17.03.1976
Efri deild: 78. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2645 í B-deild Alþingistíðinda. (2178)

198. mál, Búnaðarbanki Íslands

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Í fyrstu ræðu minni lýsti ég ánægju minni með að hæstv. ráðh. skyldi gera það að till. sinni að vísa þessu máli til fjh.- og viðskn., því að ég taldi að það bæri vott um réttan skilning á þessu máli. Hér er um að ræða bankamál og þau eiga að sjálfsögðu heima í þessari n., enda hefur það verið upplýst að þegar þessi lög hafa áður verið til umr. hér og fluttar hafa verið brtt. við þau, þá hefur þeim verið vísað til fjh: og viðskn. Satt að segja skildi ég ekki með hvaða rökum ætti þá nú að hafa annan hátt á. En það var haft eftir skrifstofustjóra í einni setningu að það kynni að vera hugsanlegt að gera það.

Ég vil sem sagt, vegna þess að hv. seinasti ræðumaður minnti mig einmitt á þetta atriði, ég hafði gleymt þessu, þá vil ég eindregið taka upp fyrstu till. hæstv. ráðh. og gera það að till. minni að málinu verði vísað til fjh.- og viðskn.