigamiklum atriðum eins og oft eiga sér stað þarna.

Annað atriði er svo það, sem kemur í framhaldi af þeirri lagasmíð sem hér er verið að gera, og það gera réttindi Búnaðarbanka Íslands til þess að selja gjaldeyri. Var upphaflega hugsað að geta þess sérstaklega í þessu lagafrv. að Búnaðarbankinn gæti verslað með gjaldeyri, en að athuguðu máli þótti ekki ástæða til þess vegna þess að 19. gr. seðlabankalaganna er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Rétt til að versla með erlendan gjaldeyri hafa auk Seðlabanka Íslands Landsbanki Íslands og Útvegsbanki Íslands. Heimilt er bankastjórn Seðlabankans að fengnu samþykki ráðh. að leyfa öðrum bönkum svo og póststjórninni að versla með gjaldeyri innan takmarka sem hún ákveður.“

Það má segja í sambandi við Landsbankann og Útvegsbankann, sem eru sérstaklega nefndir hér, að lög þeirra voru eldri en Seðlabankans og réttindi þeirra til gjaldeyrissölu voru komin til áður en lög um Seðlabankann voru sett. Þess vegna héldu þeir þessu ákvæði í sínum lögum. Hins vegar er alveg óþarfi að svo sé, þar sem hægt er — og mun verða gert í þessu tilfelli að taka upp samninga við Seðlabankann eftir að þetta frv. væri orðið að lögum, sem ég vona að verði fyrr en seinna, um að Búnaðarbanki Íslands versli með gjaldeyri eins og hinir bankarnir. Það er ósköp eðlilegt að svo verði því að Búnaðarbanki Íslands hefur í sínum viðskiptum mörg og stór fyrirtæki sem þurfa á gjaldeyrisverslun að halda, en verða að vera í öðrum bönkum með slík viðskipti. Það er óeðlilegt að svo sé og skapar bæði fyrirhöfn og margvíslega aðra erfiðleika að fyrirtæki geti ekki verið í einum og sama bankanum með öll sín viðskipti. Auk þess ber brýna nauðsyn til að Búnaðarbankinn, bæði vegna stærðar sinnar og vegna útibúanna, taki þátt í margs konar viðskiptum, t.d. þeirra staða þar sem hann hefur útibú og um er að ræða atvinnurekstur á sviði ekki bara landbúnaðar, heldur fiskveiða og iðnaðar. Það er því eðlilegt að hann geti greitt fyrir sínum fyrirtækjum að öllu leyti. Það getur hann ekki nema hann fái gjaldeyrisverslunina líka. Ber því brýna nauðsyn til að svo verði, og ég tel mig mega segja að allar líkur eru til að svo geti orðið þegar þessi lög eru komin í framkvæmd, að það muni nást samningar við Seðlabanka Íslands þar um.

Ég vil endurtaka það, að það er mikil nauðsyn á því að svo stór banki sem Búnaðarbankinn er hafi alhliða viðskiptamöguleika til þess að verða enn þá virkari þátttakandi í atvinnurekstrinum í landinu heldur en hann nú er. Það er vilji þeirra, sem stjórna Búnaðarbankanum, að svo verði. En hömlur eru á því að svo geti orðið meðan þetta er ekki komið í lag. Það var ekki heldur hægt að ætlast til þess að með slíkri breytingu væru ekki álíka margir bankastjórar að störfum í þessari stofnun og í öðrum bönkum, þar sem það mundi knýja enn þá meira á störf hinna sem fyrir eru nú ef það ætti að breytast. Hér er því verið að samræma lög Búnaðarbanka Íslands lögum hinna ríkisbankanna, stefna að því með þeirri breytingu að gera Búnaðarbanka Íslands virkari þátttakanda í atvinnu- og viðskiptalífi landsmanna heldur en nú og setja engar hömlur á það frekar en hjá öðrum bönkum að hann hafi alhliða viðskipti.

Stjórn Búnaðarbankans hefur frá upphafi verið góð og sterk, og svo mun verða áfram. Það er því ekki nema eðlilegt að þessi næststærsti banki Íslands sé enginn annars flokks banki, heldur starfi við hlið sinna samstarfsaðila, viðskiptabankanna, með fullum réttindum. Að því mun verða unnið eftir að þetta lagafrv. er orðið að lögum.

Ég leyfi mér að leggja til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn., og ég vona að það fái þar hina bestu fyrirgreiðslu.