17.03.1976
Efri deild: 78. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2623 í B-deild Alþingistíðinda. (2170)

198. mál, Búnaðarbanki Íslands

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Öfugt við það, sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, reiknaði ég með því eðli málsins samkv. að hæstv. landbrh. mundi leggja til að vísa þessu máli til landbn. Mér sýnist 8. gr. taka af öll tvímæli um það að hér er um að ræða fyrst og fremst landbúnaðarmál, úr því að yfirstjórn bankans á að vera í höndum þess ráðh. sem fer með landbúnaðarmál. Þar af leiðandi hefði landbn. vitanlega átt um þetta mál að fjalla. En ég sakna þess út af fyrir sig ekki neitt að fá ekki tækifæri til að fjalla um þetta frv.

Það er rétt að það er lengi búið að bíða eftir þessu frv. af sumum. Strax haustið 1975 var það boðað í bankaráði Búnaðarbankans að þetta frv. væri alveg á næstu grösum. Það frv. átti reyndar að fela í sér, að því er ég best vissi, sérstök ákvæði um veðdeild Búnaðarbankans sem verður gjaldþrota á þessu. ári ef ekki verður þar eitthvert verulegt átak gert og þarf vissulega að að hyggja. Annað aðalatriði þess lagafrv., sem þá var verið að segja okkur frá, var í því fólgið að bankinn fengi gjaldeyrisréttindi. Það virðist nú standa til bóta, eftir því sem hæstv. ráðh. sagði áðan. Það á bara að gerast með heimild ráðh. og samkv. þeirri heimild sem fólgin er í 19. gr. seðlabankalaganna, þannig að gjaldeyririnn á víst að koma þótt ekki sé hann neins staðar hér á pappír.

Það er nú eiginlega um margt eðlilegt að ég hyggi nánar að þessu máli, því að nú um tíma hef ég setið í bankaráði þessa banka og ýmislegt hefur þar upp komið.

Ég get fyllilega tekið undir það sem hæstv. ráðh. sagði áðan um hag og afkomu Búnaðarbankans. Hún er góð og bankanum virðist um margt vel stjórnað.

Búnaðarbankinn hefur nú fyrir skömmu orðið allmikill blaðamatur. Ég skal ekki fara út í neinar umr. um það mál, það er ekki viðkunnanlegt hér. Og það er nú svo um það mál eins og mörg fleiri að þar er oft úlfaldi úr mýflugu gerður. En þrátt fyrir allt hefur þó innan bankaráðsins komið upp spurning í tengslum við það mál og ef nánar er þar að gáð, spurningin um yfirstjórn bankans, hver endanlega segir til um og tekur ákvarðanir varðandi bankann, hvort það eru bankastjórarnir eða bankaráðið, sú þingkjörna stjórn sem eðlilegt og sjálfsagt er að hafi með höndum það eftirlit og aðhald sem skyldugt ætti að vera og til viðbótar ætti í raun og veru að hafa meira valdsvið en raun ber vitni. Þar er Búnaðarbankinn vitanlega engin undantekning frá öðrum bönkum. Ég hygg að flestir bankarnir séu þannig, að bankastjórarnir ráða í raun mestu. Þetta sé dálítið svipað kaupfélögunum okkar, að kaupfélagsstjórarnir ráða öllu þar, en kaupfélagsstjórnirnar litlu sem engu.

Um það er auðvitað ekki að villast að aðalmarkmið þessa frv. er fjölgun bankastjóra við bankann og um leið auðvitað heimild til aðstoðarbankastjóraráðningar. Það hefur lengi verið á döfinni og okkur í bankaráði Búnaðarbankans hefur út af fyrir sig ekki þótt það neitt óeðlilegt að meðan Búnaðarbankinn héldi sinni stöðu, þá væri þar nokkurt jafnræði með bönkum í þessu sem öðru. Það er auðvitað alveg rétt að lögin um Búnaðarbanka munu um margt úrelt og full þörf á að taka þau til endurskoðunar og það er nauðsynleg samræming milli allra ríkisbankanna. En þar held ég að þyrfti að koma til frekari samræming um ýmislegt í framkvæmd bankakerfisins í heild. Ég veit að vísu að þar er um að ræða eitt af aðalhlutverkum Seðlabankans, að sjá svo um að sem mest samræmi sé í störfum bankanna, og þar hefur auðvitað ýmislegt verið unnið.

Eins og hv. síðasti ræðumaður benti á þarfnast bankakerfi okkar í heild endurskoðunar og ýmislegt hefur þar komið upp miður gott. Ég vitna aðeins í blaðaskrif sem orðið hafa út af bankamálum almennt, þar sem það hefur verið staðfest af ábyrgum mönnum innan þess kerfis að möguleikar einstakra aðila og þá vitanlega þeirra, sem meira mega sín, til þess að spila beinlínis á þetta kerfi virðast býsna miklir eins og dæmi voru um tekin. Það er að segja það sem oft hefur verið haft að orði nú að undanförnu, að það sé ekki sama hvort það er Jón eða séra Jón. Það gæti vissulega komið til ærinnar skoðunar varðandi okkar bankakerfi. Fyrir svo utan það, sem er kannske einhver mesta meinsemdin í bankakerfinu, að ef einstakur aðili kemst í það að skulda það sem sagt er stundum „nógu mikið“, kemst í þá aðstöðu að skulda nógu mikið, eins og sagt er, nógu hrikalega mikið til þess að vafasamt sé að nema staðar og láta allt fara þá fjandans til, þá er einmitt til hins gagnstæða gripið og lánað æ meira í þeirri von að einhverri björgun verði við komið. Þetta er vitanlega ekkert einsdæmi um Búnaðarbankann. Þetta er meinsemd í okkar bankakerfi og getur stundum verið réttlætanleg, en hefur, eins og dæmi sanna, allt of oft verið gengið of langt í því efni.

Ég mun hins vegar víkja að þessu öllu nánar þegar málið kemur aftur úr n. og hafði jafnvel hugsað mér að víkja að því í n., þeirri sjálfsögðu n. sem þetta mál átti að fá til meðferðar að mínu viti, nema, eins og hv. þm. Ragnar Arnalds sagði, nema á þeim tíma sem málið verði til skoðunar í n. verði breyting á stefnu hæstv, ráðh. sem hann hafði greinilega von um, varðandi yfirstjórn bankans.

Það var vikið áðan að frv. sem flutt var á þingi 1974 um sameiningu ríkisbanka. Ég vil aðeins víkja að því að þá var það frv. m.a. gagnrýnt af talsmönnum þeirra sem báru Búnaðarbankann sérstaklega og landbúnaðinn fyrir brjósti. Það var einkum gagnrýnt af þeirri ástæðu, að með sameiningu við Útvegsbankann, með gífurlegri fjárþörf sjávarútvegsins annars vegar, þá mundi það fé, sem annars gæti komið til landbúnaðarins, hreinlega hverfa í þá hít og landbúnaðurinn hafa minna út úr bankakerfinu en áður. Þetta held ég að hafi verið alrangt sjónarmið af þeirri einföldu ástæðu að Búnaðarbankinn er auðvitað orðinn mjög almennur viðskiptabanki. Það er hins vegar Stofnlánadeild landbúnaðarins sem sér um þann þáttinn sem snýr að landbúnaðinum og sá þáttur hefði vitanlega verið óbreyttur í því efni.

Ég vil leggja áherslu, eins og hv. þm. Ragnar Arnalds, á það að vissulega er ofvöxtur í okkar bankakerfi og framtíðarstefnan hlýtur að eiga að vera sameining banka, fækkun banka og aukin hagræðing í þeim efnum. Mér er a.m.k. ekki kunnugt um að hinum almenna manni, sem þarf að ganga á milli bankastjóra, gangi miklu betur að fá nauðsynlega fyrirgreiðslu þó að bankahallirnar verði glæstari, þó að útibúin þenji sig út um allt og þó að bankaútibú og bankar séu hlið við hlið. Það virðist ganga jafnilla og það dugar allt hinum almenna og venjulega manni skammt ef sama svarið er alls staðar í gildi, það nei sem nú hljómar a.m.k. oftast í eyrum þess manns sem þarf til bankastjóranna að leita. Það ætti ekki út af fyrir sig að þurfa á fleiri bankastjórum að halda til þess eins að segja nei. En auðvitað gæti staða bankanna í heild átt eftir að breytast til batnaðar og þá um leið að þeir gætu hjálpað betur og meir hinum almenna manni, en það er nú því miður svo að það eru aðrir sem þar hafa allt of mikinn forgang.

Það er hins vegar rétt þegar farið er að líta á samanburð við aðra banka, eins og t.d. Útvegsbankann, sem hefur þetta miklu minni umsvif en Búnaðarbankinn, að það er röksemd að Búnaðarbankinn eigi ekki að hafa færri bankastjóra en Útvegsbankinn. En þá vaknar nú eiginlega miklu frekar sú spurning hjá mér hvort bankastjórarnir í hinum bönkunum séu ekki of margir. Landsbankinn er stór banki að vísu. Ég held að aðalbankastjórar og aðstoðarbankastjórar þar séu 6. Ég held að ég fari rétt með það. Það mætti líta á stöðu Búnaðarbankans í þessu sambandi og það sem hæstv. ráðh. minnti á áðan Allur hans upplestur sýndi að ekki hefur bankastjóraskortur staðið bankanum fyrir þrifum, það fer ekkert á milli mála. Ég skal hins vegar játa það sem bankaráðsmaður að álag á okkar bankastjórum er mikið. Þar spilar reyndar fleira inn í sem hér skal ekki farið út í, en menn vita þó. Og sannleikurinn er sá í dag t.d. að það eru þrír bankastjórar starfandi við bankann og verður svo fram til 1. júní a.m.k., þannig að þetta er ekki alveg eins tómlegt og af er látið. Á því verður þess vegna ekki nein óskapleg breyting, því að sannleikurinn er sá að nauðsynlegt hefur orðið að ráða þarna mann til viðbótar af ýmsum ástæðum sem ekki skulu raktar hér. En almennt er ekki nema von þó að menn reki upp stór augu þegar ríkisstj., sem er að ráðgera, að því er manni skilst, að gera tveggja mánaða til fjögurra mánaða stöðvun á gjaldeyrisöflun þjóðarinnar með tilheyrandi tveggja til fjögurra mánaða atvinnuleysi víðast hvar á landinu, skuli nú sjá til þess ríkasta ástæðu að fjölga bankastjórum, ekki síst þegar þess er gætt að þessir aðilar hafa nú vel í sig og á og a.m.k. bliknum við alþm. með okkar margumræddu lúxuskjör, — við bliknum algjörlega í þeim samanburði við þann háaðal, sem bankastjórarnir eru.

Ég skal ekki hafa miklu fleiri almenn orð hér um nú, til þess gefst tækifæri síðar. En ég vil aðeins drepa hér á nokkrar gr. frv.

Í 3. gr. er vikið að meginhlutverki bankans og meðan Búnaðarbankinn starfar sem slíkur, þá tek ég þar undir og þó frekar væri að meginhlutverk bankans er að styðja landbúnað og svo kemur viðbótin: „og greiða jafnframt fyrir fjármálaviðskiptum annarra atvinnugreina.“ Þegar Stofnlánadeildin er frá talin, þá er það hins vegar svo að landbúnaðurinn á út af fyrir sig ekki miklu meir innangengt í Búnaðarbankann en aðrar atvinnugreinar, það er staðreynd. Verslun og iðnaður eiga þar fullkomlega jafngreiðan aðgang og allt of oft berast okkur, sem erum í bankaráðinu, kvartanir frá hinum almenna bónda um það hvað Búnaðarbankinn sem bankastofnun utan Stofnlánadeildarinnar gerir þeim lítil skil, vanræki að hjálpa þeim. Sumt af þessu mun vera réttmætt, því miður, annað ofsagt, eins og oft er. Stofnlánadeildin er vitanlega sér á báti. Hún sinnir ekki öðru, svo sem rétt er, og er sú starfsemi, sem þar fer fram, ómetanleg fyrir bændastéttina. Ég hef gjarnan viljað fá frv. um Stofnlánadeildina og ákveðnari ákvæði þar. Það virðist eiga að biða betri tíma. Ég hefði frekar viljað fá frv. um þær tvær deildir, Stofnlánadeildina og veðdeildina, heldur en þetta frv., þar sem t.d. séð væri fyrir málefnum veðdeildarinnar um leið. Og ég fagna þeim till., sem Búnaðarþing lét frá sér fara um þessi mál núna á dögunum. Þær till. voru mjög skynsamlegar, m.a. varðandi það að færa húsnæðislán bænda almennt inn í húsnæðislánakerfið. Það tel ég fullkomlega rétt og hef bent á reyndar oft hér áður þegar húsnæðismál hafa verið til umr. almennt. Ég álít hins vegar að forstöðumaður Stofnlánadeildarinnar eigi að vera í sömu aðstöðu fullkomlega og bankastjóri. Það hefur að vísu verið svo, en það er nú fyrir tilviljun. Og meðan tengslin milli Búnaðarbankans og Stofnlánadeildarinnar eru slík sem þau eru, að þetta er deild frá bankanum, þá tel ég líka sjálfsagt að bankinu útvegi Stofnlánadeildinni beinlínis afgerandi ákveðið fjármagn til að lána bændum til hliðar við stofnlánin sem í mörgu eru alls ófullnægjandi í dag, alveg sérstaklega til tækjakaupa, sem orðin eru svo tilfinnanleg sem raun ber vitni. Dráttarvél, sem bóndi þarf að kaupa og kostar um 2 millj. kr. ef hún er góð, hann fær að vísu til þess 800 þús. kr. lán úr Stofnlánadeildinni, 40%, 1200 þús. þarf hann þá að leggja frá sjálfum sér. Mér er kunnugt um að einstaka útibú Búnaðarbankans — vonandi öll — bæta þar nokkru við til tveggja ára, allt að 20%. En engu að síður, ef við miðum við t.d. sjávarútveginn, þá eru þetta knöpp kjör varðandi atvinnutæki, eins og dráttarvélin er nú orðin ómissandi fyrir bóndann. Ég held að málefni Stofnlánadeildarinnar og veðdeildarinnar og staða þeirra þyrftu að skoðast sérstaklega, og ég ítreka það, að það hefði verið meiri ástæða til að leggja frv. fram um það heldur en það sem hér er á ferðinni. Á því var engin brýn nauðsyn.

Hæstv. ráðh. kom hér áðan sérstaklega inn á sérmál sem ekki skal rætt hér. Það er hin stórkostlega fjárvöntun Stofnlánadeildarinnar nú í ár. Ég hygg, miðað við það sem hæstv. ráðh. upplýsti áðan, að þá sé ekki mikilla svara að vænta nú. Ég veit að hæstv. ráðh. hefur verið að velta þessu vandamáli mjög fyrir sér. En sannleikurinn er auðvitað sá, miðað við ástandið og útlitið í dag, að það er hreinlega ekkert fé til nýrra framkvæmda á vegum bænda á þessu ári, ekki króna, og úr því verður vitanlega á einhvern hátt að bæta. Ég treysti hæstv. ráðh. til að vinna þar vel að svo að annað — ég vil segja vandræðaár verði nú ekki. Síðasta ár var hálfgert vandræðaár fram eftir öllu, þó að úr rættist vegna þess hve margir helltust úr lestinni og hættu við að endurnýja sínar umsóknir. Það var það sem bjargaði. Og þá hafa þeir auðvitað til þess meiri þörf nú að sækja á nýjan leik. En ef það ástand á að skapast að engar nýjar framkvæmdir bænda komist í gang á þessu ári, þá er það mjög alvarlegt fyrir bændastéttina og fyrir atvinnu í landinu yfirleitt, því að hér um gildir líka atvinna fyrir þá sem að þessum byggingum vinna þó að bændur séu manna duglegastir við að vinna að eigin byggingum.

IV. kafli frv. um stjórn bankans er e.t.v. sá kafli sem mestrar skoðunar þarf við og þá á ég við spurninguna um valdsvið bankaráðs annars vegar og bankastjórnar eða bankastjóra hins vegar. Um það þyrfti að fá sem skýrust svör í n. Ég vík t.d. að spurningunni um það hvort mannaráðningar samkv. 13. gr. ættu ekki að einhverju frekara leyti að heyra undir bankaráðið. A.m.k. ætti að mega að leita umsagna þess um mannaráðningar í meiri háttar stöður innan bankans, ekki bara útibússtjórastöðurnar eins og nú er. Alveg sérstaklega ætti starfsmannaráð í bankanum að hafa umsagnarheimild. Það er að vísu starfsmannastjóri, það er starfsmannafélag, en það ætti að vera starfsmannaráð sem mætti gera beinar till. um ráðningar í stöður. Þessu skýt ég að því að þetta vandamál hefur nokkuð borið á góma meðal starfsfólks Búnaðarbankans.

Í 13. gr. segir að bankaráðið ákveði laun starfsmanna bankans að sjálfsögðu. Nýlega kom þó upp mál sem þetta snerti og ég kemst ekki hjá að minna á hér. Það á rætur sínar að rekja til Seðlabankans sem hefur oft forgöngu um það sem okkur finnst á stundum miður skynsamlegt og er í nokkurri andstöðu við það sem þeir herrar, sem þar eru, prédika. Eins og menn vita eru 13 mánuðir í ári bankamanna, þar með talinna bankastjóra að sjálfsögðu. Þessir 13. mánuður er ætlaður fyrir yfirvinnu og mun hafa verið samkv. samningum milli bankamanna og bankayfirvalda á sínum tíma. En svo brá við á s.l. ári eða jafnvel á árinn þar áður að Seðlabankinn tók upp á því að greiða starfsmönnum aukauppbætur ofan á þetta fyrir yfirvinnuna. Þar var að sjálfsögðu byrjað ofan frá, þar greitt hæst og að því er ég best fæ skilið án tillits til vinnuálags. Í árslokin var sem sagt hjá flestum bönkunum eða öllum líklega skellt einhverri ákveðinni upphæð ofan á tiltekna starfsmenn. Þetta voru ekki stórar upphæðir víst, þó þreföld mánaðarlaun verkamanns til þeirra sem voru hæstir í launum. Þarna kann að hafa verið farið eftir einhverjum reglum. Seðlabankinn hefur sjálfsagt gengið á undan með góðu fordæmi þar eins og annars staðar. En þó setur að manni þann grun að þar kunni alveg eins að hafa ráðið geðþótti, því svo margar sögur hefur maður af þessu heyrt. Síðan lækkuðu þessar upphæðir, að ég hygg, og þurrkuðust út einhvers staðar fyrir ofan miðjan launastigann. Þetta mun hafa verið almennt svona í bönkunum, þannig er sagan sögð. Aðrir bankar hafa sem sagt fetað í fótspor Seðlabankans, enda starfsmenn þessara banka mjög þrýst á um það að þeir sætu ekki við verri kjör en starfsmenn Seðlabankans. Þetta mun hafa verið gert í Búnaðarbankanum einnig, en bankaráð hefur þar hvergi nærri komið með sinni samþykkt þó að það eigi samkv. lögum og eigi enn samkv. þessu nýja lagafrv. að ákvarða hér um. Sama er í raun og veru að segja um hlunnindi bankastjóra sem menn vita að eru stífustu ráðherrahlunnindi. Ég hef ekki rekist neins staðar á ákvörðun bankaráðs Búnaðarbankans og ég efast um ákvörðun bankaráða annarra banka um þessi mikilvægu hlunnindi. Þarna er um mikilvægustu kjaraliðina hjá bankastjórunum að ræða, þar sem eru þau hlunnindi að þeir geti fengið eftirgefin aðflutningsgjöld og tolla af bilum á þriggja ára fresti. Í raun og veru eru þetta miklu meira en ráðherrahlunnindi því að þessir menn, ef þeir haga sér skikkanlega, — maður verður nú að reikna með því af þessum mönnum, — þá geta þeir setið æði lengi í þessum stöðum, en ráðh., þó að þeir hagi sér skikkanlega í alla staði, þá geta þeir auðvitað fallið úr stólunum og ekki fengið nema kannske eins og einn bíl. En við skulum segja að bankastjóri starfi í 24 ár. Þá fær hann 8 bíla út á þetta og ef þannig vill til varðandi ár, þá getur hann krækt í þann 9. svona í lokin.

Um þetta hef ég sem sagt ekki fundið neinar samþykktir, og ég efast um að þær séu til. Okkur er jafnvel sagt að þetta hafi komið sem eins konar himnasending ofan úr stjórnarráði, að svona ætti þetta að vera, og það séu ein 6 ár síðan þessi himnasending kom til bankastjóranna. En auðvitað ríkir út af fyrrtalda málinu, um aukagreiðslurnar, þar ríkir bullandi óánægja meðal starfsfólks, held ég, allra bankanna með þetta fyrirkomulag, og auðvitað fáum við bankaráðsmenn orð í eyra fyrir þetta. En við höfum bara aldrei um málið fjallað og aldrei um það heyrt fyrr en þetta var allt búið og gert.

Hér þarf því ábyggilega vel að hyggja að. Þetta er kannske framkvæmdaatriði, en þetta snýr líka að því, og um það vil ég fá skýr svör áður en þetta frv. fer út úr þessari deild, hver hefur úrskurðarvaldið í málefnum bankans í öllu því sem máli skiptir, og það á auðvitað við um ríkisbankana alla. Eiga yfirráðin sem sagt að vera meira eða minna í höndum bankastjóranna eða eiga hinar þingkjörnu nefndir, bankaráðin, að hafa úrslitaaðstöðu á hverjum tíma og í hverju máli sem einhverju skiptir?

Að lokum þetta: Þetta frv. er vitanlega til þess eins að fjölga bankastjórum Búnaðarbankans. Ég sé enga sérstaka brýna ástæðu til þess eins og er, og allra síst gefur staða bankans og framvinda mála þar minnstu ástæðu til þess að halda að baukinn þjáist af skorti á bankastjórum, þó að bankaráðið að sjálfsögðu grípi þar inn í þegar þörf er á og bæti við starfskrafti inn í bankann þegar á því er full þörf. (Gripið fram í.) Samkv. kannske ekki mikilli heimild, það kann vel að vera. Við höfum ekki ráðið þennan mann sem bankastjóra, hann er í afleysingum hreinlega. Afleysingarheimildin held ég að sé alveg ótvíræð. En uppstokkun bankakerfisins í heild hlýtur auðvitað að vera brýnasta verkefnið og nauðsynlegt aðhald og eftirlit á þar að vera aðalatriðið. Varðandi þetta frv. legg ég áherslu á að sem fyrst verði vikið að málum Stofnlánadeildarinnar og veðdeildarinnar, hlutur þeirra verði tryggður sem best og þær fái aukið svigrúm til umsvifa og sem mest sjálfstæði og verulegan skyldustuðning Búnaðarbankans við Stofnlánadeildina.