04.11.1975
Sameinað þing: 11. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í B-deild Alþingistíðinda. (218)

290. mál, virkjunarrannsóknir á Fljótsdalsheiði

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Það er spurt um hvenær niðurstaðna sé að vænta af rannsókn þeirri á virkjun Bessastaðaár sem fram hefur farið, þannig að fullnaðarákvörðun um virkjun megi taka.

Á síðasta þingi var flutt og samþ. stjfrv. um virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal. Skv. þeim lögum var ríkisstj. heimilað að fela Rafmagnsveitum ríkisins að reisa og reka vatnsaflstöð við Bessastaðaá í Fljótsdal með allt að 32 mw. afli. Rafmagnsveitur ríkisins gerðu síðan samning við verkfræðifyrirtækið Hönnun hf. um áætlunargerð þessarar virkjunar. Á fyrstu mánuðum þessa árs var unnið á vegum Rafmagnsveitna ríkisins og Hönnunar að frumáætlun um virkjunina og tillögugerð um það hvernig staðið skyldi að virkjunarrannsóknum á svæðinu. Fljótlega var valin hönnunarstjórn virkjunarinnar. Í henni eiga sæti Sverrir Ólafsson yfirverkfræðingur hjá Rafmagnsveitum ríkisins, Finnur Jónsson verkfræðingur hjá Hönnun og dr. Gunnar Sigurðsson verkfræðingur.

Virkjunarrannsóknirnar sjálfar hófust síðan á svæðinu á s. l. vori. Það voru margs konar rannsóknir til undirbúnings virkjunar. Rannsóknirnar hófust í byrjun júnímánaðar og stóðu fram í byrjun október. Á þeim tíma var mælt fyrir stíflum við þau miðlunarlón, sem þarna þarf að gera, auk þess sem undirstöður undir stíflur voru kannaðar. Gerð var könnun á efnisnámum vegna töku fylliefna í stíflur og tekin sýni úr þessum námum. Boraðar voru tvær 200 m djúpar rannsóknarborholur til könnunar á gerð og þykkt berglaga í Valþjófsstaðahlíð. Byrjað var á þriðju holunni uppi á heiðarbrúninni, en þeirri holu varð ekki lokið. Niðri í Fljótsdal var mælt og borað á þeim stöðum sem heppilegast er talið að grafa frárennslisskurði frá virkjuninni. Haldið var áfram mælingum á rennsli fallvatna á þessu svæði. Í sumar var einnig unnið að könnun á lífríki virkjunarsvæðisins. Gerð var yfirlitskönnun á svæðinu sem heild og auk þess sérstök könnun á lífríki vatna á heiðinni og gróðurfari þeirra svæða sem fyrirhugað er að fari undir vatn við gerð miðlunarlóna. Þessar rannsóknir á lífríkinu voru unnar af Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Orkustofnun og Náttúrugripasafninu á Neskaupstað sem einnig hafði umsjón með þessum hluta rannsóknanna.

Nú stendur yfir úrvinnsla þeirra gagna sem aflað hefur verið í sumar. Má gera ráð fyrir að meginniðurstöður liggi fyrir í áfangaskýrslu í janúarmánuði n. k. Í þeirri skýrslu verður kostnaðaráætlun fyrir virkjunina og mat á hagkvæmni hennar almennt. Fullnaðarúrvinnslu þeirra gagna, sem fyrir liggja, mun væntanlega verða lokið síðari hluta vetrar og með tillíti til þess er fullnaðarákvörðunar um virkjunina að vænta síðari hluta þessa vetrar.

Í öðru lagi er spurt um hvort rétt sé að Suisse Aluminium eða aðrir erlendir aðilar hafi átt einhverja aðild að rannsókninni eða hvort uppi séu ákvarðanir um slíka aðild hvað snertir frekari rannsóknir eða framkvæmdir varðandi hugsanlega stórvirkjun þar eystra.

Engir erlendir aðilar hafa starfað að undirbúningsrannsóknum að Bessastaðaárvirkjun. Hins vegar fóru fulltrúar Suisse Aluminium þess á leit við viðræðunefnd um orkufrekan iðnað að fyrirtækið mætti senda verkfræðinga til landsins til að kynna sér virkjunaraðstæður á Austurlandi. Varð viðræðunefndin við þeim tilmælum og komu tveir verkfræðingar hingað til lands í ágústmánuði s. l. Þeir fóru um hugsanlegt virkjunarsvæði í fylgd með íslenskum verkfræðingum sem kynntu þeim helstu niðurstöður þeirra rannsókna sem Orkustofnun hafði framkvæmt á svæðinu.