04.11.1975
Sameinað þing: 11. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

290. mál, virkjunarrannsóknir á Fljótsdalsheiði

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram tvíliða fsp. til hæstv. iðnrh.

„1. Hvenær er niðurstaðna að vænta af rannsókn þeirri á virkjun Bessastaðaár, sem fram hefur farið, þannig að fullnaðarákvörðun um virkjun megi taka?

2. Er það rétt að Suisse Aluminium eða aðrir erlendir aðilar hafi átt einhverja aðild að rannsókninni eða eru uppi áform um slíka aðild hvað snertir frekari rannsókn eða framkvæmdir varðandi hugsanlega stórvirkjun þar eystra?“

Skv. upplýsingum frá í sumar, sem við þm. Austurl. fengum þá á sérstökum fundi, var okkur tjáð að niðurstaðna um Bessastaðaárvirkjun væri að vænta í sept. og jafnframt var okkur sagt þá að þá benti ekkert til þess að fyrri vonir um þessa virkjun gætu ekki staðist. Því tel ég rétt að fá um þetta sem gleggstar upplýsingar nú og um leið fá hæstv. ráðh. til að gefa þau svör sem nú er mögulegt að gefa um þessar rannsóknir og þá alveg sérstaklega um það hvenær megi vænta fullnaðarákvörðunar um þessa virkjun.

Það er víða þrýst á í orkumálum nú, en við, sem ekki getum á neitt annað treyst en rafmagn til t. d. upphitunar húsa okkar, hljótum að vera þar óþreyjufyllstir allra að vita sem gleggst hvers þar megi vænta. Enn er spáð vaxandi kyndikostnaði íbúðarhúsnæðis okkar og því fastara verður knúið á um rafhitun húsa, fyrir utan þá þjóðhagslegu nauðsyn margumtöluðu vegna gjaldeyriseyðslu sem hér er um að ræða.

Enda þótt um rannsóknir þessar og framkvæmdir þar hafi orðið mikil skrif og um margt mikil óánægja eystra, þá snertir það ekki áhugann á því að sem best megi til takast um hæfilega virkjun þar eystra til hagsbóta fyrir landshlutann í heild. Þess er vænst að sem fyrst megi taka hér um fullnaðarákvörðun. Og í ljósi þess hve hæstv. ráðh. brá fljótt og vel við á s. l. þingi varðandi heildarlög, þá treysta menn nú enn frekar á skjót viðbrögð hans nú þegar fullnaðarrannsókn liggur fyrir sem byggja megi á.

Síðari liðurinn er fram borinn að gefnu tilefni. Hæstv. ráðh. og raunar þm. allir vita hug minn til stórvirkjunaráforma eystra í þágu útlendinga eða erlendra stórfyrirtækja. Á s. l. vori var samþ. till. frá hv. þm. Sverri Hermannssyni um rannsókn á Fljótsdalsvirkjun og hafði þá sá annmarki, sem ég taldi á upphaflegri till. hans, verið sniðinn af, þ. e. að rannsóknirnar skyldu miðaðar við væntanlega stóriðju á Reyðarfirði. En í skýrslu iðnþróunarnefndar er þessi hugmynd enn við góða heilsu og beinlínis ráð fyrir henni gert. En aðaltilefnið þó til þess að ég taldi rétt að fá skýr og afdráttarlaus svör hæstv. ráðh. hér um er fréttir s. l. sumars, óvefengdar enn, um ferðir sendimanna Suisse Auminium upp á Fljótsdalsheiði og jafnvel um þegar tilbúna nefndarskipan, þar sem fulltrúar innlenda rannsóknaaðilans og hinir erlendu fulltrúa auðhringsins ættu að kanna öll þessi mál frekar, hvað svo sem í því kann að vera hæft. Ég játa það að ég kann að vera hér með óþarfa tortryggni vegna hinnar eindregnu andstöðu minnar við öll þessi áform. En víst er um það að margir eru þeir sem vilja fá hér um þau svör ein sem ég kýs, þ. e. að allt sé þetta tilhæfulaust, auðvitað ekki ferðalag þessara sendimanna, það ferðalag var staðreynd, það gat verið skemmtiferð ein og það er e. t. v. ekkert á döfinni varðandi væntanlega aðild Suisse Aluminium eða annarra erlendra aðila að þessum rannsóknum eða þeim sem í framhaldi af áður samþ. þál. frá s. l. vori kynnu að fara fram. Alger neitun hæstv. ráðh. væri kærkomin fleirum en mér, því að um þetta ganga miklar sögur sem rétt er þá að kveða niður að fullu.