17.03.1976
Efri deild: 78. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2640 í B-deild Alþingistíðinda. (2175)

198. mál, Búnaðarbanki Íslands

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður. — Mér urðu það vonbrigði þegar hæstv. landbrh. lét að því liggja að það hefði tíðum staðið á mínum stuðningi við afgreiðslu landbúnaðarmála. Ég hefði býsna gaman af því að vita um dæmi þess, — ég hef átt sæti í landbn. frá upphafi, — hvenær ég hafi þar brugðið fæti fyrir landbúnaðarmál eða þau mál sem til heilla landbúnaðinum yrðu. Ég þekki ekki dæmi þess, hvorki þaðan né annars staðar, og ég held, að ráðh. hafi þarna orðið mismæli á um það. Mér þykir það einnig mjög leitt og harma það sem hæstv. ráðh. upplýsti hér áðan varðandi spurninguna um heimild til þess að ráða bankastjóra í afleysingum í Búnaðarbankanum, ef það hefur verið gert í heimildarleysi af bankaráðinu. Það þykir mér mjög leitt að heyra. Hv. þm. Stefán Valgeirsson, sem er formaður bankaráðsins, er hér ekki nú á þingi og ég mun ekki fara frekar út í það mál. En annað hef ég ekki vitað en þarna lægi að baki full ráðherraheimild, og mér þykir mjög leitt að það skuli ekki hafa verið. Ég hélt að það hefði alltaf verið gert í fullu samráði við viðkomandi ráðh. Það er leitt að svo skuli ekki vera.

Varðandi valdsviðið hjá bankaráðinu og valdsvið bankastjórnarinnar hins vegar, það sem ég lagði áherslu á í því sambandi, þá gerði ég það af þeirri einföldu ástæðu að það er mjög leitt að það skuli gerast æ ofan í æ í bankaráðinu að um þetta sé deila. Því vildi ég fá sem allra skýrust ákvæði hér um, hvar þessi mörk lægju, og ekkert óeðlilegt við það að fá þau sem allra skýrust. Það eru ákvæði þarna til sem ákvarða þetta nokkuð skýrt, en þó ekki þannig að ég geti verið viss um það að svipaðar deilur og átt hafa sér stað í bankaráðinu geti ekki aftur sprottið upp. Ég held að það þurfi að fyrirbyggja þær því að slíkar deilur um túlkunaratriði eru með öllu óþarfar og óæskilegar.

Aðalmál hæstv. ráðh. gagnvart því, sem ég sagði, var að ég hefði tekið undir visst slúður. Ég hefði nú gaman af að vita hvaða slúður það hefði verið. Ef hæstv. ráðh. á við þær aukagreiðslur, sem ég var að tala um, aukagreiðslur til starfsmannanna, þá er það auðvitað ekkert slúður, hvorki úr blöðum né annars staðar. Þetta er staðreynd, en staðreynd sem því miður fór í gegn sennilega í öllum bönkum. Ég var ekki að taka Búnaðarbankann sérstaklega. Seðlabankinu hafði þarna forustu um mál sem fór í gegn í öllum bönkum án þess að bankaráðin hafi nm bað fjallað. Og ég var að segja að í þessu tilfelli vissi ég auðvitað sönnur þess að hetta hefði verið greitt. Hæstv. ráðh. veit það eflaust líka. Þetta er ekki slúður, þetta er sannleikur, en bankaráðið hefur ekki um það fjallað.

Ef hæstv. ráðh. hefur átt við orð þau sem ég benti á hér og voru höfð eftir trúnaðarmanni hjá Seðlabankanum varðandi það að hægt væri að spila á kerfið, þá benti ég aðeins á að það væri alvarlegt ef satt væri. Það getur vel verið að þessi trúnaðarmaður Seðlabankans fari með slúður, ég vil ekkert um það segja. Það kann mætavel að vera.

Annað var það nú ekki, því að ég held að hæstv. ráðh. hljóti að hafa misheyrst allhrapalega ef honum hefur heyrst að ég hafi tekið undir upphafleg blaðaskrif um Búnaðarbankann, sem urðu í janúar. Það gerði ég aldeilis ekkí. Ég sagði að þar hefði úlfaldi verið gerður úr mýflugu. Og ég veit að hæstv. ráðh. veit mætavel hvernig afgreiðsla þess máls fór fram í bankaráði Búnaðarbankans, þannig að hann þarf ekki að fara með það hingað inn að ég hafi á nokkurn hátt tekið þar undir. Ég furða mig á því ef það er það, því að það er eina atriðið sem ég get séð út úr því að ég hafi hér tekið undir slúður, það er það sem gerðist varðandi málefni Búnaðarbankans í janúar og nokkur blaðaskrif urðu út af og ég hef aldrei tekið undir einu orði, og það veit hæstv. ráðh. mætavel.

Varðandi orð hv. þm. Alberts Guðmundssonar, 12. þm. Reykv., vil ég aðeins segja þetta: Mín orð voru auðvitað almennt um bankana. Ég talaði ekki um Búnaðarbankann sérstaklega, heldur almennt um bankana, varðandi fyrirgreiðslur til hins almenna manns, og það kom auðvitað í ljós í máli hæstv. ráðh. Við getum deilt um hvort það sé eðlileg prósenta eða ekki eðlileg að til slíkra einkaaðila hefðu farið nálægt 10% af fé bankans. Það er auðvitað álitleg upphæð, en það er eigi að síður staðreynd að hærri var hún ekki. Um það má deila hvort hún er nægilega há eða ekki. Ég tel hana ekki nægilega háa í þessu tilfelli.

Um mannaráðningarnar vildi ég aðeins færa mig frekar lengra niður og þá alveg sérstaklega gagnvart starfsmannaráði bankans, ekki kannske bankaráði, heldur að starfsmannaráð bankans fengi meira að segja um mannaráðningar en bara á aðalbókara, aðalféhirði og útibússtjórum. Ég var ekki beinlínis að óska eftir því að bankaráðin ákvæðu þetta, heldur að það yrði ákvæði um að starfsmannaráðin í bönkunum gætu ákvarðað þetta.

Og svo aðeins út af því sem hv. þm. Halldór Ásgrímsson vék að. Það er alveg hárrétt hjá honum, bankaráðið hefur ekki í þessu tilfelli beitt valdi sínu varðandi þau launamál sem þarna er um að ræða. Ég á von á því að það muni gera það. En það er hins vegar alvarlegt mál þegar þetta fer svo gersamlega fram hjá bankaráðsmönnum eins og raun bar vitni um. Ég vona að bankaráðið eigi eftir að taka þetta mál fyrir og veit reyndar að það verður gert. Það væri mjög óeðlilegt eins og hann sagði, ef það gerði það ekki. Þá beitti það ekki sínu raunverulega valdi.